Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 12:55:55 (7359)

2001-05-10 12:55:55# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 1. minni hluta ÖS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[12:55]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að auðvitað skiptir miklu máli að okkur takist einhvern veginn að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir að tilteknir valdamiklir aðilar í efnahagslífi landsmanna nái ofurtökum á bönkunum. Hv. þm. hefur lagt fram ákveðna tillögu ásamt sínum flokki í því efni.

Nú láðist hv. þm. að vísu að geta þess að við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt áliti Eftirlitsstofnunar EFTA er það aðferð sem ekki samrýmist þeim tilskipunum sem gengið hafa út frá Brussel og okkur ber öllum að lúta í þökk og auðmýkt. Þess vegna höfum við í Samfylkingunni lagt fram tillögu sem miðar að hinu sama en fer aðra leið. Hún felst í því að takmarka atkvæðisrétt hluthafa við tiltekið magn.

Herra forseti. Þó að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hafi haft ákaflega skamma framsögu og stutta viðdvöl í ræðustóli þá gæti ég fundið að ákaflega mörgu við hv. þm. Það kom mér spánskt fyrir sjónir að heyra það hjá formanni efh.- og viðskn. að einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar ynni núna að því að komast að niðurstöðu um hvernig ætti að haga sölu bankanna. Ég er ekki að finna að því að sá undirbúningur sé í gangi. En annaðhvort veit hv. þm. Vilhjálmur Egilsson eitthvað sem ég veit ekki eftir setu mína undir hans stjórn í nefndinni þar sem um þetta var fjallað eða að einkavæðingarnefndinni hefur gefið efh.- og viðskn. villandi upplýsingar.

Herra forseti. Ég spurði sérstaklega eftir því þegar fulltrúi einkavæðingarnefndar kom til fundar við nefndina hvort nokkrar hugmyndir lægju fyrir um hvernig ætti að haga sölu bankanna vegna þess að ég taldi það skipta máli fyrir þau viðhorf sem ég er fulltrúi fyrir að slík vitneskja lægi fyrir. Jón Sveinsson, fulltrúi einkavæðingarnefndar, sem kom til fundarins fullyrti að engar slíkar áætlanir væru til og að engin slík vinna væri farin af stað, einkavæðingarnefndin mundi ekki byrja á því fyrr en búið væri að samþykkja frv.

Herra forseti. Gaf einkavæðingarnefnd okkur rangar upplýsingar eða fór þessi vinna af stað eftir að nefndin lauk vinnu sinni við þetta tiltekna frv.? Í öllu falli finnst mér að það hefði átt að láta efh.- og viðskn. vita af þessu. Það skiptir verulega miklu máli hvernig menn standa að þessu. Ég vísa t.d. til þeirra áætlana sem eru uppi um sölu á Landssímanum sem ég tel að séu ekki í takt við markaðinn og séu rangar jafnvel frá sjónarhóli þeirra sem styðja þá einkavæðingu heils hugar.

Herra forseti. Mig langar líka aðeins að reifa aðfinnslur mínar við hv. þm. Vilhjálm Egilsson áðan þegar ég spurði hvort hann mælti fyrir hönd nefndarinnar eða meiri hluta eða bara sjálfs síns þegar hann flutti hér ákveðna hugmynd um að auka við eigið fé bankanna. Hv. þm. hefur auðvitað fullt málfrelsi og getur komið hingað og sagt það sem hann vill. Þarna er hins vegar um að ræða mikilvægt atriði sem skiptir máli fyrir okkur að hafa inni í þessari umræðu vegna þess að það tengist þróun efnahagsmála hér á landi.

Ég er þeirrar skoðunar og deili þeirri skoðun með öðrum aðalbankastjóra Íslandsbanka-FBA og fleiri áhrifamönnum í forustulífi efnahagsmála hér á landi að sú aðferð sem menn beittu við fyrstu lotu einkavæðingarinnar þar sem menn í reynd juku eigið fé bankanna sé að meginhluta til eða stærsta orsökin fyrir þeirri óheillaþróun sem hefur orðið hér varðandi þensluna í efnahagslífinu. En jafnvel það skipti ekki heldur máli. Hv. þm. má auðvitað flytja sínar prívatskoðanir ef hann vill. Það er hins vegar þannig að þetta eru ekki hans prívatskoðanir. Þessar skoðanir gefur að líta í ályktun sem Verslunarráð samþykkti og sendi frá sér í gær. Og mér finnst það, herra forseti, óviðkunnanlegt með fullri virðingu fyrir málfrelsi hv. þm. að hann komi hingað sem formaður hv. efh.- og viðskn. Alþingis en noti tækifærið í framsögu sinni til þess að koma að einhverjum prívatsjónarmiðum Verslunarráðs. Það er í andstöðu við það sem mér finnst að eigi a.m.k. að vera lágmarksvirðing Alþingis.

[13:00]

Þessi ræðustóll, herra forseti, á ekki að vera eitthvert púlt fyrir sérskoðanir Verslunarráðs, jafnvel þó hægt sé að færa fyrir þeim sterk rök. Ef menn ætla að auka eigið fé bankanna og gera það í tengslum við einkavæðinguna eins og hv. þm. segir þá verður þingheimur að fá að ræða það. Hvers vegna? Vegna þess að það er ákaflega mikilvægt atriði í þessari umræðu. Ég bið hv. þm. forláts ef ég geng of nærri virðingu Verslunarráðs í þessu máli en það er lágmarkskurteisi að þeir sem taka þátt í að véla um frv. eins og þetta í efh.- og viðskn. geri það á jafnréttisgrundvelli, jafnvel við þá sem kunna að tala sem fulltrúar Verslunarráðsins. Hér er um að ræða ákaflega mikilvægt atriði sem tengist þessu.

Herra forseti. Það hefur áður komið fram í umræðum í þinginu að við í Samfylkingunni erum þeirrar skoðunar að samkeppnisrekstur eigi betur heima á markaði en í höndum ríkisins. Við eðlilegar aðstæður þar sem stjórnfesta ríkir, þar sem leikreglur eru skýrar og ríkið sér um sterkt eftirlit er jákvætt að flytja slíkan rekstur frá ríkinu og yfir á markað.

Við höfum hins vegar lagt fram, eins og ég skýrði frá í umræðum fyrir nokkrum vikum, ákveðnar forsendur sem við teljum að uppfylla þurfi til að verjanlegt sé að ráðast í sölu ríkiseigna. Þær eru í fyrsta lagi að tryggt verði að eignaraðild verði það dreifð að salan geti aldrei leitt til fákeppni eða skaðlegrar samþjöppunar á markaði. Í öðru lagi þarf líka að haga sölunni þannig að hagsmunir starfsmanna séu jafnan eins vel tryggðir og aðstæður leyfa. Í þriðja lagi þarf að haga tímasetningum þannig að hægt sé að uppfylla það skilyrði sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum, og við styðjum það, að þegar eignir ríkisins eru seldar þurfi ríkið að leitast við að hámarka andvirðið sem fæst við söluna.

Herra forseti. Eftir rannsókn málsins í efh.- og viðskn. erum við í Samfylkingunni þeirrar skoðunar að frv. um sölu ríkisbankanna uppfylli ekkert af þessum skilyrðum. Við teljum að þetta frv. sé illa undirbúið. Það einkennist að flumbrugangi og er miklu frekar í ætt við blinda trú á einkavæðingu fremur en efnahagslega og markaðslega nauðsyn.

Við höfum lagt fram á sérstöku þingskjali nokkuð róttækar breytingar á þessu frv. um sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum. Þær breytingar sem við höfum lagt til eru:

Í fyrsta lagi að ríkisstjórnin fái einungis heimild til að selja hlutafé sitt í öðrum bankanum, Búnaðarbankanum.

Í öðru lagi að reynt verði að tryggja dreifða eignaraðild, m.a. með því að 10% af hlutafé bankans verði skipt jafnt meðal íslenskra ríkisborgara, að sönnu með tilteknum kvöðum sem koma fram í tillögu okkar.

Í þriðja lagi leggjum við til að starfsöryggi starfsmanna verði tryggt með því að eðlileg velta starfsmanna verði höfð í fyrirrúmi við þá hagræðingu sem þarf mögulega að ráðast í og jafnframt að starfsmönnum verði boðið upp á endurmenntun og starfsþjálfun.

Við leggjum líka til, í anda þeirrar stefnu sem jafnaðarmenn fylgja hvarvetna í atvinnulýðræði, að þetta tækifæri verði notað til að tryggja að starfsmenn fái fulltrúa í stjórn bankanna með fullum réttindum.

Í fimmta lagi, eins og fram kemur síðar í ræðu minni, höfum við miklar efasemdir um að rétt sé staðið að því að selja bankana núna miðað við stöðu markaðarins. Við leggjum þess vegna til, með sérstakri brtt., að salan á hlutafé í bankanum verði ekki hafin fyrr en fyrir liggur staðfesting Þjóðhagsstofnunar og Seðlabankans á því að aðstæður á markaði séu slíkar að verjanlegt sé frá sjónarhóli skattborgaranna að ráðast í þessa sölu.

Nú er það svo, herra forseti, ef ég mætti ráðleggja hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni eða hæstv. forsrh., sem kíkti í gátt, um það hvernig ætti að standa að sölu þeirra ríkisfyrirtækja sem menn eru að ráðast í núna, þá er ég auðvitað þeirrar skoðunar að staða markaðarins sé þannig að menn ættu í reynd að bíða með að selja bankana og láta nægja að selja Landssímann. Hvers vegna? Vegna þess að ég held að ef menn eru þeirrar skoðunar að selja eigi samkeppnisrekstur Landssímans þá sé heppilegast fyrir markaðinn í dag og þau efnahagslegu markmið sem hafa stundum heyrst frá hv. þm. stjórnarliðsins í því efni, væri best að ná þannig. Ég held sem sagt að markaðssetning bankanna við aðstæðurnar núna kunni að vinna gegn þeim markmiðum sem hv. þm. vildu ná með einkavæðingunni.

Eins og ég sagði, herra forseti, finnst mér, eftir að hafa skoðað þetta mál og lesið þetta frv., tekið þátt í umræðum og spurt í þaula þá fulltrúa ýmissa stofnana sem komu til fundar við efh.- og viðskn., að salan sem fyrirhuguð er í þessu frv. á eignarhlut ríkisins sé algerlega óundirbúin af hálfu stjórnvalda. Mér þótti, við rannsókn málsins undir dyggri forustu hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, sem í ljós kæmi að ólíklegt væri að ýmsar lykilforsendur sem ríkisstjórnin hefur sjálf sett varðandi einkavæðingu ríkisfyrirtækja yrðu uppfylltar. Þar nefni ég t.d. viðleitni og staðhæfingar hv. þm. stjórnarliðsins um að einkavæðingin mundi ýta undir hagvöxt. Ég vísa sérstaklega til staðhæfingar sem koma fram í skýrslu Þjóðhagsstofnunar sem birt er með frv. þar sem greint er frá alþjóðlegum rannsóknum sem náðu ekki að sýna fram á ótvíræð tengsl eða jákvæða fylgni milli hagvaxtar og einkavæðingar. Það hlýtur að skipta máli ef það er eitt af markmiðunum.

Í öðru lagi er alveg ljóst að rannsókn málsins leiddi í ljós að það er ákaflega ólíklegt að það takist að uppfylla það skilyrði sem ríkisstjórnin setti í stjórnarsáttmálanum um að það ætti að hámarka andvirði ríkiseigna við sölu. Ég held að það sé algerlega útilokað að miðað við þróun markaðarins í dag sé hægt að fá gott verð fyrir þessar stofnanir.

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson nefndi störf einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar. Af því tilefni finnst mér rétt að rifja upp ýmislegt sem kom fram í samtölum nefndarinnar við fulltrúa hennar. Það var ákaflega athyglisvert. Í svari við spurningum okkar þingmanna stjórnarandstöðunnar kom fram að engar athuganir hefðu farið fram á því hvaða áhrif salan á bönkunum kynni að hafa á hlutabréfamarkaðinn sem er ákaflega veikburða um þessar mundir. Þetta er mikilvægt í ljósi þess að sem við stöndum hér og tölum, þ.e. þessa dagana fer fram rannsókn á öðru þingmáli í hv. samgn. sem varðar sölu Landssímans. Þar hefur komið fram hjá fulltrúum fjármálastofnana að það kunni að vera óráðlegt, miðað við stöðu hlutafjármarkaðarins í dag, að láta bankana á markað vegna þess að það kynni að þeirra mati að trufla sölu Landssímans.

Fulltrúi einkavæðingarnefndar staðfesti líka að engin drög væru að áætlunum um lykilatriði sem tengjast sölunni, um aðferðir við söluna, um tímasetningar og mögulegar áfangaskiptingar eða hvort selt yrði úr einum eða báðum bönkunum samtímis. Það kom líka fram hjá þessum fulltrúa að ekki yrði hægt að taka þessar ákvarðanir fyrr en stjórnvöld hefðu í höndum úttekt sérfræðifyrirtækis á því hvaða áhrif salan kynni að hafa á þennan markað. Einkavæðingarnefnd mundi samkvæmt því ekki ráðast í neina vinnu sem tengdist undirbúningi málsins fyrr en slík úttekt lægi fyrir. Ég spurði hann sjálfur að því hvað það mundi taka langan tíma og svar hans var að það gæti tekið allt upp í ársfjórðung, þ.e. þrjá mánuði. Miðað við þessar upplýsingar sýnist mér ljóst að talsvert langur tími geti liðið þangað til hægt verður að ráðast í sölu á bönkunum.

Ég nefni þetta sérstaklega, herra forseti, vegna þess að væri vilji fyrir hendi, ef menn stjórnuðust af vilja til að vinna vel en ekki af blindri trú á einkavæðingu, þá hefði ríkisstjórnin prýðilegt tóm til að vinna þetta mál betur. Ég nefni þá ekki síst atriði sem oft eru Samfylkingunni ákaflega hugleikin, þ.e. samráð við starfsfólk. Það samráð hefur ekkert verið. Þá kynnu menn líka að velta fyrir sér hvort ekki væri hægt að velja tímasetningar sem væru heppilegri, m.a. til að skattborgarar fengju um síðir miklu meira fyrir hlut sinn í bönkunum en líklegt er miðað við aðstæður í dag.

Ég hjó eftir því að hv. framsögumaður meiri hlutans gat þess sérstaklega að ekki væri ljóst í þessari stöðu hvort selt yrði úr báðum bönkunum sérstaklega. Mig langar því að spyrja hv. þm. Vilhjálm Egilsson: Er honum kunnugt um einhverja meinbugi á því að hlutir yrðu seldir samhliða bæði úr Búnaðarbanka og Landsbanka?

Herra forseti. Mér hefur orðið nokkuð tíðrætt um það sem ég kalla rangar tímasetningar við þessa færslu á bönkunum yfir til markaðarins úr höndum ríkisins. Nú vil ég vísa til þess að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því síðla í maí 1999 er þetta atriði gert sérstaklega að umræðuefni og þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum.``

Nú er ljóst að samkvæmt frv. á að selja bankana frá tímanum sem líður frá því að þingi lýkur þangað til kjörtímabilið er úti. Það er með öðrum orðum ákveðið að á þessu tímabili á að selja þá, burt séð frá því hvort markaðirnir eru reiðubúnir að taka við öllu þessu magni hlutabréfa. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að þessi tímasetning á sölu beggja ríkisbankanna, því að það er verið að tala um það, er lítt skiljanleg í ljósi þeirrar stöðu sem ríkir á mörkuðunum. Ég held að það sé voðalega erfitt að tryggja gott verð fyrir bankana miðað við þá fyrirsjáanlegu þróun sem þar er.

Ég gæti auðvitað farið út í langvinna umræðu, herra forseti, um efnahagsmál almennt. Ég læt mér nægja að segja að hlutabréfamarkaðurinn endurspeglar alltaf trúna á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Við höfum séð ríkisstjórnina glutra niður góðærinu, glutra niður gjaldmiðlinum og glutra niður því sjálfstrausti sem hafði rutt sér til rúms á markaðnum. Við sjáum að viðskiptahallinn er enn gríðarlegur. Enn er þrýstingur á gengi krónunnar og við vitum ekki hvernig þau mál þróast þegar líður fram um þetta ár. Hv. þm. Sverrir Hermannsson lýsti því með ákaflega grafískum hætti í gær. Ég læt mér nægja að vísa til þess reynda þingskörungs um þau mál. Þetta er auðvitað endurspeglun á markaðnum. Þessi staða endurspeglast á markaðnum. Við sjáum að hann hefur í reynd hrunið. Frá því í febrúar í fyrra hefur úrvalsvísitalan lækkað um 55--60%. Þá er ég að vísu að taka frá þeim punkti er hún reis hæst. Það virðist ekkert lát á því, herra forseti, eða er það svo? Er eitthvert lát á því? Það vildi svo til að í efh.- og viðskn. höfðum við tækifæri til að spyrja þá sem vafalaust hafa miklu betri þekkingu á því en við þingmenn. Þar var m.a. fulltrúi Landsbankans. Hann var spurður að því hvort bankinn vissi um einhverjar vísbendingar sem bentu til þess að markaðurinn tæki við sér á þessu ári. Svar þessa vísa manns var neitandi.

Það er einfaldlega þannig að ekkert bendir til þess að hlutabréfamarkaðurinn fari að rísa aftur, ekkert nema auðvitað óskhyggja hv. þm. stjórnarliðsins og vonandi að hún dugi til að toga markaðinn upp. En það er staðreynd að kaupmáttur markaðarins núna er ákaflega slakur. Samt sem áður áformar ríkið að demba á hann hlutabréfum sínum, bæði í bönkunum og líka í Landssímanum. Ég er þeirrar skoðunar að þetta gæti ýtt undir frekari lækkun á markaðnum. Þetta gæti augljóslega líka rýrt möguleika einkafyrirtækja til að afla sér fjár á markaðnum.

Í fyrsta lagi er ljóst að mikið framboð bréfa getur leitt til almennrar lækkunar á hlutabréfamarkaði. Ekki er líklegt að mikið nýtt fjármagn komi inn á markaðinn til að mæta auknu framboði. Ef menn ætla að fara þá leið, festa fé sitt í þessum bönkum eða Landssímanum, þá þurfa þeir að losa það einhvers staðar annars staðar, a.m.k. innlendir fjárfestar.

[13:15]

Herra forseti. Mér þykir rétt að geta þess að á fund efh.- og viðskn. kom m.a. fulltrúi fjárfesta. Ég man ekki alveg hvað þau samtök heita en hann mætti þar sem fulltrúi fjárfesta. Þegar við inntum hann eftir afstöðu hans til þessa atriðis þá sagði sá vísi maður að ef ekki fengjust erlendir fjárfestar til þess að kaupa bankana eða kaupa stóra hluti í bönkunum þá gæti sala þeirra haft það sem hann kallar ,,shock effect`` á markaðinn. Fleiri hafa tekið undir þetta eða orðað hlutina svipað.

Í öðru lagi, herra forseti, vísa ég til þess að Þjóðhagsstofnun varar í reynd við því í greinargerð sem fylgir með frv. að það mikla framboð sem salan á bönkunum felur í sér gæti, til skamms tíma a.m.k., gert öðrum fyrirtækjum erfiðara um vik að afla fjár. Til þess að styðja mál sitt benti Þjóðhagsstofnun á að andvirði mögulegs framboðs bréfa í bönkunum gæti losað 32 milljarða. Það var á þeim tíma sem greinargerðin var sett saman. Nú væri þetta í hæsta lagi 25--28 milljarðar miðað við gengið á markaðnum í dag. Þessari tölu stilla þeir andspænis þeim 35 milljörðum sem á fyrstu tíu mánuðum ársins voru boðnir í hlutafjárútboðum innlendra félaga og reyndar líka erlendra félaga sem bent var að innlendum fjárfestum þannig að verðmæti hlutarins sem ríkið er að fara að setja á markað er verulegt hlutfall af því hlutafé sem er boðið á innlendum markaði.

Það má rifja það upp til samanburðar að heildarsöluvirði eignarhluta ríkisins í FBA, Búnaðarbankanum og Landsbankanum seint á árinu 1999 var ekki nema 15 milljarðar. Markaðsvirði eignarhluta ríkisins í bönkunum og Landssímanum gæti numið allt að þrefaldri þeirri upphæð, kannski fjórfaldri þannig að ég held því fram, herra forseti, að tímasetning ríkisstjórnarinnar, miðað við þá stöðu sem er núna uppi á markaðnum, sé líkleg til þess að skemma fyrir möguleikum einkafyrirtækja til að verða sér úti um fjármagn á markaðnum. Hún gæti líka leitt til frekari lækkunar hlutabréfa á markaði. Ég er sannfærður um að sala af því karpi og offorsi sem ríkisstjórnin virðist hafa einsett sér í þessu máli gæti leitt til þess að skattborgarar fengju miklu minna andvirði fyrir hlut sinn í bönkunum en ef menn færu í þetta með meiri forsjá.

Herra forseti. Við höfum sagt, eins og ég kynnti við 1. umr., að rétt sé að stíga ákaflega gætilega til jarðar við sölu bankanna. Við höfum þess vegna lagt til að ríkisstjórninni verði að þessu sinni aðeins heimilað að selja annan bankann og við höfum sagt að í ljósi reynslunnar af því eigi að taka ákvarðanir um sölu hins bankans síðar. Efnahagslegu rökin fyrir þessari tillögu eru mörg. Ef við skoðum þann möguleika að bankarnir verði seldir í einu, eins og var a.m.k. farið af stað með í upphafi, þá er líklegt að mati margra fróðra manna á markaðnum að helstu innlendu fjárfestarnir, lífeyrissjóðirnir, muni einbeita sér einungis að öðrum bankanum. Það gæti komið þeim banka sem eftir situr í óheppilega stöðu. Verðgildi hans gæti þá minnkað fljótlega eftir útboð. Það gæti jafnvel minnkað strax í útboði.

Herra forseti. Í öðru lagi hafa margir hv. þingmanna talið brýnt að fá stóra erlenda fjárfesta inn í fyrirtækin sem ríkið ætlar að selja og miðað við þá stöðu sem búið er að koma efnahagslífinu í er alveg ljóst að það er eitt af þeim bjargráðum sem ríkisstjórnin veltir fyrir sér. Ég held hins vegar að það kynni að vera ákaflega erfitt að fá erlenda kjölfestufjárfesta inn í íslenska banka. En ef menn ætla sér það þá tel ég að miklu ráðlegra væri að fara af stað með annan bankann og kanna undirtektir erlendra kjölfestufjárfesta og læra í framhaldi af þeirri reynslu.

Herra forseti. Ég nefndi áðan að mér þætti sárt að sjá þann skort á samráði við starfsfólk sem hefur einkennt þetta mál. Ég ætla að leyfa mér að taka nokkrar mínútur til þess að fara aðeins yfir það mál. Við fundum það af samtölum okkar við fulltrúa bankastarfsmanna sem komu til fundar við efh.- og viðskn. að tillitsleysi stjórnvalda og ekki síst hæstv. viðskrh. gagnvart starfsmönnum hefur komið af stað mikilli ólgu meðal starfsmanna. Það létu a.m.k. formaður Sambands bankamanna og formenn starfsmannafélaga bankans uppi á fundi með nefndinni. Þetta er auðvitað það sama og við sáum á síðasta ári þegar sameina átti bankana og allir muna hvers konar brotlending það var. Þá birtist þetta tillitsleysi gagnvart starfsmönnum í því að þeir máttu þola þá lítilsvirðingu að lesa um áform og stöðu þess máls dag hvern í fjölmiðlum án þess að haft væri fyrir því að ræða við þá. Þess vegna hefði verið gaman að hafa hæstv. viðskrh. til þess að ræða þetta, ræða þær upplýsingar og þær lýsingar sem komu fram hjá fulltrúum starfsmanna á fundum efh.- og viðskn. og bera það saman við það sem hún sagði við 1. umr. málsins. Þá lýsti hún samskiptum sínum við starfsmennina þannig að hún hefði margkallað þá til fundar við sig og hún væri þakklát fyrir það góða samstarf sem hún hefði átt við þá. Herra forseti. Það kom fram á fundum nefndarinnar að það samstarf var nánast ekki neitt.

Við í Samfylkingunni leggjum mikla áherslu á að starfsmennirnir fái að hafa áhrif á bankann. Hvarvetna í Vestur-Evrópu og reyndar vestan hafs líka eru stjórnunarhættir af þeim toga að ryðja sér til rúms. Þetta er alsiða á Norðurlöndunum þar sem alls staðar eru starfsmenn með fulltrúa með fullgild réttindi nema á einu Norðurlandanna, í Finnlandi, í stjórnum bankanna. Samráð við starfsmenn þegar breytingar eru í aðsigi er þar regla fremur en undantekning. Ég vísa til þess, herra forseti, að í Svíþjóð er núna í deiglu að sameina tvo stóra banka sem hafa samtals yfir 35 þúsund starfsmenn. Gert er ráð fyrir því að fækka þar starfsmönnum um 2.000 á þremur árum. Þar taka menn hins vegar þá afstöðu að láta allar slíkar hagræðingar ná fram að ganga í gegnum eðlilega starfsmannaveltu. Alls staðar á Norðurlöndunum er þetta orðin viðtekin regla sem starfsmannafélögin þurfa ekki einu sinni að hafa fyrir að knýja í gegn. Reynslan sýnir einfaldlega að þetta er farsælast fyrir viðkomandi bankastofnanir. Þess vegna höfum við lagt til, herra forseti, í sérstöku bráðabirgðaákvæði í breytingartillögum okkar að þegar menn ráðast mögulega í hagræðingar sem fylgja einkavæðingunni þá verði tryggt að það verði gert í gegnum eðlilega starfsmannaveltu. Þessi afstaða okkar byggist ekki síst á jafnréttisreglu Samfylkingarinnar.

Fram kom í umsögn fulltrúa starfsmanna á fundi nefndarinnar að reynslan væri sú að þeir sem lenda fyrst og fremst í uppsögnum eru eldri starfsmenn, 45--60 ára og það vil svo til að 90% þeirra eru konur. Flestar þeirra hafa gert bankastarfið að ævistarfi. Þær hafa langan starfsaldur. Þær eru sérhæfðar og við vitum líka að sérhæfðir einstaklingar á þessum aldri ganga ekki svo auðveldlega inn í nýja vinnu. Reynslan sýnir þess vegna, því miður, að þegar konur á aldrinum 50--60 ára missa vinnuna eftir að hafa starfað í sömu atvinnugrein alla sína vinnuævi þá jafngildir það í reynd útskrift úr atvinnulífinu yfir á félagslegar bætur. Við viljum ekki taka þátt í slíku, herra forseti, og þess vegna leggjum við mikla áherslu á þetta atriði.

Eitt af því sem við teljum að sé nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að ráðast í einkavæðingu af því tagi sem hér liggur fyrir er að það sé alveg skýrt að eignaraðild sé tryggð og það sé ljóst að komið verði í veg fyrir samþjöppun sem geti leitt til fákeppni eða jafnvel hálfgildings einokunar á markaði. Við höfum undanfarið séð það gerast á síðustu missirum í öðrum geirum viðskiptalífsins. Þá vísa ég til smásöluverslunarinnar sem hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði að umræðuefni og nú hefur ríkisstjórnin sjálf lýst markmiðum sínum í þessu efni. Það gerði hæstv. forsrh. ítrekað í viðtölum við fjölmiðla árið 1998 þegar hann sagði í viðtali við Morgunblaðið 8. ágúst að þó það væri í tísku að tala um kjölfestufjárfesta þá teldi hann að það væri alveg nóg að hafa eignarhluti á bilinu 3--8%. Hann taldi ákaflega óæskilegt að einn aðili eða skyldir aðilar gætu náð þeirri stöðu að vera með t.d. 30%. Hann taldi reyndar sjálfur að æskilegasta hámarksstærðin væri 2--3% og lét þess getið að eignaraðilar með slíkan eignarhlut gætu haft veruleg áhrif á reksturinn. Það var sjónarmið hæstv. forsrh. þá að einmitt eignarhlutir af þessu tagi væru líklegastir til þess að knýja á um arðsemissjónarmið.

Nú er það þannig, herra forseti, að þegar maður les síðan þetta frv. þá kemur hvergi fram minnsta viðleitni til að tryggja dreifða eignaraðild. Það er hvergi rætt í frv. eða greinargerð. Það er að vísu þannig að annað frv. sem við ræðum á eftir og fjallar um breytingar á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum, felur í sér að sönnu virðingarverða viðleitni til þess að auka eftirlit og reyna að koma í veg fyrir þetta. En það tryggir ekki dreifða eignaraðild og það kemur ekki í veg fyrir skaðlega samþjöppun. Því mætti kannski spyrja hv. þm. Vilhjálm Egilsson hvað valdi því að hinnar miklu áherslu hæstv. forsrh. á þetta árið 1998 sér hvergi stað í þessu frv. Það er hálfóheppilegt, herra forseti, þegar flökt er á stefnu manna í svona mikilvægum málum.

Við höfum ekki lagt fram sérstaka tillögu við þetta frv. til þess að reyna að sporna við þessu. Við höfum hins vegar lagt fram breytingartillögu við það frv. sem ég nefndi áðan, sem tryggir að enginn einn aðili eða tengdir geti farið með meira en 15% af heildaratkvæðamagni á hluthafafundum. Þetta er ein af fjórum aðferðum, herra forseti, sem eru reifaðar í greinargerð sem Þórólfur Jónsson, lögmaður hjá Logos-lögmannsþjónustunni, gerði fyrir viðskrn. og er birt með greinargerð frv.

Herra forseti. Ég hef í stórum dráttum farið yfir sjónarmið Samfylkingarinnar í þessu máli. Við teljum að vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar í málinu séu ekki nægilega góð, þau séu ekki nægilega ígrunduð. Við teljum að tímasetningarnar séu rangar. Við viljum hins vegar greiða fyrir því að annar bankinn verði settur á markað og menn læri síðan af reynslunni af því að selja hann þegar kemur að því að taka ákvarðanir um hinn bankann. En við leggjum mikla áherslu á það, herra forseti, að tekið verði miklu ríkara tillit til starfsmanna fyrirtækjanna og jafnframt að gripið verði til aðgerða eins og þeirra sem ég var að lýsa hérna áðan sem er a.m.k. viðleitni til þess að koma í veg fyrir skaðlega samþjöppun.