Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 15:29:35 (7321)

2001-05-09 15:29:35# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[15:29]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra lét nokkuð að því liggja að ósk um hlutafélagsvæðingu orkubúsins og hugsanlega sölu þess væri komin frá sveitarfélögunum á Vestfjörðum. Það er að einhverju leyti rétt ef ég má vitna til ummæla hæstv. félmrh. í Morgunblaðinu 21. mars árið 2000, þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Páll Pétursson félagsmálaráðherra sagði að umræða um hugsanleg kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða væri til komin vegna erfiðrar fjárhagsstöðu sveitarfélaganna á Vestfjörðum. Sveitarfélögin ættu flest við mjög alvarlegan vanda að stríða. Staða Vesturbyggðar væri mjög alvarleg og Ísafjörður og Bolungarvík stæðu einnig frammi fyrir miklum fjárhagsvanda.``

Og áfram, með leyfi forseta:

,,Páll sagði að vandi sveitarfélaganna vegna félagslegs húsnæðis væri til sérstakrar skoðunar í félagsmálaráðuneytinu, en það væri þó ljóst að ef ríkið keypti hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða mundu möguleikar þeirra til að standa í skilum á lánum sem hvíldu á félagslegu íbúðunum batna verulega.``

Herra forseti. Það er alveg ljóst hvernig þetta mál fer í stað. Í dagblaðinu Degi 21. október 2000 er viðtal við hæstv. fjmrh. þar sem kveður við sama tón. Ég held því að miklu hreinna sé að segja það bara hreint út með hvaða hætti þetta er til komið. Þetta sé vegna þess að ríkið er ekki reiðubúið til að koma til móts við fjárhagsvanda sveitarfélaganna á Vestfjörðum vegna félagslega íbúðakerfisins með öðrum hætti en þessum.