Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 15:30:02 (7383)

2001-05-10 15:30:02# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að þetta er trúarbragðakennt, en ég segi ekki á hvorn veginn. Það gæti alveg eins verið út frá trú á ríkisvæðingu, trú á að ríkið geti bjargað öllum hlutum, trúin á að menn geti stjórnað ofan frá. Það skyldi þó ekki vera. Ég bendi á að ef forstjóri í einkafyrirtæki gerir mistök, í stóru hlutafélagi með þúsundum hluthafa, þá er það hluthafafundur sem ákveður um örlög hans. Gengi á bréfunum lækkar og þá verða hluthafarnir mjög órólegir. Þetta veit framkvæmdastjórinn. Slík tæki, slíka svipu hafa menn ekki í opinberum rekstri.

Hv. þm. kom inn á fleira í ræðu sinni og spurði hvernig menn ætluðu að fjármagna þetta. Hvernig getur markaðurinn tekið við allri þessari miklu einkavæðingu? Þá vil ég benda hv. þm. á að snúa sér til flokksbróður síns, hv. þm. Ögmundar Jónassonar, sem er sennilega eini þingmaðurinn sem er alvörukapítalisti, situr í stjórn lífeyrissjóðs. Þaðan munu peningarnir væntanlega koma. Ríkissjóður hefur frá áramótum dælt milljörðum inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins til að borga upp lífeyrisskuldbindingar sem vaxa enn hraðar en ríkið dælir inn í hann. Það skyldi ekki vera að sá sjóður gæti keypt eitthvað af þessu fyrirtæki?