Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 14:25:09 (7380)

2001-05-10 14:25:09# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[14:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Nú er svo komið í þessum einkavæðingarleiðangri ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í bankamálum að hér er farið fram á heimild til að selja afganginn af hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Og það er gert þó ekki fleiri árum eftir að þetta ferli hófst en raun ber vitni með hlutafélagavæðingu bankanna.

Það er ástæða til, herra forseti, að rifja aðeins upp hvaða orð voru þá uppi höfð. Hvaða svardagar voru þá uppi hafðir? Hvaða veganesti fylgdi þeim frv. inn á hið háa Alþingi, t.d. í greinargerð með frv. þar sem formbreytingin var á ferðinni? En það var þannig, herra forseti, að í þeim frv. sem voru hér á ferðinni á Alþingi veturinn 1996--1997, ef minni mitt svíkur ekki, var tekið fram í greinargerð og það var afdráttarlaus yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnar að ekki stæði til að selja með beinum hætti eignarhlut í bönkunum fyrstu fjögur árin eftir að þeim yrði breytt í hlutafélag. Það hefði samkvæmt orðanna hljóðan átt að þýða að nú á þessu ári væru menn e.t.v. með til umfjöllunar fyrstu beiðnir um beina sölu á einhverjum eignarhlutum í hinum hlutafélagavæddu bönkum. Þetta veit ég að menn muna vel.

Ég veit líka að síðan hafa verið haldnar margar ræður um að aðstæður hafi breyst og að þessi orð hafi aldrei átt að standa. En ég er nú af gamla skólanum má sjálfsagt segja, herra forseti, hvað það varðar að mér finnst það mikill ábyrgðarhlutur ef menn umgangast hluti af þessu tagi með þeim hætti að fyrirvaralausar yfirlýsingar í greinargerð með stjórnarfrv. séu einskis virði. Og menn komi svo þess vegna fáeinum missirum síðar og segi: Það stóð aldrei til að gera neitt með þetta, þetta var bara í plati.

Þetta, herra forseti, hefur gerst aftur og aftur í einkavæðingaraðgerðum hæstv. ríkisstjórnar. Það sama var uppi á teningnum þegar Landssími Íslands hf. varð til eða öllu heldur þegar Póstur og sími eins og hann hét, ríkisstofnunin, var gerð að hlutafélagi á sínum tíma. Þá sór þáv. samgrh. og sárt við lagði að ekki stæði til að hrófla við eignarhlut ríkisins, þetta væri eingöngu formbreyting. Síðan reyndist sú yfirlýsing auðvitað einskis virði og það voru aldrei neinar meiningar á bak við það að standa við hana.

Í næstu umferð var farið fram á heimildir til þess að selja, að vísu bara lítinn eignarhlut í bönkunum, 15% ef ég man rétt, og þá voru í þeim frv. og samþykktum ríkisstjórnarinnar sem því tengdust miklir svardagar um að að þessu yrði staðið þannig að tryggt yrði dreift eignarhald í bönkunum. Og þá höfðu menn á þeim tíma, hæstv. forsrh., þáv. hæstv. viðskrh. og fleiri slíkir snillingar, miklar áhyggjur af hættunni á samþjöppun í fjármálakerfinu. Og færðu fyrir því mikil rök að það mætti aldrei verða að forræði eða sterkur ráðandi hlutur í þessum mikilvægu fjármálastofnunum kæmist á hendur fárra eða eins aðila. Því yrði að varna og ég veit að menn muna vangaveltur um hvernig að því yrði best staðið og svardagana um að þetta yrði að tryggja.

Það átti m.a. að tryggja, og var út af fyrir sig gert má segja, í frumsölu bréfanna með því í fyrsta lagi að bjóða þau almenningi til kaups í dreifðri sölu og að öðru leyti standa þannig að því að takmörk voru á því hvað hver og einn gat keypt. Sömu tilburðir voru uppi þegar fyrri hluti af eign ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins var seldur.

[14:30]

Þá var að vísu strax bent á það, þar á meðal af þeim sem hér talar, að það stoðaði lítið að vera með slíka leikræna tilburði þegar um frumsölu bréfanna væri að ræða ef engin viðleitni væri í þá átt að hindra samþjöppun eignarhaldsins á eftirmarkaði. Af því spunnust miklar umræður, m.a. um hvort ástæða væri til að setja beinlínis í löggjöf ákvæði sem takmörkuðu hámarkseign einstakra aðila. Ég var og er þeirrar skoðunar að ef menn meina eitthvað með tali sínu um nauðsyn þess að tryggja dreifða eignaraðild og hindra ráðandi stöðu einstakra aðila þá verði að sjálfsögðu að fylgja þessu eftir með slíkum aðgerðum. En nú ber svo við, herra forseti, að alveg eins og svardagarnir, yfirlýsingar í greinargerðum stjórnarfrumvarpa á sínum tíma eru allt í einu fyrirheitin um að tryggja dreifða eignaraðild að engu orðin. Þau eru gufuð upp. Þau eru ekki lengur með í farteskinu þegar ríkisstjórnin gerir samþykktir eða leggur fram stjórnarfrumvörp um að selja afganginn af þessum stofnunum. Þau markmið hafa fallið fyrir borð. Það er ekki minnst á þetta núna. Til dæmis er í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 1999 búið að þynna þetta allt út og núna fer lítið fyrir umræðum um þetta þegar verið er að fara fram á heimild til að selja afganginn. Þvert á móti, herra forseti, er það boðað að það geti verið æskilegt markmið að láta jafnvel einn eða fáa aðila vera það sem er kallað á fínu máli kjölfestufjárfestar. Þá er allt í einu engin ástæða til að hafa áhyggjur af því að kjölfestufjárfestirinn geti kannski í krafti tiltölulega takmarkaðrar eignaraðildar á móti mjög dreifðri eignaraðild annarra meira og minna ráðið ferðinni. En það er gamalkunnug formúla að menn geta náð forræði yfir fyrirtækjum í krafti tiltölulega lítils eignarhlutar ef þeir eiga hann á móti mörgum smáum hluthöfum sem eiga kannski óhægt um vik að sameinast. Þetta er vel þekkt dæmi.

Ég leyfi mér að spyrja, herra forseti, af því að svo vel vill til að hæstv. viðskrh. er komin til umræðunnar: Hvar eru núna áhyggjur manna af samþjöppun varðandi eignarhald fjármálastofnana? Hvenær varð sú kúvending í afstöðu ríkisstjórnarinnar, t.d. hæstv. forsrh., að nú sér þess hvergi stað í þessum áformum að menn ætli að hafa af þessu í sjálfu sér neinar áhyggjur? Það má í þeim efnum, herra forseti, vísa t.d. til þess að hér urðu og hafa á tveimur þingum orðið talsverðar umræður um frv. sem ég flyt ásamt hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem gerir ráð fyrir þeirri breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði að hámarkseign einstakra aðila í slíkum fjármálastofnunum, slíkum undirstöðufjármálastofnunum hvað varðar bankaþjónustu eða fjármálaþjónustu við almenning, geti mest orðið 8%. Menn geta rætt um hvort það sé of hátt og hvar þau mörk ættu að liggja eins og ég heyrði að hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Sverrir Hermannsson, gerði í máli sínu og nefndi töluna 3--4% ef ég tók rétt eftir. En svona er nú komið, herra forseti. Svo ætlast menn til þess að tekið sé mark á fyrirheitum, yfirlýsingum og öðru af þeim toga sem menn nota til að lokka menn til stuðnings við einkavæðingaráform af þessu tagi þegar aftur og aftur kemur í ljós að aldrei var ætlunin að gera neitt með þetta. Þetta var eingöngu sett á blað, inn í frumvörp eða ræður til að róa menn niður og það var væntanlega vegna þess að svonefnd einkavinavæðing, afhending opinberra eigna til einkaaðila á gjafakjörum, hefur náttúrlega ekki öðlast miklar vinsældir með þjóðinni enda hafa menn horft upp á ýmislegt í því sambandi eins og kunnugt er. Þá átta menn sig á því að kannski er hyggilegt að róa menn niður með slíkum yfirlýsingum rétt á meðan verið er að reyna ná frumvörpunum í gegn. En svo er náttúrlega auðvelt að finna sér tylliástæðu til að segja að nú eigi þetta ekki við eins og tylliástæðan um að bönkunum hafi vegnað svo vel að ekki þurfi að hafa neinar áhyggjur af þessu. Það megi sleppa þessu öllu saman með fjögur árin, henda því bara og rjúka í að selja þá með húð og hári. Það sama, herra forseti, er nú að gerast með svardagana um dreifðu eignaraðildina. Þegar ríkisstjórnin sér í land, þegar einkavæðingaröflin í Sjálfstfl. sjá í land, draumalandið, fyrirheitna landið er komið upp fyrir sjóndeildarhringinn, að koma þessu öllu saman úr eigu almennings og vinnumennirnir standa sig vel, hvort sem þeir voru Alþýðuflokkurinn í gær eða eru Framsóknarflokkurinn í dag og á morgun, og Sjálfstæðisflokkurinn getur vel við unað, þarf ekki einu sinni að óhreinka hendurnar sjálfur á verkunum, hefur til þess vikalipurt fólk, þá má gleyma þessu með dreifða eignaraðild. Hvað stendur í þessu stjórnarfrv., herra forseti, frv. frá sömu ríkisstjórn sem hafði uppi svardagana um dreifða eignaraðild, frv. sem við skulum ætla að hæstv. forsrh. styðji? Það stendur hér á bls. 4, aftast í greinargerð með frv.:

,,Einnig er gert ráð fyrir að kannaður verði áhugi kjölfestufjárfesta um kaup á stórum hlut í bönkunum.`` Kannaður verði áhugi kjölfestufjárfesta um kaup á stórum hlut í bönkunum, sem var bannorð, mátti ekki vegna hættunnar á ítökum ráðandi hlutar einstakra aðila þegar ræðuhöldin og svardagarnir voru uppi fyrir nokkrum mánuðum svo að segja um nauðsyn þess að tryggja dreifða eignaraðild. Svo er að vísu bætt við: ,,Í því sambandi verði sérstaklega hugað að fjárfestingu erlends fjármálafyrirtækis í bönkunum.`` En það er ekki gert að skilyrði. Samkvæmt orðanna hljóðan kemur líka til greina að velja eða finna einhvern einn eða mögulega tvo eða þrjá stóra eignaraðila, kjölfestufjárfesta til að kaupa þennan hlut. Herra forseti. Hér stangast náttúrlega svoleiðis eitt á við annað að það er með ólíkindum. (Gripið fram í.) Nei, það finnst hæstv. viðskrh. ekki. Það eru nú ekki áhyggjurnar á þeim bænum. Hæstv. núv. viðskrh. hefur sennilega verið upptekin við eitthvað annað þegar hæstv. fyrrv. viðskrh., Finnur Ingólfsson, og hæstv. forsrh. ræddu um nauðsyn þess að tryggja dreifða eignaraðild og rædd voru fram og til baka möguleg úrræði til að koma í veg fyrir að einstakir aðilar yrðu of stórir og fyrirferðarmiklir í eignarhaldinu.

Það er kostulegt, herra forseti, að upplifa það ofan í þá umræðu sem hér hefur verið, um skýrslur og álit, þar sem nákvæmlega umræðan samþjöppun og hættan á fákeppni á íslenskum markaði, hvort heldur það eru fjármálastofnanir, verslanir eða aðrir slíkir aðilar, hefur verið mjög hávær undanfarna mánuði og menn telja sig sjá afleiðingarnar, hætturnar sem því eru samfara, þá er ríkisstjórnin búin að slaka þessu öllu fyrir borð. Það er væntanlega vegna þess, herra forseti, að menn meintu aldrei neitt með þessu. Þetta var aldrei til neins annars en að slá ryki í augu manna og róa þá niður, reyna að draga úr því að menn hefðu áhyggjur af þessu og til þess að koma málinu áfram. Þegar menn sjá í land þá er þessu öll hent. Engar ráðstafanir eru til í lögum til að tryggja dreifða eignaraðild og nú eru ekki einu sinni lengur uppi tilburðir í sjálfri frumsölunni, nema þá að mjög litlu leyti, að hafa hana dreifða. Þetta, herra forseti, er dapurlegt og efh.- og viðskn. kemur að sjálfsögðu ekki frá sér frv. sem hefur hér ítrekað verið flutt um að setja í lög ákvæði sem setji þak á hámarkseign einstakra aðila í slíkum stofnunum. Undir vaskri forustu hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, formanns Verslunarráðs, hefur efh.- og viðskn. samt ekki komið því máli frá sér. Ekki á einn eða neinn hátt. Hefðu menn þó þegið að það væri a.m.k. afgreitt með einhverjum hætti, þess vegna þá í breyttu formi ef einhver vilji væri til slíks, en hann er ósköp einfaldlega ekki til staðar.

Herra forseti. Það er líka merkilegt að mjög hljótt er um afleiðingar þeirra breytinga í fjármálakerfinu í landinu sem menn hafa verið að gera á undanförnum árum. Að vísu vantar ekki órökstuddar fullyrðingar um að hlutafélagavæðingin hafi verið hin mesta blessun og menn eru svo barnalegir að halda því fram að t.d. það góða ár í afkomu bankanna skömmu eftir að þessi töfrastafir bættust aftan við nafnið þeirra hafi allt verið hlutafélagavæðingunni að þakka. Það hafi allt verið þessum töfrastöfum, hf., aftan við nöfnin á Landsbankanum og Búnaðarbankanum að þakka að þeir bjuggu við góða afkomu í einhver ár, tvö, þrjú ár. Var ástandið þá svona skelfilegt og óráðsían og ábyrgðarleysið svona rosalegt árin áður en þeir voru gerðir að hlutafélögum? Var það það sem er verið að segja? Já. Auðvitað er verið að rægja stjórnendur og starfsmenn þessara stofnana árin áður en þeim var breytt í hlutafélög. Menn hafa m.a. heyrt hv. þm. Pétur Blöndal fílósófera um það hvernig menn fari út í að lána algjörlega á skjön við alla arðsemi og allt annað af því að þeir séu ekki að lána eigið fé eins og hann kallar það. Af því að ef menn séu opinberir starfsmenn og starfi hjá ríkisfyrirtæki hljóti þeir alltaf að vera svo óábyrgir, gæti ekki hagsmuna fyrirtækisins eða stofnunarinnar og allt þetta. Nú hefur að vísu heldur sljákkað í mönnum í bili því að af einhverjum undarlegum ástæðum hafa töfrastafirnir ekki sama mátt í ár og þeir höfðu þar áður og nú hefur afkoman allt í einu snarversnað. Þó hefur bönkunum ekki verið breytt aftur í ríkisfyrirtæki, ekki er skýringin sú. Þeir eru áfram þessi fínu hlutafélög sem tóku til við að rokgræða um leið og þeir voru gerðir að slíkum. Þá hljóta einhverjar aðrar og utanaðkomandi ástæður að hafa komið til sögunnar, er það ekki? Því að ekki brotna nú lögmálin um hið sjálfgefna ágæti þess að reksturinn sé alltaf í fyrsta flokks lagi bara ef menn eru með hlutafélög.

Hér tala menn stundum, herra forseti, eins og að aldrei séu gerð mistök í einkarekstri, eins og að aldrei hafi nokkur skúta orðið gjaldþrota sem hafi haft stafina hf. fyrir aftan. Það er dálítið sérkennilegt, herra forseti, að heyra menn, sem ættu að vera sæmilega að sér t.d. um bankakreppurnar sem gengu yfir hlutafélagabanka ekkert síður en aðra, og kannski aðallega þá, láta eins og slíkt hafi aldrei gerst þegar þeir sjást ekki fyrir í rógi sínum um allt sem rekið er á félagslegum grunni. Því miður á kannski eftir að reyna á það, herra forseti, í vaxandi mæli á næstu missirum hvaða mátt töfrastafirnir hf. hafa þegar kemur að því að tryggja sjálfkrafa góða afkomu banka á næstunni.

Það sem ég ætla að gera aðeins að umtalsefni í tengslum við þetta frv., herra forseti, er líka annað og það lýtur að aðgangi atvinnulífsins að bankaþjónustu eins og hún hefur verið að breytast í gegnum þær breytingar sem menn hafa gert og tengjast sérstaklega einkavæðingu fjárfestingarlánasjóða og banka. Það er nefnilega þannig að furðuhljótt er um þá hlið mála, a.m.k. hér í þingsölum og ég hef t.d. ekki heyrt hæstv. viðskrh. hafa miklar áhyggjur af því, en ég heyri marga sem eru að berjast í því að reyna að byggja upp atvinnurekstur eða halda honum á floti hafa miklar áhyggjur af því, sérstaklega á landsbyggðinni. Ég þekki marga menn í sjávarútvegi sem sakna nú vinar í stað þar sem var Fiskveiðasjóður. Ég þekki sögur af margri þrautagöngunni sem menn í ágætlega reknum fyrirtækjum hafa mátt ganga undanfarna mánuði og missiri, t.d. bæði úr iðnaði og sjávarútvegi, vegna þess að búið er að einkavæða fjárfestingarlánasjóðina sem voru áður stofnanir til þess að tryggja grunnfjármögnun uppbyggingar og fjárfestinga í þessum atvinnugreinum. Þetta átti allt að vera svo voðalega fínt. Það átti allt að fara inn í bankana og það átti þar með að vera sjálfgefin sæla. Þannig hafa menn talað hér. En hafa menn farið einn hring um landsbyggðina og rætt t.d. við forsvarsmenn í sjávarútvegsfyrirtækjum og iðnfyrirtækjum á landsbyggðinni um það hvernig þeim gangi að fá ósköp eðlilega undirstöðufjármögnun fjárfestinga að svo miklu leyti sem menn eru yfir höfuð að reyna slíkt um þessar mundir úti á landi? Þá spái ég því að menn kynntust annarri hlið á málunum. Segjum bara að fyrirtæki ætli að byggja bát og það býður fyrsta veðrétt í bátnum. Þetta er góð eign, seljanleg og færanleg þannig að ekki er nokkur vandi að ganga að veðinu og gera úr því verðmæti ef á þarf að halda. Meðan Fiskveiðasjóður var við sögu lánaði hann í grunninn sjálfkrafa 60% til slíkrar uppbyggingar að uppfylltum eðlilegum skilyrðum. Það þurfti engar þrautagöngur, menn þurftu ekki að ganga svipugöng, menn þurftu ekki að slíta sundur buxunum á hnjánum til að fá þessa fyrirgreiðslu. Þetta var fjárfestingarlánasjóður atvinnugreinarinnar, hafði það hlutverk að stuðla að uppbyggingu í greininni og gera það með greiðum og skilvirkum hætti og þetta þjónaði vel á uppbyggingarárum í atvinnugreininni.

[14:45]

Hver er staðan í dag? Geta menn bankað upp á hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins-Íslandsbanka hf. og gengið að einhverri slíkri fyrirgreiðslu vísri? Nei, ónei. Það er oftar en ekki sem menn segja þar á bæ: ,,Ja, við höfum engan sérstakan áhuga á þessu. Þetta eru litlar tölur. Við erum aðallega í stóru viðskiptunum. Við viljum helst kaupa svona fyrirtæki fyrir milljarða. Okkur finnst það skemmtilegast.`` Telur Landsbankinn sig hafa einhverjum sérstökum skyldum að gegna í þessum efnum lengur? Nei, jafnvel ekki þó að um viðskiptavini viðkomandi banka sé að ræða. Þetta er því endalaus þrautaganga alveg sérstaklega ef menn eru utan póstnúmers eitthundrað og eitthvað að fá undirstöðufjármögnun til slíkrar uppbyggingar í dag af því að menn eru búnir að leggja niður fjárfestingarlánasjóði atvinnuveganna, búnir að einkavæða þetta allt saman samkvæmt nýjustu tísku og þessum fínu fræðikenningum. Og nú telur enginn sig hafa neinar skyldur í þeim efnum að sjá mönnum fyrir eðlilegri þjónustu á þessu sviði, sérstaklega ekki ef þeir búa úti á landi. Það er fyrirhöfn og vesen að standa í því að eiga viðskipti þangað og veðin eru náttúrlega ekki eins trygg o.s.frv. og þá bara láta menn það eiga sig. Það er miklu meira gaman og meira spennandi að kaupa matvörumarkaði og selja þá aftur o.s.frv.

Iðnaðurinn er í nákvæmlega sömu stöðu, sérstaklega smærri iðnfyrirtæki út um land. Þau kvarta mjög undan því að þau fái enga fyrirgreiðslu, sérstaklega ekki t.d. ef á að fjárfesta í húsnæði eða öðru slíku. Þá segja menn í bönkunum í dag, fínu einkavæddu bönkunum: ,,Húsnæði úti á landi, nei, við komum ekki nálægt því. Farðu og talaðu við einhvern annan. Farðu og talaðu við Byggðastofnun.`` Svo er málunum hent í Byggðastofnun. Þannig er þetta. Ég þykist vita að hæstv. viðskrh. sé vel kunnugt um ýmis vandamál af þessu tagi. En ég sé ekki að það sé mikill bilbugur á hæstv. ráðherra að halda áfram í þessum efnum.

Nú kemur sjálfsagt í andsvar, örugglega ekki í fyrsta og eina skiptið í dag, hv. þm. Pétur Blöndal og segir að þetta eigi nákvæmlega að vera svona, hitt hafi verið svo spillt og ómögulegt, að hafa fjárfestingarlánasjóði og banka í eigu ríkisins sem töldu sig öðrum þræði hafa skyldum að gegna við íslenskt atvinnulíf, reyna að stuðla að uppbyggingu og framþróun í þeim greinum sem þeir voru sérstaklega að sinna viðskiptum við. Það er auðvitað hægt að setja á þær ræður. En þá verða menn líka að vera tilbúnir til að taka afleiðingunum af því að keyra hlutina áfram á þeirri braut sem menn eru að gera hér. Ekki vantar fjármagnið í verslunarhallirnar hérna. Það gekk tiltölulega fljótt og vel fyrir sig þó að einhver sé kannski með böggum hildar í augnablikinu að fjármagna hektarana í Smáralind í Kópavoginum. Slagaði það ekki í tug milljarða sem þar var sullað saman í stór lán? Þá var áhuginn fyrir hendi hjá þessum aðilum. En ekki þegar kemur að litla manninum sem er að baksa við einhverja iðnaðarstarfsemi eða reka útgerð út um landið. Og þó að það væri hér í Reykjavík þá hugsa ég að margir gætu sagt svipaða sögu.

Það væri gaman að velta því fyrir sér hvernig landbúnaðurinn væri á sig kominn í dag ef mönnum hefðu tekist það sem margir ætluðu sér, að fara sömu leið með stofnlánadeild landbúnaðarins. Hvernig ætli einstökum bændum gengju núna leiðangrarnir til bankastjóranna til að fá úrlausn mála ef stofnlánadeildin hefði verið gleypt inn í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins-Íslandsbanka hf., eða þó það hefði verið Landsbankinn eða Búnaðarbankinn? Nei, þar er þó enn við lýði kerfi þar sem menn eru að reyna að hafa ákveðnar grundvallarreglur sem gera mönnum uppbyggingu í greininni mögulega jafnvel þó að arðsemiskröfunar séu ekki þær sömu og menn geta sett sér hér þegar verið er að fjármagna vídeóleigur, verslunarhallir eða hvað það nú er sem mest er í tísku að lána í.

Herra forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að ég tek þá stórfelldu áhættu að vera talinn alveg óskaplega gamaldags að tala svona. En það verður þá bara að hafa það því að þetta eru hlutirnir eins og þeir koma mér fyrir sjónir. Ég hef grundvallarefasemdir um að það verði til mikils ágætis fyrir framtíðina í landinu að gera þannig breytingar í fjármálakerfinu að undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar eiga orðið í syngjandi vandræðum með að fá eðlilega fyrirgreiðslu, jafnvel í dagsdaglegum rekstri, svo ég tali ekki um einhverri uppbyggingu. Og það eru engin viðmið lengur í þeim efnum að reyna að stuðla að því að hlutir sem horfa til uppbyggingar og verðmætaaukningar í undirstöðugreinunum, að það eigi að púkka upp á það sérstaklega nema jafnvel síður sé. Ég hef því ekki séð, herra forseti, að þessu leyti a.m.k., hvað sem menn geta haldið ræður um allt hitt, að þetta hafi orðið mönnum til mikilla bóta. Var þá kerfið svo mislukkað að alveg sérstök ástæða væri til að breyta því? Var Fiskveiðasjóður Íslands svo illa rekinn, hafði hann tapað svo miklum peningum að alveg sérstök ástæða væri til að slá hann af vegna þess að svo mikil óráðsía væri í svona opinberum sjóði? Var það tilfellið? Eigum við kannski eftir að fá að heyra hv. þm. Pétur Blöndal koma hérna upp og segja það? Það má þá minna hann á það fyrir fram að Fiskveiðasjóður lagði nú til obbann af eigin fé þessa fína banka sem úr honum varð. Hann var ekki verr staddur en svo. Hann var ekki verr staddur en svo að hann gat flest ár ævi sinnar endurgreitt mönnum hluta af lántökukostnaðinum vegna þess að afkoma hans var það góð. Það er svo sem ekkert óskaplega merkilegt vegna þess að þetta var öflugur sjóður með fyrsta veðrétt í fjárfestingum sínum og yfirleitt sæmilega vel tryggður með sinn hag. En tilvist hans skipti sköpum fyrir menn í því að geta ráðist í fjárfestingar af því tagi sem hann studdi og bar að gera, þ.e. nýsmíðar og viðgerðir á fiskiskipum, uppbyggingu fiskiðnaðarins, kaup fiskvinnsluvéla o.s.frv. Nú er það endalaus barningur að ná eðlilegri fjármögnun á slíka hluti, a.m.k. á meðan bönkunum, hinum fínu einkavæddu bönkum stendur til boða að lána í eitthvað annað arðsamara. Þá gera þeir það auðvitað og svelta hina á meðan. Það væri gaman að heyra hæstv. viðskrh. einhvern tíma við tækifæri fara yfir það hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér að fyrir þessum hlutum verði séð. Eða telur hæstv. ráðherra að þetta sé í góðu lagi eins og þetta er í dag, t.d. aðgangur atvinnulífsins á landsbyggðinni að fjármagni til grunnfjárfestinga hvort sem er sjávarútvegur, iðnaður eða þjónusta?

Herra forseti. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum haft þá afstöðu, eins og kom fram í framsöguræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem mælti fyrir nefndaráliti 2. minni hluta efh.- og viðskn., að skynsamlegt væri í öllu tilliti að tryggja að hér yrði a.m.k. til einn öflugur innlendur banki, þjóðbanki sem við höfum stundum kallað svo. Hann gætum við kallað kjölfestuna, einhvers konar kjölfestu í því fjármálastofnunarkerfi sem hér væri til. Allt í fína lagi með það þó að einkabanki eða einkabankar séu þá líka að keppa við hann og mjög gjarnan vildi ég sjá þar öfluga sparisjóðakeðju vera á sviðinu þannig að þetta gæti samanstaðið af þrem, fjórum slíkum einingum.

En hvers vegna gæti það haft gildi, herra forseti, að hafa slíkan banka? Jú. Það er af mörgum ástæðum, m.a. af þeim ástæðum að þessi banki gæti axlað skyldur og verið til staðar ef sú þróun yrði í viðskiptalegu tilliti hjá öðrum aðilum að þeir sérhæfðu sig og veldu sér afmörkuð svið á markaðnum til að byggja sín viðskipti á, sem auðvitað er upp að vissu marki í dag. Sparisjóðirnir eru miklu meira þjónustu- og viðskiptabankar almennings og þá kannski smáfyrirtækja heldur en annað. Þessi banki gæti líka og ætti líka að vera það öflugur að hann hefði burði til að sinna stærstu fyrirtækjum landsins. Margt fleira mætti nefna í þeim efnum. Hann væri öflug innlend fjármálastofnun með þá þekkingu og burði sem þangað væri að sækja. Þetta gætum við kallað einhvers konar norska leið að þessu leyti í bankamálunum. Og hann væri auðvitað ákveðin kjölfesta á óvissutímum, umrótstímum og væri þá til staðar í öllu falli til að sinna viðskiptum jafnvel þó að á ýmsu gengi hjá einhverjum öðrum.

Herra forseti. Það er auðvitað fróðlegt í þessu sambandi að minna aftur á bankakreppuna sem reið yfir Vesturlönd og mörg Norðurlanda í kringum 1990 og það sem þá gerðist. Þá höfðu einkabankar og nýlega einkavæddir bankar í sumum tilvikum farið þannig að ráði sínu að þeir sigldu meira og minna í strand og þurftu á stórfelldri aðstoð ríkisins að halda til þess að fara ekki á hausinn. Nú er það auðvitað svo samkvæmt markaðslögmálum að þeir hefðu átt að fara á hausinn og það hlýtur hv. þm. Pétur H. Blöndal að viðurkenna, að það hefðu verið mistök að bjarga þeim, eða hvað? Því ef lögmálin ríkja eiga þau væntanlega að ríkja almennt og einkabankar hljóta þá að eiga að hafa vit fyrir sér og sjá fótum sínum forráð. En auðvitað láta menn ekki undirstöðufjármálastofnanir í einu landi fara á hausinn. Það gera menn ósköp einfaldlega ekki vegna þess að herkostnaðurinn sem því yrði samfara yrði allt of mikill. Því hleypur ríkið til og mokar í þá peningum til að halda þeim á löppunum velflestum eða a.m.k. þeim mikilvægustu eins og dæmin sanna. Auðvitað er það þá orðinn pilsfaldakapítalismi og ekkert annað sem í þessu er fólginn. Einkavæðingin á þessum stofnunum er þá einnig í því skjóli að menn mundu koma þeim til aðstoðar og munu ef á þarf að halda. Er það ekki? Sjálfsagt þykir mönnum fínt að vita af því, hafa það fyrir aftan sig, að Landsbankinn hf. verði ekkert látinn fara á hausinn þó að hann kunni að lenda í erfiðleikum einhvern tíma á komandi tímum, þá muni ríkið koma þar til aðstoðar.

Ég hygg að reynslan af þessum árum hafi t.d. valdið því að menn hafa í Noregi ákveðið að fara sér frekar hægt í þeim efnum að rjúka til og einkavæða alla bankana aftur þó að þar standi að vísu til einhverjar breytingar núna á t.d. eignarhlut ríkisins í Den norske Bank. Þó svo að menn gerðu þetta í Noregi eða annars staðar og þó svo það sé almenn regla sem menn segja í fylgiskjölum að bankar og slíkar fjármálastofnanir séu algerlega einkareknar, að vísu með undantekningum, Þýskaland, Austurríki og kannski nokkur lönd, þá breytir það engu því að við erum á Alþingi Íslendinga, herra forseti. Við erum að tala um íslenskar aðstæður og m.a. síðustu dagar ættu að kenna mönnum það að hinn svokallaði íslenski fjármálaheimur er lítill tebolli og það þarf oft ekki mikla golu til að talsverður öldugangur fari að verða ofan í þeim tebolla. Það gætu verið fullkomlega réttmætar og vel rökstuddar ástæður fyrir því að fara að einhverju leyti aðra leið hér en þá sem valin er hjá milljónaþjóðum á miklu þróaðri mörkuðum en hér er til að dreifa.

Ég ætla því að leyfa mér, herra forseti, að kalla það glannaskap að vaða áfram með þeim hætti sem ríkisstjórnin er að gera. Maður hefði haldið að nóg hefði verið þá að selja t.d. annan ríkisbankann með þeim hætti sem hérna er verið að óska eftir heimild til að gera.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson ræddi áðan, og ég ætla að koma aðeins inn á það, herra forseti, aðstæður á markaðnum sem eru fyrir hendi núna þegar þessi fyrirhugaða sala er í undirbúningi. Og einhver orðaskipti áttu hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, 4. þm. Norðurl. v., um það mál. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að það kynni að verða þröngt í búi, þröngt fyrir dyrum hjá smáfuglunum ef bæði Landsbankanum og Búnaðarbankanum yrði skellt á markað á næstu mánuðum og Landssímanum í viðbót að einhverjum verulegum hluta þannig að hér yrðu tugir milljarða settir á markað á sama tíma. Ég hygg að það sé rétt að þá yrði kannski ekki mikið eftir. (Gripið fram í.) Já, og þá er eftir að sjá hverjir kaupa og hver eftirspurnin verður. En segjum að þetta verði reynt. Þá held ég að það hljóti a.m.k. að mega álykta að ekki verði mikið eftir af lausum peningum handa öðrum sem kynnu að vilja sækja sér eitthvert hlutafé í fyrirtæki sín á markaði á næstu missirum.

[15:00]

En mér fannst eitt gleymast í umræðunni og það eru stóru áformin sem ég veit að hæstv. viðskrh., sem jafnframt er iðnrh., ber mjög fyrir brjósti og það er að sækja tugi milljarða á innlendum hlutabréfamarkaði í stóriðju. Eru menn nokkuð að gleyma því? Svo eru líka draumar um að miklir fjármunir komi frá innlendum aðilum í formi áhættufjár í þátttöku í fjárfestingu í erlendri stóriðju á móti útlendingum, sem ætla að vísu aðallega að leggja sitt fram í formi þekkingar og ýmiss konar þjónustu, minnst í peningum, og er gamalkunnug formúla, vel þekkt af samskiptum við Elkem-Spigerverket á Grundartanga. (Viðskrh.: Þetta eru allt ... fyrirtæki.) Ekki voru það mín orð, hæstv. iðnrh., en þetta mega vera orð hæstv. ráðherra. Þá fer maður að velta því fyrir sér hvort þetta sé allt saman þaulhugsað og yfirvegað hjá ríkisstjórninni. Að ætla að selja bankana, taka allmarga milljarða ef ekki milljarðatugi fyrir það, að ætla að selja drjúgan hlut í Landssímanum, taka mikið fé þannig inn, kannski eitthvað af þessu frá útlöndum að vísu ef einhver útlendingur finnst sem vill vera svo vinsamlegur að kaupa og fá svo kannski 10 milljarða eða svo frá innlendum aðilum í mikla áhættufjárfestingu, t.d. í álver á Reyðarfirði. Hverjir eru nú líklegir til þess að vera með peningana undir koddanum tilbúna í þetta allt saman? (Gripið fram í.) Er þá ekki líka hugsanlegt að einhver fari að velta því fyrir sér að það verði að lokum hægt að gera þarna góð kaup því að ef þetta verður eins og stundum áður að tilgangurinn helgi meðalið þá eru menn væntanlega alveg tilbúnir til þess að selja þetta á hálfvirði. Það var einu sinni fjármálaráðherra hér með þjóðinni sem var svo mikill einkavæðingarsinni að hann hafði uppi vangaveltur um það, kvartaði að vísu stundum undan því að þetta væri ekki nákvæmlega eftir honum haft, að það væri svo mikilvægt að einkavæða ákveðið ríkisfyrirtæki að það gæti vel verið réttlætanlegt að selja það á hálfvirði af því að tilgangurinn helgaði meðalið. Einkavæðingin var aðalatriðið, að þjóna trúarbrögðunum, ekki endilega verðmætið sem fékkst fyrir sameiginlegar eignir þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Auðvitað er það alveg dásamlegt þegar menn eru alltaf uppi með þessa væntumþykju fyrir almenningi sem á að fara að selja þessa hluti en gleyma því eða sleppa því að það er almenningur sem er líka að selja því að það er ríkið fyrir hönd almennings í landinu sem á þessi fyrirtæki.

Ég hefði gaman af því, herra forseti, að heyra hæstv. viðsk.- og iðnrh. og ekki væri nú verra hæstv. forsrh. sem fór með efnahagsmál a.m.k. til skamms tíma --- það kann að vera að hann hafi sagt af sér embætti sem slíkur nú þegar heldur hefur farið að dökkna í álinn og dökkna útlitið og mér skilst að Seðlabankinn sé orðinn ráðherra efnahagsmála í landinu, a.m.k. er verið að undirbúa það að hægt sé að kenna honum um ef illa fer --- að heyra þessa hæstv. ráðherra fara aðeins yfir þetta landslag með okkur. Hvernig sér hæstv. viðskrh. fyrir sér að innlent fjármagn verði til staðar til að kaupa restina af Landsbankanum, restina af Búnaðarbankanum, drjúgan hlut í Landssímanum og fjármagna á móti útlendingum stærstu fjárfestingar Íslandssögunnar í stóriðju? Hvernig sjá menn þetta fyrir sér? Hvar eru þessir peningar og hvaða áhrif er líklegt að þetta hafi á markaðinn o.s.frv.? Mér finnst þetta, herra forseti, vera gjörsamlega eins og menn gangi um með hreinu óráði. Sá aðili sem hefur eitthvað verið að reyna að átta sig á því hvaða aðstæður væru uppi að þessu leyti er Seðlabankinn, samanber fskj. I með frv. Þar segir m.a., með leyfi forseta, og það er svar við þeirri spurningu hvort heppilegt sé miðað við núverandi aðstæður í þjóðarbúskapnum að ríkið selji eign í bönkunum og hver yrðu þjóðhagsleg áhrif slíkrar sölu og Seðlabankinn segir um þetta atriði m.a.:

,,Eins og fram kemur hér á eftir eru áhrif sölu á eignarhlut ríkisins í bankakerfinu á innlenda eftirspurn óviss og geta brugðið til beggja átta`` --- ég vissi ekki að það væru bara tvær áttir en þær eru það greinilega í þessu sambandi --- ,,eftir því hvernig að sölunni er staðið. Seðlabankinn varar því sterklega við því að líta á sölu þessara eignarhluta sem lið í eftirspurnarstjórnun. Því er mjög varasamt að nota slíka sölu til að fresta nauðsynlegum hagstjórnaraðgerðum á öðrum sviðum.``

Þetta eru nú dálitlar pillur, held ég. Er ekki Seðlabankinn á sinn diplómatíska hátt að reyna að senda skilaboð? Hann er að segja, eins og ég hef tilhneigingu til að túlka það, að ekki eigi að rjúka til og selja afganginn af eignum ríkisins til að framlengja veisluna og nota það sem aðferð til að takast ekki á við hin raunverulegu efnahags- og hagstjórnarvandamál. Kaupum okkur ekki tíma með því að selja Landsbankann og Búnaðarbankann og Landssímann og restina af fjölskyldusilfrinu og fljótum áfram sofandi að feigðarósi í þessum efnum. Tökumst á við hin raunverulegu hagstjórnar- og efnahagsvandamál. Áfram heldur Seðlabankinn:

,,Hér varðar mestu hvort líklegt sé að einkavæðing bankanna muni stuðla að minna eða meira ójafnvægi í þjóðarbúskapnum en nú þegar er fyrir hendi.``

Meira ójafnvægi í þjóðarbúskapnum en nú þegar er fyrir hendi. Það er eins gott að hæstv. forsrh. hefur ekki lesið þennan texta því að hann væri örugglega búinn að leggja til að Seðlabankinn yrði lagður niður ef hann hefði tekið eftir því að í áliti frá Seðlabankanum er tekið svona djúpt í árinni, samanber heiftina sem braust út þegar Þjóðhagsstofnun leyfði sér að draga athyglina að hagstjórnarmistökum aftur í fortíðinni.

Svo segir:

,,Þar sem þessi áhrif eru óviss er ekki hægt að fullyrða að neitt í núverandi stöðu mæli sérstaklega með eða móti sölu.``

Ekki er hægt að fullyrða að neitt í núverandi stöðu mæli sérstaklega með eða móti sölu. Þetta er nú mikil speki, mikil latína. Seðlabankinn treystir sér, á mannamáli sagt, ekki til þess að mæla með sölu. Hann sér ekki nein rök umfram þau sem út af fyrir sig mæla gegn henni að mæla með sölu því annars hefði hann væntanlega sagt að það væri einmitt skynsamlegt að drífa þennan hlut út á markaðinn núna. Það gerir hann ekki.

Svo segir:

,,Þó má e.t.v. segja að í ljósi þess hve efnahagsástandið er viðkvæmt um þessar mundir`` --- og aftur gengur Seðlabankinn býsna langt og tekur bara verulega áhættu af því að honum verði hótað niðurlagningu ef að líkum lætur --- ,,og áhrifin óljós þurfi að gæta þess sérstaklega vel við útfærslu sölunnar að hún verði ekki til þess að ýta undir ójafnvægi.``

Þetta er stórmerkilegur texti, herra forseti, vegna þess að það er tiplað svoleiðis á tánum þarna í kringum hlutina. En eitthvað er Seðlabankinn samt að reyna að segja okkur með þessu, tel ég vera. Er það ekki það að vegna óvissunnar og þess að ómögulegt sé að meta hvaða áhrif þetta hafi og það sé svo mikið ójafnvægi og ástandið sé svo viðkvæmt um þessar mundir þurfi að fara alveg sérstaklega varlega? Eru menn að því? Nei, það er vísað á einhverja einkavæðingarnefnd. Það er einhver einkavæðingarnefnd sem virðist vera komin með völdin í landinu sem á bara að svara þessu og það er vísað á hana. Það sé ekkert hægt að segja neitt um tímasetningar eða hvernig í þetta verði farið af því að það sé einkavæðingarnefndin sem ráði því. (Gripið fram í: Sem seldi SR-mjöl.) Það er sama nefndin og seldi SR-mjöl. Það er alveg rétt. Þetta eru reyndir menn og hafa notið mikils trúnaðar hjá ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar, sömu menn í einkavæðingarnefnd. Eitt af fyrstu verkefnum þeirra var hin glæsilega einkavæðing SR-mjöls.

Herra forseti. Mér finnst þetta ekki benda til þess að þetta sé allt mjög vandlega yfirvegað og hluti af einhverri þaulhugsaðri og yfirvegaðri aðferðafræði enda virðist efnahagsstjórnin í landinu spiluð af fingrum fram dag frá degi. Það er þannig. Það er með miklum ólíkindum hvernig t.d. þeir hlutir hafa birst okkur í gegnum innkomu hæstv. forsrh. af og til í þau mál. Gaman væri að vita hvað Seðlabankinn eða þess vegna einhver önnur stofnun, til þess sæmilega bær stofnun, hefði sagt ef hún hefði fengið allan pakkann, ef hún hefði verið beðin að meta áhrifin af því að selja líka Landssímann og reyna líka að afla fjár í þau stórfelldu stóriðjuáform sem á að gera að hluta til innan lands o.s.frv. og ég kom inn á áðan.

Um framgöngu þessarar ríkisstjórnar og ríkisstjórna undanfarin missiri í bankamálum mætti auðvitað margt segja. Það hefur verið skrautlegt, satt best að segja, að fylgjast með því hvernig það hefur borið að, allt frá því menn lögðu upp í þennan leiðangur fyrir einum fjórum árum. Einu sinn kom upp sú bóla um mitt sumar að selja Wallenbergunum sænsku drjúgan hlut af Landsbankanum. Svo var hætt við það af einhverjum ástæðum. Hér brosa menn í salnum sem kunna að hafa verið þar einhvers staðar nálægt vettvangi. Síðan kom núv. hæstv. viðskrh. og sá ljósið í því einu að sameina bankana með stórbrotnum aðferðum, kom sér í stríð við bankaráð og yfirmenn Búnaðarbankans og ætlaði að þjösnast þar áfram og skipta um áhöfn og guð má vita hvað og var svo barin niður með það allt saman af Samkeppnisstofnun sem úrskurðaði það andstætt samkeppnislögum að fara út í þá samþjöppun. Í kjölfar þess skipbrots er þessu hent inn svona: ,,Seljum bara restina af þessu í hvelli, bara út með þetta.``

Herra forseti. Þetta kalla ég útsöluhugsunarhátt. Þetta er ekkert annað. Það liggur algjörlega fyrir að það er ekkert annað en útsöluhugsunarháttur í þessum efnum. Örvæntingin er það mikil í stjórnarliðinu, item náttúrlega trúin sem rekur það áfram á einkavæðinguna einkavæðingarinnar vegna, að menn gefa það í raun frá sér að viðhalda einhverjum prinsippum í þessu sambandi eins og um dreifða eignaraðild eða því að selja þetta þó ekki nema við aðstæður þegar nokkurn veginn fullt verð fæst fyrir eignir almennings og annað í þeim dúr. Auðvitað vitum við, herra forseti, að óvissan í efnahagsmálunum hefur leikið menn þannig að þar er bara skollin á algjör taugaveiklun og nauðhyggja. Þetta lýsir sér t.d. vel í hinum örvæntingarfulla söng á meiri erlenda fjárfestingu og erlenda stóriðju. Menn emja og veina á fundum Verslunarráðsins og annars staðar þar sem þessir hlutir eru á dagskrá: ,,Meiri erlenda stóriðju strax hvað sem það kostar.`` Nú stendur svo illa á að Landsvirkjun er búin að telja sjálfri sér og öðrum trú um það að hún geti hvergi virkjað í landinu nema með því að sökkva Þjórsárverum og þá segja menn að það verði að hafa það af því að það standi bara einmitt þannig á núna að við verðum að fá þessa erlendu peninga inn í landið til að lappa upp á krónuna og halda hérna uppi ... (Gripið fram í: Og góðar fréttir.) Og góðar fréttir, sérstaklega bara góðar fréttir. --- En því miður standi svo óheppilega á að það er fljótlegast að fara í að sökkva Þjórsáverum og þá verður að gera það. Svona nauðhyggjuörvæntingartaugaveiklunarsöngur er þetta orðinn, herra forseti. (Gripið fram í.) Já, menn segja það í orði kveðnu. Hæstv. menntmrh. var ekki rólegur í ræðupúlti rétt áðan. Hann hefur gleymt heilræðum forsrh. um að menn eigi að vera rólegir. Og þeir eru ekki rólegir hjá Verslunarráðinu. Ég las langan óskalista þaðan um erlendar fjárfestingar og meiri einkavæðingu og meira eldsneyti á bálið. (Gripið fram í.) Meira eldsneyti á bálið því það má fyrir enga muni slokkna. Þess vegna ber þetta svona að okkur, herra forseti, að það er allt á fartinni og það á að henda út þessum eignum almennings sem byggst hafa upp í gegnum þjónustu við almenning í landinu og stofnanir sem almenningur á, þjónustustofnanir.

Mér verður stundum hugsað til þess ágæta listamanns Sigmunds sem teiknar góðar myndir í Morgunblaðið og oft segja meira en langar ræður eða langar greinar. Hann teiknaði einhvern tímann karl og kerlingu sem stóðu fyrir dyrum úti og hlógu sig máttlaus af nýjustu firrunni sem hafði komið frá ráðamönnum. Ég held að það hafi verið karlinn sem hafði orð fyrir þeim hjónum og sagði sem svo: ,,Ja, allan fjandann láta þeir sér detta í hug. Nú ætla þeir að fara að selja okkur okkar eigin banka.`` Og það var þegar einkavæðing Landsbankans var á dagskrá í fyrsta sinn. Karlinum þótti það skrýtin speki að nú ætti að fara að selja almenningi sinn eigin banka. Lái honum hver sem vill þó að hann hugsaði þannig.

[15:15]

Herra forseti. Um þessa stöðu á markaðnum er kannski ekki mikið meira að segja. Þó eru eitt eða tvö atriði áhugaverð í því sambandi í viðbót, t.d. náttúrlega salan úr landi. Hún er angi af örvæntingunni, taugaveikluninni og hausthljóðinu sem er komið í góðærisvindinn. Það er orðið markmið sem alltaf fylgir með einhvers staðar í farteskinu hvort heldur það er Landsbankinn eða viðskiptabankanir að reyna að koma sem mestu af þessu úr landi. Ég spái því að einhvern tíma hefði stuðningsmönnum Framsfl. þótt það merkileg örlög að sjá flokkinn sinn þannig kominn á þessum herrans tímum að hann stæði að því alveg hiklaust og möglunarlaust að setja það í plögg af þessu tagi að það væri alveg sérstakt markmið í sjálfu sér að koma eignarhaldi á undirstöðustofnunum eins og Landssímanum eða fyrrum ríkisviðskiptabönkum í hendur útlendingum. Ekki að það geti ekki verið ágætt að eiga viðskipti við þá. Ekki er ég að lasta það að samstarf við útlendinga í atvinnumálum og þátttaka yfir landamæri fram og til baka í atvinnulegu tilliti er auðvitað hluti af veruleika dagsins í dag. En það er samt ekki hægt annað, herra forseti, en aðeins gamna sér við það og velta því upp að þetta eru óneitanlega viss tímamót þegar það er orðið þannig að menn segja ekki bara sem svo að ef einhverjir vilja koma og kaupa, þá það, nei, heldur er það beinlínis markmið í sjálfu sér að selja þetta út frekar en að selja Íslendingum. Það hlýtur að vera það sem átt er við þegar talað er sérstaklega um nauðsyn þess að reyna að finna einhverja útlendinga til þess að kaupa í bönkunum eða Landssímanum.

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., var hér líka með merkilegar hugleiðingar. Ég náði kannski ekki alveg öllu sem hv. þm. var að tala þar um en mér skilst að það hafi gengið í þá átt --- var það ekki, herra forseti? --- að vel kæmi til álita að auka eigið fé bankanna áður en meira væri selt í þeim. (Gripið fram í: Betra.) Það væri betra. Hvers vegna skyldi það nú vera, herra forseti? Það er svolítið óvenjulegt ef maður ætlar að fara að selja eitthvað og fá fyrir það peninga, að maður byrji á því að setja í það meiri peninga. Hvað ætli gangi hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni til? Getur verið að hann sé óbeint að viðurkenna að ekki sé víst að þetta sé sérstaklega góð söluvara eða eftirspurnin mjög mikil eða að framtíðin, hin næsta framtíð sem við okkur blasir, sé svo óviss að það muni verða eftirspurn eftir því að styrkja bankana áður en skútan heldur út á þann ólgusjó sem fram undan er þannig að menn séu þó alla vega róaðir gagnvart því að þá reki ekki upp á sker alveg í bráð, það verði örlítið borð fyrir báru hjá þeim? Er það kannski veruleikinn þegar menn skyggnast um og meta aðstæður á íslenska fjármálamarkaðnum að þá séu þær bara mjög ótryggar og staða bankanna ekki síst í því sambandi býsna tæp og þá sé þrautalendingin þessi, förum í ríkissjóð, sækjum svolítið af seðlum í ríkissjóð og styrkjum eiginfjárstöðu bankanna þannig að þeir þyki fýsilegri kostur og að líklegra sé að þeir nái a.m.k. að halda sjó einhver missiri inn í framtíðina og það sé nú hin raunverulega ástæða fyrir því að menn eru að láta sér detta þetta í hug? (VE: Ekki eftir að þeir fengju úr ríkissjóði.) Nú, nú. Hvaðan eiga þeir þá að koma? Á að fara í enn einn leiðangurinn og sækja þessa lausu peninga til að byrja á því að styrkja eigið fé bankanna áður en þetta heldur áfram? Ég ætla að vona að hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni og skoðanabræðrum hans detti ekki í hug að hægt sé að nota sömu krónuna oft í þessu sambandi, þ.e. ekki nema menn hafi fundið upp nýja aðferð í þeim efnum, einhverja nýja gullgerðarvél til að búa til margar krónur úr hverri krónu.

Herra forseti. Það skyldi nú ekki vera svo að ofan á allt það sem hér hefur áður verið rakið bætist það að undirliggjandi séu í þjóðfélaginu býsna miklar áhyggjur yfir því að fram undan séu mjög viðsjárverðir tímar, jafnvel þannig að fjármálakreppa kunni að leynast handan við hornið, alla vega ef illa fer. Og er þá skynsamlega að verki staðið að öllu leyti, herra forseti, yfir höfuð? Er það nú? Væri þá ekki betra að reyna að halda ró sinni, eins og sagt er, og standa ekki í æfingum af þessu tagi sem m.a. Seðlabankinn viðurkennir að sé eiginlega ekki nokkur leið að meta hvaða áhrif muni hafa og gefur allt eins boltann upp með að gæti bara orðið til þess að gera illt verra ef svo ber undir.

Herra forseti. Ég hef síðan oft sagt það að ef menn hefðu nálgast þetta mál, t.d. þessa uppstokkun fjármálastofnana sem hér hefur staðið yfir sl. hálfan áratug eða svo út frá einhverri heildarstefnumótun, út frá einhverjum markmiðum sem menn hefðu þá sett sér fyrir fram um það að þeir vildu sjá tiltekna þróun eða tiltekna stöðu vera fyrir hendi í þessum efnum eins og t.d. þá að það væri með einhverjum fullnægjandi hætti séð fyrir fjárfestingarlánaþörf atvinnulífsins þannig að það tæki mið af íslenskum aðstæðum og íslenskum veruleika, ef menn hefðu sagt sem svo að þeir ætluðu að einkavæða ýmsa þætti á þessum markaði en ætluðu að halda einum öflugum innlendum þjóðbanka sem kjölfestu á þessu sviði, a.m.k. til einhverra ára litið og hefðu einkavætt þá eða selt afganginn, þá hefði það verið eitthvað sem hægt væri að ganga út frá og horfa á sem slíkt, vera sammála eða ósammála eftir atvikum. En þetta hefur ekki verið þannig. Þetta hafa verið tilviljanakenndar og handahófskenndar vendingar eins og sú saga sem ég hef nú rakið ber vitni um þar sem menn hafa skipt um áherslur í miðri á. Einn daginn á að sameina bankana. Annan daginn á alls ekki að gera það. Einn daginn á ekkert að selja næstu fjögur árin og sú yfirslýsing er ekki orðin köld þegar allt í einu á að rjúka til að selja allt o.s.frv., sem segir manni það að þetta hefur verið tætingsleg og handahófskennd nálgun þar sem engin heildarstefnumörkun um skynsamlega uppstokkun á fjármálasviðinu í landinu var höfð að leiðarljósi. Auðvitað veit ég að við þessu eiga menn þau svör að hinn óskeikuli markaður eigi bara að sjá um þetta, hann hafi alltaf rétt fyrir sér, hann geri þetta best og auðvitað eru menn lausir allra mála ef þeir trúa þessu bara og vakna á morgnana og sofna á kvöldin alsælir í þeirri vissu að svona sé þetta. Þá er stutt yfir í afskiptaleysistefnuna, ,,laissez-faire``, að þetta fari allt einhvern veginn. Kannski vilja menn nálgast þetta þannig.

Það síðasta sem ég ætla að nefna, herra forseti, eða kannski taka undir af því að það hefur komið fram í fyrri ræðum, er það hvernig hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin og meiri hlutinn hefur komið fram í þessum efnum endurtekið og ítrekað við starfsmenn. Það hefur verið leiðinlegt upp á það að horfa. Þeir hafa nánast einskis verið virtir. Við þá hefur oftast nær ekki verið talað. Þeir hafa frétt af vangaveltum og jafnvel fyrirætlunum stjórnvalda í fjölmiðlum um þetta eða hitt og það er auðvitað ekki notalegt fyrir starfsfólk að búa við slíkt og í raun til háborinnar skammar af því að það er engin ástæða til þess. Það kostar ekki mikið þó að ekki sé meira að gert en að eiga reglubundið fundi með forsvarsmönnum starfsfólks og upplýsa þá um gang mála. Auðvitað hefði mönnum verið í lófa lagið að gefa út yfirlýsingu, ganga frá því fyrir fram t.d., að hvaða breytingar sem þarna kynnu að verða þá mundi ríkið beita áhrifum sínum til þess og stjórnendur bankanna að ekki kæmi t.d. til uppsagna í tengslum við þessar breytingar, segjum fyrstu þrjú árin eða fjögur eins og menn hafa gert þetta sums staðar erlendis þar sem starfsfólk hefur ósköp einfaldlega stuðlað að slíkum breytingum í öruggri vissu þess að engum yrði sagt upp vinnu og að reynt yrði að leysa vanda hvers og eins í þeim efnum.

Það er dálítið dapurlegt, herra forseti, að þurfa að viðurkenna það að jafnvel einkaaðilar sem hafa gengið í gegnum breytingar af þessu tagi með sín fyrirtæki, samruna við aðra eða annað slíkt, hafa oftar en ekki einmitt gert þetta sem ekki er nokkur leið að toga út úr ríkisvaldinu þegar það á í hlut. (Gripið fram í.) Það er dapurlegt. Hvað er því til fyrirstöðu að hæstv. ráðherrar og ríkisstjórnin t.d. taki grundvallarákvörðun um það að hvað sem verði með bankana, hvort sem þeir verða sameinaðir eða einkavæddir í einhverjum áföngum, þá sé fyrir fram ákveðið að ekki verði gripið til uppsagna heldur verði reynt að leysa mál hvers og eins með því að gera við þá starfslokasamninga, finna þeim aðra vinnu eða hafa þá við störf í stofnununum næstu árin. Þetta er auðvitað hægt að gera og hefur víða verið gert, herra forseti, með ágætum árangri. Það er dapurlegt en kannski einmitt lýsandi fyrir viðhorfin hjá þessari hæstv. ríkisstjórn að ekki hefur verið nokkuð leið að toga neitt af því tagi upp úr ríkisstjórn Íslands í tengslum við þessar breytingar í bankakerfinu og oftar en ekki hafa starfsmenn mátt búa við vangaveltur um örlög sín í fjölmiðlum. Það er auðvitað til háborinnar skammar, herra forseti.