Lagaheimild til að skylda sakborninga til dvalar á meðferðarstofnun

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 12:46:34 (7286)

2001-05-09 12:46:34# 126. lþ. 117.12 fundur 617. mál: #A lagaheimild til að skylda sakborninga til dvalar á meðferðarstofnun# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[12:46]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég ítreka þakkir til fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa við þessu mikilvæga máli og þeim hv. þm. sem kom að þessu einnig.

Málefni ungra afbrotamanna þurfa að vera til viðvarandi athugunar og beita verður öllum tiltækum ráðum til að sporna við því að ungt fólk leiðist út á braut afbrota.

Eins og ég vék að í fyrri ræðu minni hafa dómstólar ekki í ríkum mæli beitt heimild til að binda skilorðsdóma við meðferð á stofnun en þessu úrræði er þó beitt og það er mat mitt að vel komi til álita að beita því í enn ríkari mæli og fyrir því mun ég beita mér af fremsta megni. Ég vil þó taka fram að vitanlega eiga dómstólar lokaorð í þessum efnum.

Ég tel fulla ástæðu til að ætla að dómstólar til framtíðar litið muni beita þessu úrræði oftar, enda hefur þróunin orðið sú að nú standa fleiri og betri úrræði til boða en áður var. Þótt umræddri heimild til að binda refsingu á skilorði um meðferð hafi ekki verið beitt í ríkum mæli, vil ég geta þess að meðferðarúrræði nýtast ungum afbrotamönnum einnig með öðrum hætti.

Um nokkurra ára skeið hefur verið í gildi samkomulag milli Fangelsismálastofnunar og Barnaverndarstofu um að ungir afbrotamenn sem dæmdir eru í óskilorðsbundna refsingu taki refsingu sína út með dvöl á meðferðarstofnun fyrir ungmenni sem eiga í vanda vegna eigin hegðunar. Með þessu er verið að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að ungir afbrotamenn dvelji í fangelsum, enda getur slík vistun verið mjög óheppileg. Er ótvírætt að önnur og vægari úrræði eru mun vænlegri til árangurs með velferð þessara barna í huga og því ber að beita slíkum úrræðum eftir því sem frekast er unnt.

Þegar það reynist á hinn bóginn óhjákvæmilegt að ungmenni taki refsingu sína út í fangelsi er mjög mikilvægt að standa að fullnustu þannig að hún verði ungmenni ekki til skaða. Í því sambandi sé ég fyrir mér nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu sem geti haft mikilvægu hlutverki að gegna, svo sem varðandi greiningu, þannig að unnt sé að koma til móts við mismunandi þarfir fanga.

Þá vil ég að lokum geta þess að ég hef beitt mér fyrir því að skilorðseftirlit verði eflt og þar hefur verið bætt við starfskrafti. Skilorðseftirlit gegnir mikilvægu hlutverki. Og ef vel tekst til getur það verið skjólstæðingi til aðstoðar ef eitthvað bjátar á og jafnvel getur það komi í veg fyrir að hlutirnir fari á verri veg ef nógu fljótt er gripið inn í.