Efnahagsmál og gengisþróun krónunnar

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 13:43:51 (7294)

2001-05-09 13:43:51# 126. lþ. 118.94 fundur 517#B efnahagsmál og gengisþróun krónunnar# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Efnahagsmál eru snúin mál og langt frá því að vera einföld, enda margir samverkandi þættir sem þar eru að verki. Það er þó alveg ljóst, herra forseti, að flestir efnahagssérfræðingar sem hafa tjáð sig um efnahagsástandið telja eitt brýnasta úrlausnarefnið að efla hér stöðugleika með því að auka erlent fjármagn í íslensku efnahagslífi, annaðhvort með fjárfestingum eða gjaldeyrisöflun frá atvinnuvegum.

Þá er eðlilegt að menn spyrji: Hvar er hægt að nálgast slíkt fjármagn? Ef við lítum á eina höfuðatvinnugrein okkar, sjávarútveginn, þá er ljóst að eins og staðan er þar núna er ekki að vænta mikillar aukningar í gjaldeyrisöflun á því sviði. Hvað með aðrar greinar, svo sem ferðaþjónustu, lyfjaframleiðslu, kvikmyndagerð og aðrar sprotagreinar sem upp hafa komið? Efnahagssérfræðingar segja að hver slík grein vegi afskaplega lítið á heildina litið. Hitt er annað mál, herra forseti, að flestir efnahagssérfræðingar eru sammála um að skjótvirkasta aðgerðin sé að nýta vistvæna orkugjafa okkar Íslendinga, m.a. til stóriðju og fjárfestingar erlendra aðila í fyrirtækjum á Íslandi.

Herra forseti. Þrátt fyrir þessa efnahagsstefnu hefur ítrekað komið fram að hv. þm. Vinstri grænna eru ósammála þessu mati allra efnahagssérfræðinga sem hafa tjáð sig um málið. Því er eðlilegt að spyrja, í ljósi þess uggs sem hv. málshefjandi sýndi hér, hvort orðið hafi breyting á atvinnustefnu hv. þm. Vinstri grænna. Þeir hafa augljóslega lagst eindregið gegn allri nýtingu vistvænna orkugjafa til stóriðju, gegn erlendri fjárfestingu og þannig má áfram telja. Þeir hafa með öðrum orðum lagst gegn þeim ráðum sem flestir efnahagssérfræðingar mæla með. Ég spyr því hvort hér hafi orðið stefnubreyting hjá vinstri grænum eða hvort þeir séu enn við sama heygarðshornið í trássi við alla helstu efnahagssérfræðinga þjóðarinnar.