Nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 13:54:02 (7369)

2001-05-10 13:54:02# 126. lþ. 119.95 fundur 524#B nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að það ber að endurskoða lög um Rannsóknarráð Íslands og þá er mikilvægt að þau séu endurskoðuð með tilliti til breyttra aðstæðna, nútímans og horft til framtíðar og mikilvægt að sú vinna fari í gang.

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. er oft gamansamur og í tillögu hæstv. ráðherra er lagt til að stjórn Rannsóknarráðs Íslands sé bætt, formennskan fari til forsrh. og auk þess sitji í Rannsóknarráði menntmrh., iðnrh., sjútvrh., landbrh., umhvrh. og fjmrh. ásamt fulltrúum vísindamanna og atvinnulífs.

Nú er það svo, herra forseti, að nú þegar eru fulltrúar vísindamanna og atvinnulífs í stjórn Rannsóknarráðs. En því miður eru þar engir ráðherrar. En ég spyr: Hvers á utanrrh. að gjalda? Í eflingu vísindastarfs og rannsókna er aukið samstarf við útlönd. Við erum þátttakendur þar í mörgum stórum rannsóknarverkefnum og mér finnst afar mikilvægt, herra forseti, að hann komi hér að. Ég spyr hvers vegna hann er ekki þarna.

Ég spyr líka, herra forseti, af því að hér var minnst á aðkomu þingsins og fyrir hönd forseta þingsins er ég móðgaður að hann skuli ekki vera tilnefndur í ráðið. Ég legg því til, herra forseti, að þetta verði allt endurskoðað frá grunni þannig að að því verði staðið með fullri reisn þegar farið er af stað á þessum vettvangi.