Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 18:20:36 (7343)

2001-05-09 18:20:36# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[18:20]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að hv. þm. Pétri H. Blöndal sé kunnugt um aðdraganda og feril þessa máls. Hann liggur víða fyrir og hefur verið gerð ítarlega grein fyrir hér. Þar sem hv. þm. segist bæði styðja ríkisstjórnina og styðja það að hún samþykki þetta frv. og beiti Vestfirðinga áfram ofríki þá vil ég spyrja hvað honum finnist um þá bókun sem fulltrúar ríkisvaldsins, framkvæmdarvaldsins, létu fylgja þegar þeir skrifuðu undir ályktun um að hlutafélagavæða fyrirtækið á eigendafundi Orkubús Vestfjarða 7. febrúar 2001, með leyfi forseta:

,,Með vísan til 9. gr. í samkomulagi sameignarfélags Orkubús Vestfjarða, dags. 7. febrúar 2001, og til bréfa iðn.- og viðskrn., dags. 7. nóvember 2000, til sveitarfélaga á Vestfjörðum staðfestist hér með að ríkisvaldið mun í kjölfar stofnunar hlutafélags um Orkubú Vestfjarða gera öllum sameigendum sínum í Orkubúi Vestfjarða kauptilboð í eignarhlut þeirra í Orkubúi Vestfjarða hf. Í samningnum um kaup á eignarhlut sveitarfélaga í Orkubúi Vestfjarða hf. mun ríkisvaldið ganga út frá því að heildarverðmæti Orkubús Vestfjarða hf. sé 4,6 milljarðar kr., enda verði söluverðmætinu varið til að greiða niður skuldir viðkomandi sveitarfélaga og til lausnar bráðavanda viðkomandi sveitarfélaga í félagslega íbúðakerfinu í samræmi við það sem rætt hefur verið.``

Þetta er undirritað af ráðuneytisstjórum þriggja ráðuneyta í fylgiskjali þegar verið er að ganga frá þessum samningi, þessum þvingunaraðgerðum gagnvart Vestfirðingum. Hvað finnst hv. þm. um svona bókun sem hluta af svona aðgerð, svona ferli sem þarna er og styður hann þetta, herra forseti?