Nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 13:48:58 (7367)

2001-05-10 13:48:58# 126. lþ. 119.95 fundur 524#B nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Eðlilegt er að við tökum til umfjöllunar þær hugmyndir sem hæstv. menntmrh. reifaði á aðalfundi Rannsóknarráðs Íslands nú fyrir skömmu. Hæstv. ráðherra hefur gert hér tilraun til þess að skýra þær nokkuð nánar en fram kom þó í nokkuð ítarlegri ræðu ráðherrans á títtnefndum aðalfundi.

Tillögurnar taka hins vegar mjög mið af hinum gömlu tillögum um hið gamla form Rannsóknarráðs Íslands. Þar sátu að vísu ekki ráðherrar heldur alþingismenn og síðan 15 vísindamenn en undir forsæti hæstv. menntmrh. Þessu var breytt árið 1994 í tíð þáverandi menntmrh., Ólafs G. Einarssonar. Það var einmitt einkenni þessa ráðs að það fundaði tvisvar á ári en var í raun og veru óvirkt. Það hafði hins vegar framkvæmdanefnd sem sinnti þeim störfum sem sinna þurfti. Það skortir því, herra forseti, nokkuð á rök hæstv. menntmrh. hví hann fer nú aftur í hið gamla far.

Hæstv. menntmrh. minntist á Finna. Það er eðlilegt, vegna þess að Finnar hafa ráðherranefnd svipaða og hæstv. ráðherra er að gera tillögu um en aðstæður Finna eru um margt ólíkar okkar. Ráðherranefnd Finnanna mótar stefnu í vísindum og tækni en þeir hafa jafnframt finnska akademíu sem hefur fjögur rannsóknarráð og einnig nokkra sjóði sem veita styrki til rannsókna og þróunar. Þeir hafa vissulega náð árangri og eðlilegt er að við horfum til þeirra. Við verðum að sjálfsögðu að miða við aðstæður þeirra og horfa til okkar eigin og reyna síðan að komast að niðurstöðu.

En það sem skiptir auðvitað mestu máli í því að móta framtíðarstefnuna er það að menn leiti leiða til þess að auka fjárveitingar. Það er staðreynd máls að því miður hefur orðið rýrnun í sjóðum Rannsóknarráðs Íslands að raungildi síðustu átta ár á meðan Finnar hafa tryggt aukið fjármagn nú um alllangt skeið. Meðal annars þess vegna hafa þeir auðvitað náð meiri árangri en við.

Herra forseti. Hins vegar er ljóst, og að lokum er rétt að vitna til hæstv. menntmrh., því að hann vill hafa það að leiðarljósi við þessi mál, og eðlilegt að taka undir það, að við Íslendingar munum ekki halda stöðu okkar í fremstu röð þjóða nema rannsóknir og þróun fái þann háa sess sem þeim ber við gerð þjóðhagsáætlana.