Efnahagsmál og gengisþróun krónunnar

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 14:00:08 (7301)

2001-05-09 14:00:08# 126. lþ. 118.94 fundur 517#B efnahagsmál og gengisþróun krónunnar# (umræður utan dagskrár), VE
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[14:00]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Sú gengislækkun sem varð sl. miðvikudag var sannarlega mikil og óvænt og fyrir henni voru ekki efnahagslegar forsendur enda er þessi gengislækkun að ganga til baka. Þau viðskipti sem urðu þennan dag voru langt út úr korti miðað við það sem eðlilegt er og þarf vegna viðskipta með vöru og þjónustu og eðlilegra fjármagnshreyfinga.

Ég tel að markaðsaðilar muni læra af því sem gerðist þennan dag og að gengisbreytingarnar muni ganga til baka hægt og rólega. Að mínu mati er ekki óeðlilegt að búast við því að gengið muni sveiflast á bilinu 125--130 miðað við gengisvísitöluna.

Verkefni okkar er og hlýtur að vera að efla atvinnulífið til lengri tíma. Það bætir lífskjörin og styrkir gengið. Þess vegna verður athyglisvert að fylgjast með því hvernig málshefjandi og aðrir stjórnarandstæðingar muni bregðast við helstu aðgerðum sem þarf að gera til þess að efla atvinnulífið.

Ég nefni stóriðjuna.

Ég nefni lækkun á tekjuskatti fyrirtækja og eignarskatti.

Ég nefni einkavæðingu og eflingu bankakerfisins.

Ég nefni aðgerðir til þess að auka fjárfestingar erlendra aðila.

Ég nefni aðgerðir til þess að auka hagræðingu í sjávarútvegi.

Ég nefni ýmsar nýjungar í atvinnulífinu eins og starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar og því sem slíku fylgir.

Ég hef trú á því að stjórnarandstaðan muni ekki standa sig jafn vel í því að styðja framfarirnar og hún er tilbúin til þess að koma upp og vera með úrtölur þegar sveiflur verða á gengi krónunnar.