Efnahagsmál og gengisþróun krónunnar

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 13:50:47 (7297)

2001-05-09 13:50:47# 126. lþ. 118.94 fundur 517#B efnahagsmál og gengisþróun krónunnar# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég heyrði ekki betur á máli málshefjanda hér en að hann væri gagnrýninn á það að ríkisstjórnin og Seðlabankinn hefðu í sameiningu tekið ákvarðanir um það hér í lok mars að gjörbreyta gengisskipulaginu. Og að mikið hefði verið færst í fang með að hverfa frá vikmörkunum, taka upp verðbólgumarkmið, auka sjálfstæði bankans og lækka vextina. Ber að skilja það svo að hv. þm. og flokkur hans sé á móti þessum aðgerðum? Ber að skilja það svo að þeir hafi t.d. verið á móti vaxtalækkuninni eða auknu sjálfstæði Seðlabankans?

Menn verða bara að skilja að það kerfi sem nú var tekið upp býður upp á meiri sveiflur en áður voru, býður upp á það að markaðurinn bregðist of sterklega við válegum tíðindum eða góðum tíðindum. Og það er nákvæmlega það sem hér hefur verið að gerast.

Það er ekki vafi á því að sjómannaverkfallið hefur haft áhrif á gengisþróunina. Það er ekki vafi á því að skorturinn á gjaldeyri sem orsakast af þessu verkfalli var farinn að hafa áhrif þegar það hafði staðið í mánuð. Dapurleg tíðindi af því tagi hafa auðvitað áhrif á þennan markað. Menn verða að skilja að umhverfið er breytt. Menn eiga ekki að rjúka upp til handa og fóta út af slíkum tíðindum eins og menn gátu gert hér áður fyrr.

Í grundvallaratriðum er hagkerfi okkar í góðu lagi. Og í grundvallaratriðum er efnahagsleg staða okkar mjög sterk. Allar matsstofnanir sem hafa lagt á þetta mat nýlega eru sammála um það og þau fyrirtæki sem hafa atvinnu af því að gefa lánshæfiseinkunnir. Staða okkar er mjög sterk. Og það er ekki vafi á því, þó nú verði minni hagvöxtur í ár en verið hefur undanfarin ár, að engar sérstakar líkur eru á því að lendingin verði eitthvað miklu harðari en við höfum gert ráð fyrir. Þessi hugtakanotkun um mjúka lendingu eða harða lendingu er úrelt. Það sem ná þarf hér er snertilending þar sem við náum ... (Gripið fram í.) Já, hlæðu bara hv. þm. Þetta er allt mjög hlægilegt sem hér hefur komið fram --- þar sem við náum aftur hagvextinum sem við höfðum hér fyrir nokkrum árum, náum efnahagslífinu hér á nýtt flug með aukinni stóriðju og öflugu atvinnulífi.