Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 15:36:05 (7386)

2001-05-10 15:36:05# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gjarnan heyra meira af þessum upplýsingum sem fram komu í efh.- og viðskn. um að hlutabréfamarkaðurinn eða íslenski fjármálamarkaðurinn rúmi hvort tveggja og allt í senn, sölu á Landsbankanum og Búnaðarbankanum, drjúgum hlut í Landssímanum og síðan verði áfram ráðrúm fyrir innlenda fjárfesta til að leggja stórfé í erlenda stóriðju á næstu missirum. Hvaða sérfræðingar upplýstu þetta í efh.- og viðskn.? Það hefur væntanlega ekki verið Seðlabankinn. Í umfjöllun Seðlabankans kemur þetta hvergi fram. Þvert á móti er jafnvel varað við hinu gagnstæða. Ég vil fá að heyra nöfn sérfræðinganna. Hvaða sérfræðingar voru þetta? Var þetta kannski einkavæðingarnefndin? Eða var þetta hinn leynilegi efnhahagsráðgjafi forsrh., sem enginn veit hver er, ef hann er þá til? Hverjir voru þetta? Hvaða sérfræðingar gáfu þessar upplýsingar?

Varðandi útlánaþensluna, sem auðvitað er vitað að varð í bönkunum, þá skiptir náttúrlega máli í hvað útlánin fara. Ég kannast t.d. ekki við að forsvarsmenn í atvinnulífinu á landinu hafi orðið varir við að léttara væri að fá fjármagnsfyrirgreiðslu til atvinnurekstrar síns. Þvert á móti. Hér má ekki leggja að jöfnu fjármögnun á viðskiptahallanum, eyðslunni og þenslunni t.d. á fasteignamarkaði hér með byggingu verslunarhallanna annars vegar og svo þörf undirstöðuatvinnuveganna og framleiðsluatvinnuveganna fyrir fjármagnsfyrirgreiðslu til fjárfestinga o.s.frv.