Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 15:39:45 (7388)

2001-05-10 15:39:45# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[15:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það liggur fyrir að eitt að því sem menn telja að hafi verið gert rangt á sínum tíma í tengslum við einkavæðingu bankanna hafi verið sú aðferð að einkavæða í gegnum að auka eigið fé þeirra. Það ýtti undir útlánaþensluna sem varð auðvitað of mikil og menn hafa gagnrýnt. Það liggur fyrir og segir ekki neina sérstaka sögu um innbyrðis aðstöðu manna í atvinnurekstri hvað þetta varðar, á landsbyggðinni, á höfuðborgarsvæðinu eða þá flokkað eftir atvinnugreinum.

Ég vísaði fyrst og fremst til þeirrar reynslu sem ég hef af samtölum við fjölmarga forsvarsmenn í atvinnulífinu, sérstaklega úti um landið. Þar segja menn unnvörpum þessa sömu sögu. Þeir telja stöðu sína allt aðra og verri en í fyrra kerfi sem menn hafa svo mjög haft á hornum sér eins og kunnugt er, en ekki má á milli sjá hvor gleðst meira yfir þessum breytingum öllum, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson eða hv. þm. Pétur H. Blöndal.

Ég vil ekki gera hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni upp skoðanir. Það geta verið rök fyrir því sem hv. þm. segir um efnahagsreikning bankanna. Það er vissulega ljóst að eiginfjárhlutfall þeirra hefur farið lækkandi. Það er auðvitað ekki gott en ég hefði þó talið að frekar en að rjúka til og setja meira fé inn í bankana áður en þeir yrðu einkavæddir hefðu menn átt að styrkja eigið fé Seðlabankans. Þar er ég þó sammála hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni. Eða var Verslunarráðið með það á sínum lista á dögunum? Ég held að kannski væri mikilvægast, eins og staðan er í dag, að styrkja Seðlabankann til að ráða betur við hlutverk sitt, sem ég óttast að verði ákaflega erfitt á næstu mánuðum og missirum. Þannig ætti frekar að aga bankana til að halda sjó og standa ekki í þeim æfingum sem þeir hafa gert á undanfarið. Bankarnir verða auðvitað sjálfir að horfast í augu við að þeir hafa farið glannalega að ýmsu leyti. Þeir eru að vísu og því miður ekki einir um það.