Nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 14:00:23 (7372)

2001-05-10 14:00:23# 126. lþ. 119.95 fundur 524#B nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands# (umræður utan dagskrár), Flm. SJóh
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[14:00]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það hefur einhvern veginn farið fram hjá hæstv. málsvörum Sjálfstfl. í þessari umræðu um hvað hún fjallar. Ég er ekki að tala um heildarfjármagn til rannsókna á Íslandi. Ég er að tala um þá vísindastyrki sem Rannís hefur veitt á undanförnum árum. Það er til umfjöllunar í dag en ekki aukið fjármagn til háskólans, ekki það sem fyrirtæki hafa aukið við í fjárútlátum til vísindarannsókna og það sem fengist hefur erlendis til íslenskra vísindarannsókna. Ég mun fjalla um það á öðrum vettvangi.

Hér hefur mjög verið vísað til skipulags Finna í þessum málum en gleymst hefur að geta þess að auk þessa sjóðs sem við vorum hér að fjalla um hafa Finnar finnsku akademíuna sem hefur fjögur rannsóknarráð á sínum snærum, hvorki meira né minna. Það virðist hafa dottið fyrir borð í þeim samanburði sem hér hefur verið gerður. Eins gleymdist að reikna með því gríðarlega fjármagni sem Finnar tóku ákvörðun um að verja til rannsóknar og þróunar og hafa aukið markvisst núna um langt skeið um 15% á ári.

Það vekur furðu að íslensk stjórnvöld ætla nú að fara að fóstra vísindasamfélagið undir pilsfaldi ráðherra og ríkisstjórnar eins og hér er ráðgert og því verið hrósað af talsmönnum Sjálfstfl., hv. þm. Tómasi Inga Olrich meðal annarra. Þessar hugmyndir minna um margt á það sem einu sinni var kallað ráðstjórnarskipulag sem t.d. var ástundað í Sovétríkjunum sálugu og skýtur skökku við ef hæstv. menntmrh. ætlar að taka upp aflóga hugmyndafræði frá Kreml.

Ég vona að umræðan verði til þess að hugmyndir ráðherrans verði teknar til endurskoðunar. Í þeim er vissulega eitt og annað nýtilegt þó annað virðist ekki vísa fram á veginn. Það sem fyrst og fremst virðist vanta eru þó hugmyndir um aukið fjármagn frá ríkinu inn í þennan geira. Stærsti vandinn er of lítið ráðstöfunarfé rannsóknarsjóðanna og skipulagsbreytingar leysa ekki þann vanda einar og sér.