Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 15:17:05 (7314)

2001-05-09 15:17:05# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er í þeirri stöðu eins og hv. þm. Guðjón Guðmundsson að hafa beðið um andsvar fyrir alllöngu þegar umræðu um þetta mál var frestað.

Mér finnst að það þurfi að koma skýrt fram í umræðunni að ég sagði líka í ræðu minni að þessi málatilbúnaður væri ekki að mínu skapi. Ég vil því spyrja hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hvort hann telji að Vestfirðingar geri sér almennt grein fyrir því að þessi málatilbúnaður byggir á yfirverði samkvæmt þessum samningi og það er það sem fer mjög illa í mig. Það að vera með málatilbúnað og samkomulag af þessu tagi getur ekki leitt til annars en að þessum kostnaði verði velt yfir á neytendur á Vestfjörðum og það sem verra er með sameiningu eða a.m.k. samvinnu Rariks og Orkubús Vestfjarða. Og að þessi fyrirtæki þurfi að kljást við þann vanda að vera með félagslega kerfið í gangi, þá hlýtur það að lenda á viðskiptavinum þar, þ.e. á orkuveitusvæði Rariks og gamla orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða. Það kom mjög skýrt fram í umræðunni að í þeim pakka sem settur var saman væru menn að leika sér með tölur sem geta ekki annað en gefið útslag í auknu orkuverði. Það er þess vegna sem ég spurði í ræðu minni, og vil gjarnan fá viðbrögð hv. þm. við því, hvort menn geri sér grein fyrir þessu og hvort hv. þm. sé sama sinnis eða hafi sama skilning og ég í þessum efnum.