Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 13:30:52 (7361)

2001-05-10 13:30:52# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[13:30]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsi því yfir fyrir hönd Samfylkingarinnar að hún er jafnan reiðubúin að gefa hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni góð ráð í efnahagsmálum. Mér sýnist ekki vanþörf á því varðandi þetta tiltekna atriði, sérstaklega varðandi það sem hann sagði um hlutabréfamarkaðinn. Hv. þm. orðaði það svo að ágreiningur væri um það hvort bréf væru að hækka eða lækka og það byggi til markað. Það er að vísu alveg hárrétt. Ég held aftur á móti að það sé ekki ágreiningur um í hvaða átt hlutabréfamarkaðurinn hefur þróast á síðustu tólf mánuðum. Fall upp á 58%, er ekki hægt að skilgreina það sem hrun, herra forseti?

Að öðru leyti má hv. þm. ekki fyrtast við mig þó ég finni að því að hann komi sem fulltrúi efh.- og viðskn., framsögumaður meiri hlutans, og flytji okkur boðskap Verslunarráðs. Mér er alveg sama þótt hv. þm. flytji boðskap Verslunarráðs við önnur tækifæri en mér finnst óviðkunnanlegt að nánast það eina sem hann hefur til málanna að leggja í framsöguræðu sinni sé að flytja okkur nýjasta boðskap úr því musteri sem heitir Verslunarráð. Ég kann bara ekki við það, herra forseti.

Mér er sama þó hv. þm. flytji skoðanir nefndarinnar og sínar eigin skoðanir en um svo mikilvægt atriði, eins það að auka eigið fé bankanna með öllum þeim afleiðingum sem það kann að hafa, finnst mér heldur sem verið sé að seilast um hurð til lokunnar þegar hv. þm. kemur og dembir þessu fram, eftir að nefndin hefur lokið umfjöllun sinni og gleymir að geta þess hver er upphafslind þessara hugmyndar. Hún er ekki Vilhjálmur Egilsson, Sjálfstfl. eða hæstv. ríkisstjórn; hún heitir Verslunarráð. Það á bara ekki heima í svona framsögu.