Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 15:54:46 (7326)

2001-05-09 15:54:46# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[15:54]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur var tíðrætt um sjálfstæði sveitarfélaganna í þessu máli og sjálfstæði þeirra til að ráðstafa eignum sínum. Ég gæti tekið undir það ef satt væri. En ég vil vekja athygli á þeirri bókun eða þeirri undirskrift eða því bréfi sem undirritað var af æðstu yfirmönnum fjmrn., iðnrn. og félmnrn. samtímis að skrifað var undir beiðnina um að Orkubúi Vestfjarða yrði breytt í hlutafélag. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Staðfesting vegna hugsanlegra kaupa ríkisins á eignarhlut sveitarfélaga á Vestfjörðum í Orkubúi Vestfjarða.

Með vísan til 9. gr. í samkomulagi sameignarfélags Orkubús Vestfjarða, dags. 7. febrúar 2001, og til bréfa iðnrn. og viðskrn., dags. 7. nóvember 2000, til sveitarfélaga á Vestfjörðum staðfestist hér með að ríkisvaldið mun í kjölfar stofnunar hlutafélags um Orkubú Vestfjarða gera öllum sameigendum sínum í Orkubúi Vestfjarða kauptilboð í eignarhlut þeirra í Orkubúi Vestfjarða. Í samningnum um kaup á eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða hf. mun ríkisvaldið ganga út frá að heildarverðmæti Orkubús Vestfjarða hf. séu 4,6 milljarðar kr. enda verði söluverðmætinu varið til þess að greiða niður skuldir viðkomandi sveitarfélaga og til lausnar bráðavanda viðkomandi sveitarfélaga í félagslega íbúðakerfinu í samræmi við það sem rætt hefur verið.``

Herra forseti. Ég vil bara vekja athygli á að þessi yfirlýsing er afhent aðilum um leið og þeir skrifa undir þetta þannig að öllum er ljóst að hér er ekki um neitt frelsi að ræða til að ráðstafa þessum eignum á því verði sem ríkisvaldið er þarna að bjóða.