Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 15:32:43 (7323)

2001-05-09 15:32:43# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[15:32]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að félagslega íbúðakerfið snertir ekki beint ráðuneyti hennar en það undirstrikar að þetta mál er nefnilega á vegum miklu fleiri ráðuneyta. Ég get vitnað í ummæli hæstv. fjmrh. sem víkur nákvæmlega að því sama, með leyfi forseta, í Degi 21. okt. 2000:

,,Það er ekkert launungarmál að á vettvangi ríkisstjórnarinnar hefur verið unnið að því að taka sérstaklega á fjárhagsvanda sveitarfélaganna á Vestfjörðum en þau málefni tengjast Orkubúi Vestfjarða og ganga út á það að ríkið kaupi hlut sveitarfélaganna í orkubúinu sem mundi verða til þess að þau gætu grynnkað verulega á skuldum sínum.``

Það sem vert er að gera sér grein fyrir, herra forseti, er það að fjárhagsvandi sveitarfélaganna, hvort sem hann er til kominn vegna félagslega íbúðakerfisins, vegna kolrangrar fiskveiðistjórnarstefnu eða annarra aðgerða sem hafa haft áhrif á það að íbúar Vestfjarða geta ekki staðið undir lögboðnum skyldum sínum og standa uppi með fjárhagsvanda vegna rangrar áherslu í byggðamálum, þá er þetta ekki slitið í sundur í öllum aðdraganda málsins. Ef þessi fjárhagsvandi hefði ekki komið til, herra forseti, þá sýnist mér einboðið að þetta mál væri ekki uppi á borði með þeim hætti sem það er. Ég held að það sé miklu hreinlegra, herra forseti, að hæstv. ráðherra viðurkenni það og við mundum síðan ræða hvernig við ættum að taka á þeim fjárhagsvanda sem þarna er sem er að stórum hluta á sameiginlegri ábyrgð allrar þjóðarinnar, hluti af þeirri stefnu sem við höfum fylgt á síðustu árum.