Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 13:28:36 (7360)

2001-05-10 13:28:36# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[13:28]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. fyrir störf hans í efh.- og viðskn. að þessu máli og lýsa því yfir að ég tel að hann verði ávallt velkominn til starfa í nefndinni og vonast eftir að sjá hann oftar (Gripið fram í.) í störfum nefndarinnar. Ég tel að einkavæðingarnefnd hafi skýrt efh.- og viðskn. frá störfum sínum af bestu samvisku. Þar kom m.a. fram að nefndin taldi æskilegt að þeim málum sem Búnaðarbankinn hefur átt við opinbera aðila verði lokið áður en hafið yrði að selja hlutabréf úr Búnaðarbankanum en að öðru leyti var ekkert því til fyrirstöðu að fara að selja úr Landsbankanum. Það er eðlilegt að nefndin fari ekki að gera tillögur um miklar tímasetningar og annað fyrr en heimild liggur fyrir frá Alþingi um að selja hlutabréfin.

Ég veit að hv. þm. á eftir gefa mér ágætar leiðbeiningar við betra tækifæri á því hvaða skoðanir þingmenn mega flytja hér úr ræðustóli og hvaða skoðanir þingmönnum leyfist líka að færa til samtaka í atvinnulífi eða í þjóðlífinu yfirleitt. Ég veit að hv. þm. á eftir að gefa mér mörg góð ráð í því sambandi.

Það er eðli hlutabréfamarkaða að ágreiningur er um það hvort verð sé að hækka eða verð sé að lækka. Viðskipti eiga sér ekki stað nema þessi grundvallarágreiningur sé til staðar. Þess vegna held ég að ræður hv. þingmanns um hvernig markaður eigi eftir að þróast séu nú kannski ekkert meira virði í sjálfu sér en margra annarra sérfræðinga sem tjá sig um þau mál. En ég mundi nú halda hins vegar að það að auka eigið fé í bönkunum á sama tíma og þessi einkavæðing gengur í gildi verði frekar til þess að efla trú manna á þessi fyrirtæki og styrkja þau og hækka verðið á hlutabréfum í þeim frá því sem annars mundi vera.