Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 14:31:19 (7309)

2001-05-09 14:31:19# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Guðjón A. Kristjánsson (frh.):

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir sérstakri ánægju minni með að hæstv. iðnrh. skuli geta verið hérna viðstaddur smástund. Ég mun ekki gera kröfu til þess að hún sitji hér í allan dag meðan ég tala en vildi beina til hennar nokkrum hugleiðingum eða vil a.m.k. að hún hlusti á þær þannig að hún væri svo fær um að gefa komment á það síðar ef tilefni er til.

Fyrir liggur að á Vestfjörðum, á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða, eru a.m.k. tveir mjög vænlegir virkjunarkostir. Annar er tengdur Glámuhálendinu og hefur það verið kölluð þakrennuvirkjun. Hinn virkjunarkosturinn sem einnig hefur verið talinn mjög áhugaverður er í Strandasýslu, norðarlega nokkuð, norður í Ófeigsfirði. Báðir þessir virkjunarkostir þykja nokkuð vænlegir til orkuöflunar og talið er að þar megi tryggja nokkuð góðan vatnsbúskap og nokkuð örugga og jafna framleiðslu.

Í Hvalfirði er álfyrirtæki sem heitir Norðurál. Það mun vera svo og liggur ljóst fyrir að hæstv. iðnrh. stóð í viðræðum við það fyrirtæki fyrir ekki löngu um það hvernig hægt væri að afla því fyrirtæki orku. Síðast í morgun, herra forseti, var ég á fundi þar sem ég heyrði forsvarsmenn fyrirtækisins Norðuráls segja frá því hvaða orku þá vantaði og í hvaða áföngum. Ég hlýddi einnig þar á mál forstjóra Landsvirkjunar um það hvaða möguleika þeir sæju á því að afla slíkrar orku.

Á orkuveitusvæði Vestfjarða þarf að kaupa talsvert mikla orku vegna þess að á Vestfjöðrum er ekki framleidd næg orka fyrir fjórðunginn. Fyrir liggur líka að til stendur uppbygging í mörgum landshlutum. Til stendur álversuppbygging á Austurlandi og orkuöflun fyrir það uppi á hálendinu austan lands og fyrir dyrum standa orkuframkvæmdir sunnan lands.

Þess vegna er það spurning mín til hæstv. iðnrh. hvort megi hugleiða hvort taka mætti til virkjunar þá tvo allvænlegu orkukosti sem fyrir liggur að eru fyrir hendi í Vestfirðingafjórðungi. Ég spyr einnig: Er nokkuð sérstakt því til fyrirstöðu að t.d. hlutur ríkisins eða hálfur hlutur ríkisins í Orkubúi Vestfjarða yrði seldur fyrirtæki eins og Norðuráli ef þeir fengjust til að fjármagna það og koma að því og í stað þess að orkan yrði flutt að hluta til frá Suðurlandi í gegnum byggðalínu eða vesturlínu til Vestfjarða þá yrði til, innan ekki margra ára, nægt afl á Vestfjörðum úr vestfirskum virkjunum fyrir Vestfirðinga þannig að það afl sem núna fer vestur yrði þá til ráðstöfunar inn í orkuþörf m.a. álvers Norðuráls í Hvalfirði?

Þetta var sú spurning og sú hugmynd sem ég vildi varpa fram í þessari umræðu. Fyrir liggur að atvinnuuppbygging á Vestfjörðum að þessu leyti yrði afar jákvæð fyrir þann landshluta og það væri virkileg vítamínsprauta fyrir atvinnulíf og uppbyggingu í fjórðungnum ef þar kæmu til framkvæmdir sem tengdust virkjun þeirra mögleika sem Vestfirðingar eru taldir eiga í allþokkalegum virkjunarkostum. Þar með gætu landsmenn e.t.v. séð fram á að ekki væri bara verið að virkja á Suðurlandi, byggja upp á Vesturlandi, byggja upp á Austfjörðum og flytja mikið af verkefnum norður í land til Akureyrar heldur væri líka möguleiki á því að framkvæma eitthvað norður á Vestfjörðum sem væri jákvætt fyrir þróun byggðar og atvinnulífs. Þar fyrir utan, með því að standa svona að málum, væru menn kannski lausir úr því leiðindahjólfari sem frv. sem við ræðum byggir á, þ.e. því að ríkið kaupi upp eignarhluti sveitarfélaganna á Vestfjörðum í orkubúinu til þess að greiða uppsafnaðan vanda af tómum íbúðum í félagslega íbúðakerfinu á Vestfjörðum. Ef þetta reyndist hægt væri þar af leiðandi kannski í raun verið að velta upp þeim möguleika að gera á Vestfjörðum fyrir Vestfirðingum eitthvað svipað og gert var í Mývatnssveit, í kjördæmi hæstv. iðnrh., þar sem hlutur ríkisins í Kísiliðjunni var seldur og fjármagnið notað til uppbyggingar í viðkomandi landshluta.

Það er svolítið bjartara yfir þeirri hugsun, hæstv. iðnrh., en þeirri vegleysu sem Vestfirðingum er boðið upp á í þessu frv. um Orkubú Vestfjarða, sem er í raun og veru bara hringferð peninganna, annars vegar frá ríkinu í gegnum kaup á orkubúinu og hins vegar aftur úr orkubússölunni í gegnum sveitarsjóðina til baka inn í greiðslu í félagslega íbúðakerfinu.

Ég hef sagt það áður í ræðum mínum um orkubúið að mér finnst það ömurlegt hlutskipti sem Vestfirðingum er boðið upp á við þessa sérmeðferð. Ég vil ekki sjá þá tekna út fyrir sviga sérstaklega í félagslega íbúðakerfinu þannig að þeim sé gert að selja eignir sínar til þess að standa að þeirri hringferð peninganna sem birtist í greinargerð með frv. um Orkubú Vestfjarða.

Um daginn var hér rætt frv. um sölu ríkisins á eignarhlut í Orkuveitu Suðurnesja. Þar var auðvitað farið allt öðruvísi að en í þessu frv. þar sem um var talað að jafnvel þeir fjármunir sem kæmu úr þeirri sölu nýttust í því kjördæmi, t.d. við tvöföldun Reykjanesbrautar. Allt að einu, hvar sem maður ber niður í þeim umræðum sem orðið hafa á hv. Alþingi á undanförnum vikum og mánuðum um breytingar á orkufyrirtækjum, þá er alveg ljóst að frv. um Orkubú Vestfjarða ber allt annan svip. Í því falin allt önnur aðferð en tíðkuð er annars staðar á landinu.

Ég ítreka að sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum sögðu íbúum Vestfjarða aldrei í síðustu sveitarstjórnarkosningum að til stæði að selja Orkubú Vestfjarða og það væri þeirra mesta baráttumál eða stefnumál á kjörtímabilinu. Það var þeim ekki sagt og þeir kusu ekki um það.

Það hefur verið sagt við mig að ég ætlaði mér stórt, að standa í vegi fyrir því að sveitarstjórnarmönnum á Vestfjörðum tækist að selja orkubúið. Það kann vel að vera. Ég er hins vegar sannfærður um að menn eiga að reyna að fylgja því eftir sem þeir hafa verið kosnir til og staðið fyrir í kosningabaráttu og að það var ekki hlutverk vestfirskra sveitarstjórnarmanna að ganga til þessa leiks. Þar eru þeir að bregðast vestfirskum íbúum. Ef verið er að taka fram fyrir hendurnar á þeim í einhverju með því að reyna að koma í veg fyrir að þeir hlutir gerist sem koma fram í greinargerð frv. þá mun ég bara fylgja sannfæringu minni í því eins og ég hef svarið að gera og mun ekki fylgja neinu öðru.

Ég segi enn og aftur að ég er andvígur þeirri leið sem sett er upp í frv. Í sjálfu sér er ég ekki andvígur því að breyta fyrirtækinu Orkubúi Vestfjarða í hlutafélag, ef það væri markmiðið, til þess að gefa fyrirtækinu rýmri kosti til að takast á við fjárfestingar og uppbyggingu t.d. í öðrum fyrirtækjum í viðkomandi landshluta sem er starfssvæði fyrirtækisins.

Síðan við ræddum málið hér síðast hefur frv. til raforkulaga verið lagt fram á Alþingi. Þar er boðað m.a. að eðlilegt sé að skipt verði upp þeim möguleikum og verkefnum sem orkufyrirtæki í landinu annast í dag, að dreifingarþættinum t.d. og framleiðsluþættinum verði skipt upp eða lagningu dreifilína og öðru slíku. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. iðnrh. hvort ekki væri ráð að láta frv. um Orkubú Vestfjarða bíða haustsins og að mönnum yrði þá gefinn kostur á því að finna útfærslu sem væri e.t.v. einhver málamiðlun þess sem í frv. stendur, þ.e. að ríkið kaupi hlutina af sveitarfélögunum, eins og fyrirtækið er nú, og þess sem ný raforkulög fela í sér varðandi skipulag, eignarhald og starfsemi fyrirtækja á þessu sviði raforkuöflunar og dreifingar. Ég held að það sé ráðlegt að velta því fyrir sér.

Hæstv. forseti. Ég hef lagt fram brtt. við þetta frv. Hún byggir á því að þrátt fyrir að samþykkt verði að stofna hlutafélag um Orkubú Vestfjarða þá verði á tímabilinu 1. júní 2001 til 1. júní 2004 óheimilt að selja eignarhluta í Orkubúi Vestfjarða. Þetta hef ég lagt til sem brtt. við þetta frv. um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og það er ekkert launungarmál að ég legg það fram hér í þeim tilgangi að reyna að koma í veg fyrir það slys sem mér finnst að felist í frv. Ég vonast til þess að menn skilji að sú framsetning sem í því felst að setja inn ákvæði um að mönnum sé ekki heimilt að selja hluti sína í ákveðinn tíma eftir að fyrirtækinu hefur verið breytt í hlutafélag geti orðið til þess að mál þróist með öðrum og betri hætti fyrir íbúa á Vestfjörðum en mér finnst að þeim séu settir í því frv. sem við ræðum nú.

[14:45]

Í þessari brtt. felst reyndar ekki stórkostleg breyting frá núverandi ástandi. Þetta er sameignarfélag með takmörkun á ráðstöfun eignarhluta þess. Þessi brtt. felur þannig ekki í sér mikla breytingu frá núverandi ástandi. Hún felur hins vegar í sér breytingu frá frv., þ.e. að sala eins og sú sem gert er ráð fyrir í frv. geti ekki átt sé stað á næstu þremur árum.

Hins vegar kann að vera, með tilliti til frv. til raforkulaga sem mér skilst að muni verða vísað til 2. umr. og bíða síðan haustsins, möguleiki á að útfæra þessa tillögu og gera hana svolítið öðruvísi úr garði en ég sé ekki ástæðu til þess nú. Ef tillagan verður felld, sem ég vil síður, mun ég skoða það að leggja fram tillögu við 3. umr. sem nálgast mundi þau sjónarmið sem m.a. er lýst í frv. til raforkulaga, um að hægt sé að skipta eignarhluta í fyrirtækjum upp milli framleiðslu, sölu og dreifingar.

Ég verð að ítreka að mér finnst vegið að Vestfirðingum með frv. sem hér er til umræðu, sérstaklega þar sem fram kemur í greinargerð þess að það sé beinlínis flutt til að gera sveitarfélögunum á Vestfjörðum kleift að takast á við fjárhagsvanda sinn. Þar kemur fram að aðaltilgangur frv. sé að þegar það hefur verið samþykkt muni sveitarfélögin eiga kost á að selja sinn hlut eftir þeim verðmætisviðmiðum sem sett hafa verið upp í samningsdrögum milli sveitarstjórnarmanna. Ég hefði viljað sjá þessari hugsun í frv. og greinargerð þess algjörlega snúið við, að ríkið mundi selja eitthvað af sínum hlut og þeir fjármunir sem kæmu fyrir hlut ríkisins yrðu þá notaðir til þess að aðstoða sveitarfélögin á Vestfjörðum. Það fé yrði notað til uppbyggingar með sama hætti og raunar hefur verið gert með lagasetningum hér á Alþingi, m.a. varðandi Kísiliðjuna eins og ég vék að hér áður í máli mínu.

Herra forseti. Í tilefni af þeirri umræðu sem ég hef haldið hér uppi langar mig undir lok hennar að vitna í leiðaraskrif vestfirsks dagblaðs, Bæjarins besta sem gefið er út á Ísafirði. Ég tók þar af handahófi fjórar ritstjórnargreinar um þetta mál. Sú fyrsta var skrifuð 2. nóv. 2000. Þar segir undir fyrirsögninni Stöndum vörð um rétt okkar, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum þurfa ekki lengur að velkjast í vafa. Ljóstýran, sem kviknaði á haustdögum og benti til að loks nú eftir áralangan þyrnirósarsvefn væru stjórnvöld vöknuð og höggvið yrði á vandann í félagslega íbúðakerfinu í eitt skipti fyrir öll, er slokknuð. Félagsmálaráðherra, Páll Pétursson, ætlar að láta kné fylgja kviði: Ríkið býðst til að kaupa eignarhluta sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða með því skilyrði að verulegum hluta söluverðsins verði varið til greiðslu á skuldum sveitarfélaganna við Íbúðalánasjóð. Til þessa gjörnings nýtur félagsmálaráðherra dyggilegs stuðnings samráðherra sinna í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.

Breyting á Orkubúi Vestfjarða í hlutafélag er mál út af fyrir sig, sem sjálfsagt er að skoða með opnu hugarfari og leggja hlutlaust mat á kosti og galla. Sala orkubúsins er síðan annað og seinni tíma mál. Hvort hluthafar kjósa að selja bréf sín að breytingu lokinni, ef af verður, er mál hvers og eins. Á annan veg verður ekki með lýðræðislegum og frjálsum hætti staðið að breytingu á rekstrarformi fyrirtækisins og sölu, ef mönnum býður svo við að horfa.

Kaupskylduákvæði félagslegu íbúðanna hefur reynst sveitarfélögum víðar en á Vestfjörðum þungur baggi. Hvernig verður vandi þessara sveitarfélaga leystur? Hvaða eignir verða þau neydd til að framselja ríkinu til að grynna á skuldum sínum við Íbúðalánasjóð? Hvað ef engar áhugaverðar eignir í augum ríkisvaldsins eru til staðar? Já, hvað þá, ráðherra?``

Hvað þá, herra ráðherra, er spurt í þessum leiðara. Síðan segir, herra forseti, að fráleitt sé að blanda saman sölu á Orkubúi Vestfjarða og skuldum sveitarfélaga við Íbúðalánasjóð:

,,Sala Orkubús Vestfjarða og skuldir sveitarfélaganna við Íbúðalánasjóð eru tvö mál, sem fráleitt er að blanda saman. Og það er satt að segja óhugnanlegt að hugsa til þess, eftir að vestfirsk sveitarfélög hafa fengið þá umsögn frá virtu endurskoðunarfyrirtæki að þau hafi verið vel rekin síðasta áratuginn, þegar á heildina er litið og rekstur þeirra hafi skilað meiri framlegð á íbúa en rekstur annarra sveitarfélaga í landinu að meðaltali, að þá skuli þeim stillt upp við vegg og settir slíkir afarkostir til að standa ríkinu skil á vanskilum í íbúðalánakerfi, þar sem viðurkennt er að vitlaust var gefið í upphafi og þingmenn sáu ekki fyrir afleiðingar laganna sem sveitarfélögin sitja nú uppi með.

Vonandi bera vestfirskir sveitarstjórnarmenn gæfu til standa vörð um réttinn til frjálsra ákvarðana um framtíð Orkubús Vestfjarða, óháð fjárhagsvanda sveitarfélaganna, sem öllum er ljóst að er mikill um þessar mundir.``

Þetta var leiðari frá 2. nóv. árið 2000, herra forseti. Ég held að hann lýsi ákaflega vel viðhorfum hins almenna Vestfirðings til þessa máls og reyndar margra sveitarstjórnarmanna. Ég þykist viss um að það eru ekki allir sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum sem ganga glaðir til þessa leiks.

Herra forseti. Mig langar að vitna í annan leiðara til að varpa frekara ljósi á viðhorf Vestfirðinga til þessa máls. Geri ég nú eigi lengur kröfu til þess að hæstv. iðnrh. sé í salnum. (Iðnrh.: Jú, ég hlusta á hvert einasta orð.) Þessi leiðari Bæjarins besta birtist undir fyrirsögninni Hitamál og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Af viðbrögðum lesenda BB við spurningu blaðsins: Ertu sátt(ur) við að ríkið taki orkubúið upp í skuldir? --- er deginum ljósara að Vestfirðingar eru nær á einu máli í afstöðu sinni: Níu af hverjum tíu eru andsnúnir því sem um var spurt. Mönnum er heitt í hamsi.

Á þessum vettvangi hafa sveitarstjórnarmenn verið brýndir til að standa vörð um réttinn til frjálsra ákvarðana um framtíð Orkubús Vestfjarða og gangast ekki undir þá fyrirætlan stjórnvalda að neyða þá að samningaborði með gylliboðum til þess eins að létta um stundarsakir skuldabyrði sveitarfélaganna við Íbúðalánasjóð.

Það var löngu vitað að fráleit ákvæði um kaupskyldu á íbúðum í félagslega kerfinu mundu sliga sveitarfélög um land allt fjárhagslega. Þrátt fyrir eftirleitan sveitarstjórna og margvíslegar ábendingar hefur ríkisvaldið komið sér hjá að taka á vandanum líkt og því kæmi málið ekkert við. Hér væri eingöngu óráðsíu og græðgi heimamanna um að kenna. Vandinn hefur því vaxið óheftur með ári hverju.

Eindregin afstaða heimamanna í orkubúsmálinu verður ekki skilgreind á annan veg en sem áskorun til sveitarstjórnarmanna`` --- herra forseti, sem áskorun til sveitarstjórnarmanna --- ,,um að láta ekki deigan síga gagnvart yfirgangi ríkisvaldsins. Uppstokkun á leiguíbúðakerfinu verða ríki og samtök sveitarfélaga að semja um sín í milli á sanngjarnan og eðlilegan hátt. Fáist sá aðili sem ber ábyrgð á lagasetningunni ekki að samningaborði með annað í farteskinu en nú er boðið, heldur vandinn áfram að vaxa með hraða snjóboltans. Það væru enn skelfilegri mistök en við höfum þrátt fyrir allt orðið vitni að til þessa.``

Þetta er sá hluti leiðarans sem fjallar um þetta orkubúsmál, herra forseti. Ef eitthvað er þá taka menn heldur stífar til orða varðandi þetta mál og andmæla því sem að er stefnt með frv. sem við ræðum.

Í enn einum leiðaranum segir undir fyrirsögninni ,,Það skal aldrei verða``, með leyfi forseta:

,,Svo mælti Þórarinn Eldjárn, skáld og rithöfundur, aðspurður um hvernig honum litist á hugmyndina um að Svarfaðardalur legðist í eyði, utan þess að íbúar hinna fjölmörgu sveitaþorpa sem mynduðu borgríkið á suðvesturhorni landsins, eftir að búið væri að útrýma landsbyggðinni, nytu þar sumardvalar til afstressunar.`` --- Borgarbúar gætu þar notið sumardvalar til afstressunar í kjördæmi hæstv. iðnrh. (SvanJ: Heima hjá mér.) Já, einnig heima hjá hv. þm. Ekki ber ég á móti því að vafalaust má njóta þar afstressunar.

,,Það var mikill þungi í orðum skáldsins. Það er líka mikill þungi í umræðunni vestra um hugsanlega nauðungarsölu á Orkubúi Vestfjarða`` --- takið eftir því að talað er um nauðungarsölu hæstv. iðnrh. --- ,,til lúkningar skuldum vestfirskra sveitarfélaga við Íbúðalánasjóð. Og skyldi engan undra.

Nú liggja spilin á borðinu. Afstaða ríkisstjórnar Íslands. Staðfest af ráðuneytisstjórum þriggja ráðuneyta í bréfi frá 7. þessa mánaðar til allra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Þar segir: ,,Gagnvart þeim sveitarfélögum sem glíma við fjárhagsvanda vegna skuldastöðu sveitarsjóða og vanda vegna innlausna á félagslegum íbúðum, verður áskilið að fyrir liggi skuldbindandi aðgerðaáætlun til lausnar á vanda hvers sveitarfélags fyrir sig. Til grundvallar verða lagðar tillögur sem settar eru fram í áfangaskýrslu um félagslegar íbúðir á Vestfjörðum frá júní 2000. Þar er gert ráð fyrir að þau sveitarfélög sem þurfa að lækka verð félagslegra íbúða í sveitarfélaginu geri það með framlagi úr sveitarsjóðum í samstarfi við varasjóð.``

Gleggri geta skilaboðin ekki verið. Sveitarfélögunum er ætlað að koma félagslegu íbúðunum niður í söluhæft verð með niðurgreiðslu úr eigin sjóðum í ,,samstarfi við varasjóð``, hvað svo sem það merkir á mannamáli ef á reyndi og eftir krónunum kynni að verða leitað. Um hitt þarf ekki að villast: Uppsöfnuðum vanda skulu sveitarfélögin standa undir ein og óstudd með sölu eigna. Ríkisvaldið viðurkennir ekki handvömm löggjafans í meingölluðum lögum. Þar við situr.

[15:00]

Þessi afdráttarlausu skilaboð ríkisstjórnarinnar til Vestfirðinga eru gerð heyrinkunn samtímis því að stjórnvöld sjá engin önnur ráð til að bæta versnandi hag sveitarfélaga víðast hvar, vegna yfirtöku verkefna frá ríkinu án þess að gefin fyrirheit um tekjustofna til verkefnanna væru efnd, en að hækka útsvarið á sífellt fækkandi gjaldendum. Sýnist mörgum því létt verk að guma af tekjuafgangi ríkissjóðs og sukki sveitarfélaganna.

En spurt skal: Hver er afstaða þingmanna Vestfirðinga til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar, að neyða Vestfirðinga til að selja orkubúið til greiðslu skulda við Íbúðalánasjóð? BB stendur þingmönnunum opið, nú sem endranær. Vestfirðingar ætlast til að þeir geri hreint fyrir sínum dyrum.``

Ég tel að ég hafi gert mjög skilmerkilega grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, bæði hér á hv. Alþingi og einnig í skrifum mínum í viðkomandi blað.

Ég ætla að vitna í einn leiðara enn, herra forseti, og skal þá hætta upplestri úr leiðurum hins virðulega blaðs Bæjarins besta sem gefið er út á Vestfjörðum. Þessi leiðari birtist undir fyrirsögninni Oft var þörf en nú er nauðsyn, með leyfi forseta:

,,Af frumvarpi fjárhagsáætlunar fyrir Ísafjarðarbæ, sem lagt var fram á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku, er ljóst að bæjaryfirvöldum er mikill vandi á höndum. Við búum við svo þröngan kost að velta þarf hverri krónu fyrir sér áður en látin er af hendi.``

Síðan er talað um tekjur bæjarsjóðs og skuldastöðu bæjarfélagsins. Því næst segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Fjármál sveitarfélaga á Vestfjörðum hafa verið í brenni\-depli að undanförnu. Ekki hvað síst vegna þeirra fyrirætlana stjórnvalda að neyða sveitarstjórnarmenn að söluborðinu með orkubúið til að grynnka á skuldum sveitarfélaganna við Íbúðalánasjóð. Þessi gjörningur hefur mætt almennri, harðri andstöðu íbúanna, sem með margvíslegum rökum hafa bent á að um tvö óskyld mál er að ræða. Annars vegar sölu orkubúsins, ef mönnum sýnist svo síðar meir, hins vegar uppsafnaðan margra ára vanda vegna íbúðalánakerfis, sem stjórnvöld hafa skotið sér undan að taka á; stjórnmálalegs afkvæmis, sem í ljós kom að hafði litla möguleika á því að skila tilætluðu hlutverki vegna galla, sem lagasmiðirnir sáu ekki fyrir, en sveitarfélögin sitja nú uppi með.``

Þannig hljóðar meginefni þessa leiðara, herra forseti, en niðurlagið er á þessa leið:

,,Þegar við bætist að gjaldendum fækkar, einstaklingum og áður þróttmiklum sjávarútvegsfyrirtækjum, þarf engan að undra þótt þröngt sé í búi og vandi á höndum. En það réttlætir ekki aðförina og kröfuna um nauðungarsölu orkubúsins. Við öllu þessu eiga íbúar Ísafjarðarbæjar og annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum aðeins eitt svar: Samstaða --- órjúfandi samstaða.``

Ég tel mig hafa gert nægjanlega grein fyrir því að ekki sé mikill vilji, vægast sagt lítill eða enginn, meðal íbúa Vestfjarða til að selja Orkubú Vestfjarða. Þar af leiðandi tel ég algjörlega ofmælt að salan á Orkubúi Vestfjarða, sem er beinn fylgifiskur þessa frv. sem við nú ræðum, sé vilji íbúanna. Ég er þeirrar skoðunar að sveitarstjórnarmönnum hafi verið stillt upp við vegg í þessu máli eins og rækilega hefur komið fram, m.a. í áður tilvitnuðum leiðurum blaðsins Bæjarins besta á Ísafirði.

Ég held að ég þurfi ekki, herra forseti, að segja fleira því til staðfestingar að sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum ræddu ekki málið fyrir sveitarstjórnarkosningar og eru með sölu orkubúsins að koma á bak íbúum á Vestfjörðum. Þetta var ekki baráttumál þeirra. Þeir kynntu það ekki fyrir íbúunum og kynntu það ekki í kosningunum. Það sem þeir ætla að undirgangast er ábyggilega ekki að vilja þeirra allra þó að ég viti að sumir þeirra hafi áhuga á að selja orkubúið.

Herra forseti. Ég mun kannski taka til máls um þetta mál síðar. Það er að vísu ýmislegt fleira sem ég vildi ræða hérna. En af því að ég gerði sérstaka kröfu til þess að hæstv. iðnrh. yrði viðstödd og kæmi inn í þessa umræðu þá ætla ég að þessu sinni ekki að halda lengri ræðu um þetta mál. Ég tel að ég hafi lýst skoðunum mínum á málinu mjög skýrt. Ég hef einnig gert grein fyrir brtt. sem ég hef flutt um að sett verði takmörkun á sölu eignarhluta í orkubúinu. Ég hef einnig lýst því að ég teldi óviðunandi að Vestfirðingar fengju sérstaka meðferð varðandi uppsafnaðar skuldir í félagslega íbúðakerfinu sem til eru víða annars staðar á landinu af nákvæmlega sömu orsökum og á Vestfjörðum.

Ég hef talað um að þetta væri ekki góð heildarstefnumótun varðandi orkumál á landinu eins og þau hafa verið afgreidd hér í vetur. Ég tel að standa mætti mun betur að byggðamálum á Vestfjörðum en með því að breyta orkubúinu í hlutafélag til þess eins að selja eignir þess og losa Vestfirðinga við að eiga eitt sameiginlegt orkufyrirtæki. Mér finnst það ekki göfugur málstaður að berjast fyrir á hv. Alþingi, að standa þannig að varðandi Vestfirði sem vissulega þurfa á því að halda að þar sé ýtt undir atvinnulíf og atvinnusókn. Þess í stað er ætlunin að losa Vestfirðinga við þær eignir sem þeir ráða yfir.