Nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 13:46:34 (7366)

2001-05-10 13:46:34# 126. lþ. 119.95 fundur 524#B nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Gagnrýni eða tortryggni vaknar þegar ráðherrar taka til við að breyta og að sínu eigin mati betrumbæta umhverfi sem tiltekin grein hefur átt að venjast. Í þessu tilviki erum við að tala um það umhverfi sem samfélag vísinda og tækni hefur átt að venjast og er að sjálfsögðu afar eðlilegt að það hrikti eitthvað í stoðunum. Ráðherrar verða að taka því með reisn og líta á þá gagnrýni sem upp kemur sem tækifæri til enn frekari framfara. Satt að segja hlýtur markmið stjórnmálamanna og vísindasamfélagsins á endanum að vera eitt og hið sama, þ.e. að tryggja stöðu rannsókna og efla þær svo sem verða má. Um þetta markmið er ekki deilt. En nú skoðum við leiðirnar að þessu marki. Rætt er um fjármagn og rætt er um aukningu á fjármagi. Hæstv. ráðherra nefnir að á árinu 1999 höfum við Íslendingar aukið fjármagn um 10% til rannsókna, en Finnar um 15% og að við höfum staðið okkur vel í því tilliti. Þar með er ekki öll sagan sögð því Finnar hafa aukið fjármagn sitt til rannsókna um 15% á ári í mörg ár. (Gripið fram í.) En ráðherrann verður að viðurkenna að þýðing fjármunanna vegur afar þungt í þessu tilviki.

Það eru gömul sannindi að stefna stjórnvalda í málefnum mennta- og menningar verður þegar öllu er á botninn hvolft best lesin út frá fjármagni því sem sett er í málaflokkinn. Í þeim hugmyndum sem hæstv. menntmrh. hefur lagt fram er að mínu mati afar hæpið að reiða sig svo mjög á aðkomu atvinnulífs, svo ég tali ekki um aðkomu atvinnufjárfesta, því hæstv. ráðherra segir í ræðu sinni sem var vitnað til í máli framsögumanns og flutt var á ársfundi Rannsóknarráðsins eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Aðrir þættir rannsókna- og þróunarstarfs mundu hvíla á herðum einkaaðila eða sjóða, sem veita fé til nýsköpunar, vöruþróunar og áhættufjárfestinga. Þar er lagt til að starfi sjóður, sem styrki frumkvöðla við nýsköpun og vöruþróun hvers konar. Reynslan hefur sýnt að vaxandi þörf er á stuðningi sem brúar bilið frá því að grunnrannsókn er lokið og þar til áhættufjárfestar koma beint til sögunnar.``

Þessa áherslu gagnrýni ég.