Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 12:35:29 (7350)

2001-05-10 12:35:29# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[12:35]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég spyr hv. þm.: Var hann að tjá skoðanir meiri hluta efh.- og viðskn., var hann að tjá skoðanir síns sjálfs eða var hann að einhverju leyti að eigin áliti að endurspegla umræður í efh.- og viðskn. þegar hann taldi að það kæmi sterklega til greina að auka eigið fé bankanna við einkavæðinguna? Ég spyr vegna þess að ég tók þátt í störfum nefndarinnar meðan á þessu stóð og ég varð ekki var við að starf nefndarinnar beindist að nokkru leyti að þessu.

Ég vísa til þess, herra forseti, að jafnvel þó að einhver rök kynnu að vera fyrir þessu miðað við þá stöðu sem ríkisstjórnin er núna að koma efnahagnum í þá hafa menn brennt sig á þessu í fortíðinni. Þetta er eitt af því sem er að bestu manna yfirsýn ein meginorsök þenslunnar sem varð í efnahagslífi landsmanna og undirrót verðbólgunnar sem er nú að fara af stað.