Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 16:00:25 (7329)

2001-05-09 16:00:25# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið sammála hv. þm. um að sveitarfélögin í landinu hafa undanfarin ár búið við afar erfiðar aðstæður af ýmsum ástæðum. Ég hef í félagi við pólitíska samherja mína á hv. Alþingi oft tekið það til umræðu hvernig sú ríkisstjórn sem ræður nú hefur í rauninni farið með sveitarfélögin í landinu, hvernig fjárhagur þeirra hefur verið rýrður og möguleikar til tekna, hvernig aðstæður þeirra hafa á ýmsan hátt verið gerðar erfiðari en þær gætu verið ef hér væri rekin öflug byggðastefna, ef ríkisstjórnin væri tilbúin til að viðurkenna að öflug sveitarfélög eru lykillinn að öflugri byggðastefnu.

Hins vegar breytir það ekki hinu að sveitarstjórnarmenn hafa og bera mikla ábyrgð vegna sjálfstæðis sveitarfélaganna. Þeir verða að axla þá ábyrgð og liður í því er að taka ákvarðanir eins og þær sem sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum gera þegar þeir gera samkomulag við ríkið um að þessu fyrirtæki sé breytt í hlutafélag. Það er síðan líka ákvörðun þeirra og liður í sjálfstæði þeirra hvort þeir kjósa að selja eða ekki. Það held ég að verði að liggja algerlega fyrir.

Hitt er síðan líka staðreynd, sem ég held að við verðum að hafa í huga, að ef sveitarfélög fara mjög illa fjárhagslega þá kann að koma til þeirrar stöðu að þau lendi í því sem hefur verið kallað ,,gjörgæsla félagsmálaráðuneytisins``. Það er, herra forseti, hlutur sem ég held að engir íbúar neins sveitarfélags vilji sjálfum sér til handa. Það er þrautalending og auðvitað vilja allir sveitarstjórnarmenn sem axla þá ábyrgð sem þeim hefur verið falin leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt. Það er eitt af því sem íbúar sveitarfélaganna á Vestfjörðum sem og annars staðar á landinu þar sem illa hefur árað horfa til og vilja ekki þurfa að standa frammi fyrir.