Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 14:21:31 (7378)

2001-05-10 14:21:31# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[14:21]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef reynt í málflutningi mínum að gefa fólki ekki einkunnir en verð fyrir því aftur og aftur að hv. þingmenn gefa mér einkunnir og var sagt hér áðan að ég væri að segja rugl. Það getur vel verið að hv. þm. finnist það en hann gæti þá af tillitssemi við mig látið það ósagt að ég sé að segja rugl. Og fyrr í umræðunni var talað um að ég væri með einfeldningslegar skoðanir. Ég vildi gjarnan að þingmenn væru dálítið varkárir í því að gefa hver öðrum einkunnir með þessum hætti.

En varðandi einkavinavæðinguna og erlenda aðila, þá var það ekki ég sem talaði um einkavinavæðingu. Ég tel ekki að þetta sé einkavinavæðing. Það er bara verið að selja fólki hlut ríkisins á markaði. Og þeir sem vilja geta keypt og hinir látið það vera. Þetta hefur ekkert með vini eða einkavini að gera. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er hv. þm. sem tók það orð í munn sér og talaði um einkavinavæðingu. Það gerði ég ekki. Og ef við seljum til erlends aðila, þá reikna ég ekkert með því að hann sé einkavinur hvorki ríkisstjórnarinnar né Íslands yfirleitt, en að hann sé að kaupa í þessum fyrirtækjum af því hann telji það hagkvæmt fyrir sjálfan sig og hann ætli sér að hagnast á því. Þetta hefur ekkert með vini eða vinskap eða eitthvað slíkt að gera. Þetta er nefnilega selt á markaði, herra forseti. Það er munurinn frá því sem áður var og þess vegna eru menn ekkert að gera neitt fyrir neinn. Sá sem kaupir lætur góða peninga í staðinn fyrir eignirnar sem hann fær.