Skólaskip fyrir grunnskólanemendur

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 12:49:22 (7287)

2001-05-09 12:49:22# 126. lþ. 117.13 fundur 696. mál: #A skólaskip fyrir grunnskólanemendur# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[12:49]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Rekstur skólaskips hefur verið draumur margra unnenda sjómennskunnar, þeirra á meðal hæstv. núverandi utanrrh. sem lét byggja sérstakt skólaskip fyrir tæpum 20 árum. Fleiri áhugamenn um skólaskip og rekstur slíks skips eru hér á hinu háa Alþingi, m.a. sá sem hér stendur.

Sérstakur samningur var gerður fyrir þremur árum við Hafrannsóknastofnun um að hafrannsóknaskipið Dröfn yrði rekið sem skólaskip hluta úr ári. Þetta fyrirkomulag hefur tekist afskaplega vel, enda færustu vísindamenn landsins þar um borð sem hafa uppfrætt ungt fólk um lífið í sjónum og hvernig veiðarfæri eru notuð.

Mikil óvissa hefur verið um þennan rekstur eftir að tveggja ára reynslutíma lauk í fyrra og sveitarfélögin hafa hafnað þátttöku í rekstrinum. Í mínum huga væri það meiri háttar uppgjöf ef rekstri skips sem þjónaði grunnskólum landsins um innsýn í þennan mikilvægasta atvinnuveg þjóðarinnar yrði hætt. Sú skoðun mín hefur reyndar lengi verið og margra hér inni. Því er mjög mikilvægt að slíkum rekstri verði haldið áfram og nauðsynlegt fjármagn fengið svo ungmenni fái tækifæri til að kynnast þessum atvinnuvegi beint í ferðum með slíku skipi.

Til að draga þetta mikilvæga og ég mundi segja ánægjulega mál fram í dagsljósið hér á hinu háa Alþingi, þá ákvað ég að leggja fram fyrirspurn til hæstv. sjúvtrh. Ég veit að skólafólk bíður eftir því að fá að vita hvað verður um reksturinn á næsta ári og hvernig honum verði háttað. Það verður að segjast eins og er að ekki hefur borið mikið á því meðal sveitarstjórnarmanna að mikilvægi þessa máls hafi komist til þeirra, en ég vona að hægt verði að ná slíkum áhuga upp með umræðu.

Ég hef af þessum ástæðum, herra forseti, lagt fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. sjútvrh., sem hljóðar svo:

1. Hve margir nemendur hafa farið með skólaskipinu Dröfn meðan það hefur þjónað sem slíkt?

2. Frá hve mörgum grunnskólum koma þessir nemendur og hve mörgum sveitarfélögum?

3. Hver hafa viðbrögð nemenda og kennara verið við ferðum skólaskipsins?

4. Hvernig hefur kennsla farið fram um borð í bátnum?

5. Hvernig hyggst ráðherra haga rekstri skólaskips í framtíðinni?