Efnahagsmál og gengisþróun krónunnar

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 13:53:14 (7298)

2001-05-09 13:53:14# 126. lþ. 118.94 fundur 517#B efnahagsmál og gengisþróun krónunnar# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[13:53]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er ábyggilega rétt hjá hæstv. forsrh. að það er mikilvægt að halda ró sinni. Það er alveg ábyggilegt að það er einnig rétt hjá hæstv. fjmrh. að við þurfum að ná snertilendingu. Og það er líka mikilvægt ábyggilega í snertilendingu að halda ró sinni í lendingunni og á leiðinni til lendingar.

Það er einnig athyglisvert, herra forseti, hversu mikið ber á milli þeirra talsmanna ríkisstjórnarinnar sem hér hafa talað og seðlabankastjóra þegar hann fjallar um ástandið. Með leyfi forseta, segir Birgir Ísleifur Gunnarsson, í viðtali við Morgunblaðið laugardaginn var m.a.:

,,Ljóst má vera að óhóflegur viðskiptahalli grefur til lengdar undan genginu ... og getur þar með sett verðstöðugleika í hættu.``

Herra forseti. Það gengur ekki að talsmenn ríkisstjórnarinnar horfi fram hjá þeirri staðreynd að hætta er á því að verðstöðugleikinn sé að hverfa. Það þarf því að grípa til aðgerða. Það þarf að gefa skilaboð til markaðins sem hann skilur. Það virðist því miður vera þannig að markaðurinn hafi að hluta til a.m.k. misst trú á hagstjórninni og það er alvarlegur hlutur. En við skulum halda ró okkar.

Það er fleira í þessu viðtali við seðlabankastjóra. Hann segir m.a., með leyfi forseta:

,,Nýsett verðbólgumarkmið bankans mun þó nást að lokum þrátt fyrir tímabundinn verðbólgukúf og harkalegri aðlögun en vonast var eftir.``

Herra forseti. Spurningin er: Er harkalegri aðlögun það sama og hæstv. fjmrh. kallar snertilendingu eða er munur á merkingu orða?

Herra forseti. Því miður hefur andvaraleysi gagnvart viðskiptahalla, þenslu og verðbólgu einkennt þá ríkisstjórn sem við nú höfum. Því er spurning hvort andvaraleysi eða afneitun hæstv. forsrh. sé ekki okkar helsta efnahagsvandamál í dag?