Nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 13:41:33 (7365)

2001-05-10 13:41:33# 126. lþ. 119.95 fundur 524#B nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands# (umræður utan dagskrár), menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þetta var einkennileg ræða og byggð á miklum misskilningi. Greinilegt er að hv. ræðumaður hefur ekki kynnt sér þær tillögur sem ég hef sett fram um þetta efni eða hvernig að þeirri tillögugerð hefur verið staðið.

Á árinu 1999 bar að endurskoða lög um Rannsóknarráð Íslands. Þá sendi menntmrn. út bréf til allra sem komu að því að tilnefna menn til setu í ráðinu og mæltist til þess að þeir segðu álit sitt á því hvort tilefni væri til að breyta einhverju í lögum ráðsins. Var gefinn frestur til umsagnar til 15. mars árið 2000. Síðan var unnið úr umsögnum innan ráðuneytisins og hugað að tillögum til lagabreytinga. Við tillögugerðina var tekið mið af reynslu annarra þjóða og sérstaklega staðnæmst við það sem hefur verið að gerast í Finnlandi. Á síðasta áratug juku Íslendingar og Finnar framlag til rannsókna og þróunar mest af Norðurlandaþjóðunum og var raunaukningin 10% hér á landi og 9% í Finnlandi, 6% í Danmörku og Svíþjóð, en 3% í Noregi. Árið 1999 vörðum við Íslendingar 2,25% af landsframleiðslu, eða um 14 milljörðum kr., til rannsókna og þróunar og vorum í 6. sæti á heimsmælikvarða næst á eftir Þýskalandi. Þetta svarar nú fullyrðingum hv. ræðumanns um þróun útgjalda til rannsókna hér á landi. Það er ekki nokkur vafi á því í mínum huga að þessi þróun ræður miklu um hinn mikla hagvöxt sem hér hefur verið undanfarin ár.

Með hliðsjón af þessu taldi ég skynsamlegt að við endurskoðun laganna um Rannsóknarráð yrði sett fram hugmynd um að skapa rannsóknum og þróun hærri sess við almenna stefnumótun í efnahags- og atvinnumálum. Reifaði ég leiðir að því marki á fundi með Rannsóknarráði Íslands, þ.e. forustufólki í vísindasamfélaginu, sl. haust og fékk þar skýrar ábendingar um að halda áfram að þróa hugmyndir mínar í þessu efni. Ég kynnti þær síðan á ársfundi Rannsóknarráðs Íslands hinn 9. apríl sl. og þá ræðu er unnt að lesa og kynna sér, m.a. á netinu. Ég hvet sérstaklega hv. fyrirspyrjanda, upphafsmann þessarar umræðu, til að gera það svo ekki vefjist fyrir henni þau atriði sem þar er um að ræða.

Megintillaga mín er tvíþætt:

1. Að stefnumótun í vísindum og tækni verði í höndunum á gjörbreyttu Rannsóknarráði Íslands sem starfi undir formennsku forsrh., með þátttöku ráðherra, vísindamanna og fulltrúa atvinnulífs.

2. Að undir þessu stefnumótandi Rannsóknarráði Íslands starfi tvær stjórnarnefndir, önnur á vegum menntmrn. og hin iðnrn. Þessar nefndir úthluti styrkjum og veiti lán á grundvelli umsókna.

Eins og hér hefur komið fram, hafði ég samráð við vísindasamfélagið áður en ég kynnti hugmynd mína. Með henni er ég að auka hlut rannsókna og þróunar enn frekar við mótun efnahags- og atvinnustefnu þjóðarinnar. Nú hefur Rannsóknarráð tilnefnt þrjá fulltrúa af sinni hálfu til samstarfs við menntmrn. vegna þessa verks sem unnið er að að færa í frumvarpsbúning.

Þingmaðurinn veltir því fyrir sér hvort sú ákvörðun að úthluta styrkjum til einstaklinga og fyrirtækja en ekki stofnana geti staðist við íslenskar aðstæður. Ég hef átt þess kost undanfarna daga að taka þátt í mörgum fundum um þetta mál og ræða við marga aðila. Þeir hafa haldið því fram, talsmenn stofnana, að nú sé ekki verið að veita styrki til stofnana heldur til einstaklinga sem starfa innan þeirra. Ég vil leggja áherslu á það í tillögum mínum að sami mælikvarði sé notaður og sömu kröfur gerðar til vísindalegrar færni manna og frágangs á rannsóknarniðurstöðum þegar veittir eru styrkir, án tillits til þess hvar vísindamennirnir starfa.

Þá er vikið að því hvort það eigi að kollvarpa úthlutunarkerfinu með þessum tillögum. Það stendur alls ekki til. Það er fyrst og fremst verið að ræða um að færa stefnumótunina í það horf sem tillögurnar gera ráð fyrir. Ef í ljós kemur, í þeirri vinnu sem nú fer fram, að menn séu almennt sáttir um það kerfi sem ríkir við úthlutun á einstökum styrkjum þá er ekki markmiðið að kollvarpa því kerfi. Það þarf hins vegar að vera gegnsætt og á það lagður sami mælikvarði og lagður er á störf vísindamanna, hvaðan sem þeir koma.