Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 15:26:53 (7319)

2001-05-09 15:26:53# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði frá því í ræðu minni að ég hefði hlustað á erindi í morgun m.a. frá forsvarsmönnum Norðuráls og forstjóra Landsvirkjunar. Ég gat ekki betur heyrt þar en að menn væru að tala um að síðasti hluti stækkunar hjá Norðuráli í Hvalfirði væri árið 2006. Hæstv. iðnrh. sagði áðan að árið 2004 ætti því að vera lokið. Mér er því spurn hvort það hafi verið rangt hjá forustumönnum álversins og eins hjá forstjóra Landsvirkjunar að tala á þeim nótum að síðasti hluti stækkunar álvers í Hvalfirði yrði árið 2006. Eins er mér heldur ekki ljóst hvort það er svona miklu lengur verið að reisa orkuver á Vestfjörðum en á Suðurlandi. Ég fæ ekki alveg samhengi í þetta svar hæstv. iðnrh.