Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 15:42:09 (7389)

2001-05-10 15:42:09# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[15:42]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í upphafi máls míns finnst mér ástæða til að minna á að við 1. umr. um frv. þetta kallaði ég mjög eindregið eftir því að hæstv. viðskrh. beitti sér fyrir því að skýrsla, sem Samfylkingin hefur óskað eftir um úttekt á stjórnunar- og eignatengslum á fjármálamarkaði og í atvinnulífinu, yrði tilbúin og lögð fyrir þingið áður en málið færi til 2. umr. Mér finnst ástæða til að rifja þetta upp í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram, í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið í efh.- og viðskn. um þetta mál og umræðu sem fram fór við 1. umr. um þetta frv.

Rauði þráðurinn, herra forseti, í málflutningi stjórnarandstöðunnar í umræðunni er að hún varar við samþjöppun á fjármálamarkaðnum. Menn lýsa áhyggjum sínum af áhrifunum af sölu á bankanna á markaðsráðandi stöðu í bankakerfinu og af samþjöppun fjármálalegs valds.

Herra forseti. Það var fyllilega eðlilegt að óska eftir því að þessi skýrsla lægi fyrir. Það hefur þessi umræða leitt í ljós. Efni hennar er rauði þráðurinn í umræðunni. Nú erum við komin til 2. umr. með þetta mál. Samkvæmt tímaáætlun þingsins lifa aðeins örfáir dagar af þessu þingi. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður þessari skýrslu? Megum við eiga von á því að fá hana áður en þetta mál gengur til 3. umr.? Hæstv. ráðherra lofaði að beita sér fyrir því fyrir 1. umr. málsins að flýta niðurstöðunni hjá Samkeppnisstofnun, sem er að vinna þessa skýrslu, þannig að við fengjum hana til umfjöllunar.

[15:45]

Fyrsta spurning mín til hæstv. ráðherra er þess vegna: Hvenær getur þessi skýrsla legið fyrir? Ég tel hana mikilvægt innlegg í umræðuna sem hér fer fram og ekki bara í þetta mál. Stjórnarflokkarnir eru með mikil einkavæðingaráform ekki bara að því er varðar bankana heldur líka Landssímann.

Mér fannst mjög sérkennilegt að hv. formaður efh.- og viðskn., Vilhjálmur Egilsson, 4. þm. Norðurl. v., skyldi segja hér rétt áðan að þeir sem hefðu komið á fund nefndarinnar hefðu upplýst að áformuð sala á Landssímanum og bönkunum mundi fyllilega rúmast á markaðnum. Þingmaðurinn er með öðrum orðum að segja að sala á bönkunum og Landssímanum muni ekki hafa óæskileg áhrif á markaðinn. Ég skrifaði hjá mér ýmislegt sem þessir aðilar sögðu. Ég get ekki fundið það í mínu safni að þeir hafi sagt þetta. Þvert á móti tel ég að þeir hafi sagt allt annað, t.d. Seðlabankinn. Þar á bæ töldu menn að gæta yrði vel að því að útfærslan ýtti ekki undir ójafnvægi á markaðnum, að salan gæti haft a.m.k. tímabundin verðbólguáhrif og áhrifin á fjármálamarkaðinn væru í reynd mjög óviss. Reyndar þarf ekki annað, herra forseti, en að fletta upp í ítarlegri greinargerð með þessu frv., þar sem Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun setja fram álit sitt á því hvaða áhrif salan á báðum þessum bönkum gæti haft. Ég mun rifja það upp síðar í máli mínu.

Ástæða er til þess að rifja upp, við 2. umr. þessa máls, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 1999 um sölu á bönkunum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir:

,,Hlutabréf í ríkisbönkunum verði seld með það að markmiði að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaði en tryggja um leið virka samkeppni á markaðnum til að ná fram ódýrari þjónustu. Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum.``

Ég hygg að töluvert langt sé í land, miðað við stöðuna á markaðnum þar sem hlutabréfamarkaðurinn er í sögulegu lágmarki og markaðsverð á bönkunum er ekki hátt, að þessi stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga, verði bankarnir seldir við núverandi aðstæður. Heyrst hefur að stefnt sé að því að selja bæði bankana og Landssímann fyrir lok þessa kjörtímabils. Þar er ekkert smáræði af nýju hlutafé sem kæmi á markaðinn miðað við þá stöðu. Þegar Verðbréfaþing er spurt um hve miklu megi búast við af nýju hlutafé á markað á þessu ári, t.d. borið saman við síðasta ár, þá nefna þeir að framboð á nýju hlutafé á markaðnum muni tvöfaldast á þessu ári miðað við áform um sölu á Landssímanum og bönkunum. Nýtt hlutafjárútboð var á liðnu ári um 16 milljarðar kr. en samkvæmt því sem þeir hafa sett fram, og fara þeir mjög varlega í áætlunum sínum um nýtt hlutafé að því er varðar bankana og Landssímann, er engu að síður um að ræða tvöföldun á þessu ári. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu, þ.e. að þjóðin fái ekki hámarksverð fyrir þessar verðmætu eignir sínar, bankana og Landssímann, miðað við stöðu markaðarins núna og þá lægð sem hann er í.

Ástæða er til að ætla, miðað við hvernig hér á að halda á málum, að salan gæti ýtt undir samþjöppun og fákeppni á markaðnum og markaðsráðandi stöðu fámenns hóps. Það er líka ástæða til að óttast að áhrifin á hlutabréfamarkaðinn almennt verði óæskileg, af því að setja svo mikið af nýju hlutafé á markaðinn. Það gæti m.a. haft þau áhrif að lækka gengi þeirra hlutabréfa sem fyrir eru á markaðnum.

Stefnuyfirlýsing Samfylkingarinnar í þessu máli er alveg skýr, herra forseti, og almennt að því er varðar sölu ríkiseigna. Við viljum selja fyrirtæki í samkeppnisrekstri að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um leikreglur á markaðnum og að neytendasjónarmið og almannahagsmunir ráði ferðinni fyrst og fremst. Við viljum einnig að þjóðin fái hámarksverð fyrir eignir sínar, að staða starfsmanna sé tryggð og stjórnvöld nýti þá þekkingu og reynslu sem starfsmenn ráða yfir þegar þau selja ríkiseignir. Mér virðist svo ekki vera hjá þessari ríkisstjórn. Það er vaninn þegar ríkisstjórnin kemur hingað inn á þingið með áform um að selja ríkiseignir, að lítið sem ekkert samráð er haft við starfsmenn.

Ég held að afstaðan til þeirra áforma sem hér liggja fyrir frá stjórnmálaflokkum sé þrenns konar. Stjórnarflokkarnir vilja selja bankana og það á næstu tveimur árum. Vinstri grænir vilja ekki selja bankana. Afstaða Samfylkingarinnar er sú sem formaður hennar hefur lýst hér og ég hef drepið á. Við teljum að selja eigi fyrirtæki í samkeppnisrekstri að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og að því er þetta mál varðar teljum við að aðeins eigi að ganga til þess á Alþingi að veita heimild til sölu á öðrum bankanum. Það geta verið skiptar skoðanir um hvorn bankann eigi að selja, Landsbankann, hluta úr honum í þessari umferð, eða Búnaðarbankann. Niðurstaða Samfylkingarinnar er að rétt sé að veita heimild til sölu á Búnaðarbankanum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Herra forseti. Ég lét taka saman fyrir mig stöðuna að því er varðar Landsbankann og Búnaðarbankann og gengið á þessum bönkum á undanförnum mánuðum og missirum. Í ljós kom að í ársbyrjun 2000 var markaðsverð Landsbankans 29,6 milljarðar en Búnaðarbankans 20,7 milljarðar. Við erum því að tala 50 milljarða markaðsverð á bönkunum í ársbyrjun 2000. Í ársbyrjun 2001 var markaðsverð á þeim töluvert lægra, eða um 43 milljarðar kr. Nú er markaðsvirðið 16,4 milljarðar á Búnaðarbankanum og 20,5 milljarðar á Landsbankanum, eða um 36 milljarðar. Við erum því að tala um að á 14 til 16 mánuðum hafi markaðsgengi bankanna lækkað um 13 til 14 milljarða kr. Það er spurning hvort skynsamlegt sé að veita ríkisstjórninni, eins og hér er gert ráð fyrir, algjörlega opna heimild til sölu á þessum bönkum eða hvort ekki eigi að fara hægar í sakirnar eins og Samfylkingin leggur til.

Herra forseti. Mér finnst tímasetning sölunnar stillt inn á að stórir og sterkir fjármagnseigendur græði frekar á sölunni en eigendurnir, þ.e. þjóðin. Ég verð stöðugt meira undrandi, eftir því sem líður á þetta kjörtímabil og samstarf þessara flokka, á því hvernig Framsfl. eltir Sjálfstfl. í blindni í þessari einkavæðingu. Ég veit satt að segja ekki hvað hefur komið fyrir Framsfl. (Gripið fram í.) Ég heyri að hæstv. ráðherra tekur undir með mér. Henni stendur ekki á sama hvernig komið er fyrir Framsfl. að því er varðar (Gripið fram í.) einkavæðinguna. Ég veit ekki hver teymir hæstv. viðskrh. í þessu. Hæstv. ráðherra getur haft ýmislegt um það að segja (VE: Það er mikil umhyggja fyrir velferð Framsfl. í þessum þingsal.) að ekki sé farið svo hratt í þessa einkavinavæðingu. Hvað sagði hv. þm.? (VE: Það er mikil umhyggja fyrir velferð Framsfl. í þessum þingsal.)

Herra forseti. Ekki held ég að þingmaðurinn fari með rétt mál er hann segir að þetta sé umhyggja fyrir Framsfl. Ég hef ekki fundið það í samstarfi þessara aðila að Sjálfstfl. beri sérstaka umhyggju fyrir Framsfl. Þvert á móti. (Viðskrh.: Stjórnarandstaðan bætir þetta upp.) Sú var tíðin, og eru nú ekki mörg ár síðan, að framsóknarþingmenn voru mikið í sölunum þegar rætt var um hlutafélagavæðingu á ríkisfyrirtækjum. Þeir komu oft í ræðustól og töluðu hátt og mikið um að Sjálfstfl., þá með Alþfl. í stjórn, gengi allt of langt í einkavæðingunni. Þeir töluðu um að verið væri að brytja niður dýrmæt og verðmæt ríkisfyrirtæki þannig að þau pössuðu í ginið á kolkrabbanum. Þetta var þeirra frasi á þeim tíma. Nú eru þeir algjörlega gengnir í björg með íhaldinu að því er varðar einkavæðinguna.

Herra forseti. Af því að mér er ekki illa við framsóknarmenn þá vil ég vara þá við þróun mála. Ef gengið er svo langt í þessum efnum að það leiði til markaðsráðandi stöðu og samþjöppunar á markaðnum þá gætum við eins, telji menn ríkiseinokun á ákveðnu sviði, lent í einkaeinokun hjá einkaaðilum, farið úr ríkiseinokun í einkaeinokun. Ekki er það nú betra. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Stendur ekki það sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þ.e. áform hennar um að selja báða bankana á þessu kjörtímabili? Þá snýst málið um að salan á þeim fari fram á næstu tveimur árum.

Í umfjöllun efh.- og viðskn. um þetta mál voru fulltrúar bankanna m.a. spurðir hvort þeir sæju vísbendingar um að hlutabréfamarkaðurinn væri á uppleið. Þeir sáu þær ekki. Ég held að íslenski fjármálamarkaðurinn, eins og hann stendur núna, sé ekki vel í stakk búinn til þess að bæta við sig á stuttum tíma stórri gusu af nýjum hlutabréfum og nýju hlutafé. Það gæti leitt til þess sem sumir óttast, að ef menn fari ekki varlega þá stöndum við frammi fyrir einhvers konar fjármála- eða gjaldeyriskreppu, sem við höfum aðeins fengið smjörþefinn af á síðustu dögum. Menn hljóta því að fara varlega í þessum efnum.

Mér finnst mjög sérstakt, herra forseti, þegar farið er út í svo mikla einkavæðingu, að ekki liggi fyrir stefnumótun eða markmið um framtíðarþróun á fjármálamarkaði og tímasetningar í áformum ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu stórra ríkisfyrirtækja. Ég spyr því ráðherrann: Liggur fyrir einhver stefnumótum eða markmið um framtíðarþróun á fjármálamarkaði og telur ráðherrann ekki eðlilegt að slíkt liggi fyrir?

[16:00]

Formaður Samfylkingarinnar benti á það í umræðunni í dag sem kemur reyndar fram í áliti 1. minni hluta, en hann vitnaði til upplýsinga sem fram komu á fundi efh.- og viðskn. frá fulltrúa einkavæðingarnefndar. Þar upplýsti fulltrúi einkavæðingarnefndar að engar athuganir hefðu farið fram á því hvaða áhrif salan á bönkunum kynni að hafa á hlutabréfamarkaðinn sem um þessar mundir er ákaflega veikburða. Hann staðfesti að engin drög að áætlun lægju fyrir um lykilatriði sölu, svo sem um aðferð, tímasetningar, mögulegar áfangaskiptingar eða hvort selt yrði úr einum eða báðum bönkunum samtímis. Það er ekki gæfulegt, herra forseti, fyrir þingheim að vera boðið upp á þetta, að veita bara heimild í einni eða tveimur línum í þessu frv. fyrir sölu á báðum bönkunum án þess að nokkuð liggi fyrir af því sem ég hef verið að telja upp.

Fulltrúi einkavæðingarnefndar upplýsti jafnframt að ákvarðanir um þessa þætti yrði ekki hægt að taka fyrr en stjórnvöld hefðu í höndum úttekt sérfræðifyrirtækis á áhrifum sölunnar á verðbréfamarkaðinn. Ég spyr: Er á döfinni að fara í úttekt sérfræðifyrirtækis á því hvaða áhrif salan gæti haft á verðbréfamarkaðinn? Hæstv. ráðherra hlýtur að vita eitthvað um það. Hvaða sérfræðifyrirtæki er verið að tala um að geri úttekt á því hvaða áhrif salan gæti haft á verðbréfamarkaðinn? Miðað við stöðuna sem uppi er núna, herra forseti, þegar Alþingi á að veita þessa heimild þá teljum við í Samfylkingunni brýnt að samþykkja þá brtt. okkar, eina af nokkrum, um að leita skuli umsagnar og staðfestingar Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka áður en salan fer fram. Ég tel það nauðsynlegan varnagla á þessu, en spyr: Hvaða áform eru um þetta sérfræðifyrirtæki?

Þjóðhagsstofnun hefur látið frá sér fara að ákveðnar markaðsaðstæður geti valdið því að ávinningur af einkavæðingunni verði lítill eða áhrifin jafnvel neikvæð. Mér finnst það varnaðarorð sem við hljótum að taka mark á. Þeir segja að ekki sé sjálfgefið að aukin hagkvæmni í rekstri einkavæddra fyrirtækja skili sér í jákvæðum þjóðhagslegum áhrifum. Jafnframt hefur komið fram hjá Þjóðhagsstofnun að erfiðleikum sé bundið að leggja mat á þjóðhagsleg áhrif einkavæðingar með áreiðanlegum hætti og því ekki hægt að fullyrða að einkavæðing valdi auknum hagvexti og minna atvinnuleysi. Þar er a.m.k. vart eingöngu um áhrif einkavæðingarinnar að ræða.

Aðvörunarorð komu líka frá Seðlabanka í fylgiskjali með frv., með leyfi forseta:

,,Þó má e.t.v. segja að í ljósi þess hve efnahagsástandið er viðkvæmt um þessar mundir og áhrifin óljós þurfi að gæta þess sérstaklega vel við útfærslu sölunnar að hún verði ekki til þess að ýta undir ójafnvægi.``

Þetta gengur þvert á það sem formaður efh.- og viðskn. fullyrti hér, að þeir sem hefðu komið á fund nefndarinnar segðu að salan rúmaðist fyllilega á markaðnum.

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að rifja það upp hér, þar sem við ræðum hættu á samþjöppun á fjármála- og bankamálamarkaði, að ekki þarf annað en að fletta greinargerð frv., en þar er litið til þess hvernig samþjöppunarhlutfallið er í bankakerfinu hjá hinum ýmsu þjóðum. Þar eru 12 þjóðir nefndar og farið yfir samþjöppunarhlutfallið hjá tveimur stærstu bönkunum og síðan fimm stærstu bönkunum. Herra forseti. Samþjöppunarhlutfallið er svo hátt á Íslandi í bankakerfinu að við skipum annað sætið þegar litið er til tveggja stærstu aðilanna að því er varðar samþjöppunarhlutfall. Þegar litið er til fimm stærstu aðilanna erum við í þriðja sæti af 12 þjóðum. Samþjöppun og fákeppni er alveg gífurlega mikil hér. Engan þarf því að undra þó að við sem skipum stjórnarandstöðuna séum á varðbergi að því er varðar þessa sölu.

Ég vil koma inn á nokkuð sem tengist brtt. sem við flytjum, þ.e. samráð við starfsmenn. Herra forseti. Það er vægast sagt mjög dapurlegt í þessu máli og hvernig að því er staðið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Fulltrúi Sambands íslenskra bankamanna og félag starfsmanna í Landsbanka og Starfsmannafélag Búnaðarbankans hafa sent frá sér umsögn um þetta mál sem er mjög lýsandi fyrir það hvernig stjórnarflokkarnir hafa staðið að málum. Við í Samfylkingunni höfum lagt áherslu á að meðákvörðunarréttur starfsmanna við stjórn bankanna kæmi til vegna þess að mikilvægt er að reynsla starfsmanna sé nýtt og fái ákveðinn sess í stjórn bankanna. Ég tel, herra forseti, að það sé ekki bara nauðsynlegt út af starfsmönnunum heldur tel ég að það styrki bankana og veiti þeim ákveðinn trúverðugleika. Mér finnst alveg rétt að það komi fram að t.d. bankastjóri Búnaðarbankans, Árni Tómasson, var sammála þessu sjónarmiði í umfjöllun um þennan þátt málsins í nefndinni. Hann taldi æskilegt að starfsmenn ættu sæti í stjórn bankans. Á Norðurlöndunum öllum, herra forseti, taka starfsmenn þátt í stjórnum bankakerfisins. Þegar við höfum leitað eftir afstöðu stjórnarflokkanna til þessa máls hafa þeir ekki afskrifað að þetta sé eðlileg og rétt stefna en hafa flúið í það skjól að ákvæði um meðákvörðunarrétt starfsmanna í stjórn fyrirtækja þurfi að setja í annarri löggjöf. Það þyrfti því að setja slíkt ákvæði í almennri löggjöf, væntanlega í hlutabréfalöggjöfinni.

Herra forseti. Ég vil upplýsa að í Noregi var með\-ákvörðunaréttur að því er varðar bankana ákveðinn í gegnum bankalöggjöfina en ekki hlutafélagalöggjöfina. Vissulega kemur ekkert í veg fyrir að hægt sé að fara sömu leið í frv. sem við ræðum hér, líkt og Samfylkingin leggur til. Það sem við leggjum þar til er raunverulega tvíþætt.

Annars vegar að við sölu á hlutafé ríkissjóðs samkvæmt 2. mgr. 6. gr. og hagræðingu sem henni fylgir skuli ráðherra beita sér fyrir því að eðlileg velta starfsmanna verði höfð í fyrirrúmi.

Herra forseti. Ég spyr hvort hæstv. ráðherra hafi skoðað það mál nánar síðan við ræddum þetta við 1. umr. Hefur ráðherrann rætt við starfsmenn frá því að við ræddum málið við 1. umr.? Hefur hæstv. ráðherra kallað fulltrúa starfsfólks á sinn fund til þess að ræða þessa sölu? Ég bið um að hæstv. ráðherra rifji upp afstöðu sína til þess að starfsmannaveltan ráði ferðinni og verði höfð í fyrirrúmi eins og víða tíðkast í þeim löndum sem við höfum borið okkur saman við. Þessi leið hefur t.d. verið farin víða á Norðurlöndum þar sem sala á ríkisbönkum og samruni í bankakerfinu hefur orðið. Þar hefur þá starfsmannavelta verið látin ráða ferðinni með mjög góðum árangri, herra forseti, en það setjum við fram í tillögu okkar. Ég spyr ráðherrann um það því það lögðu fulltrúar starfsmanna mikla áherslu á. Það kemur fram í skriflegri umsögn þeirra og kom líka fram þegar þeir mættu á fund efh.- og viðskn. --- að ráðherra skuli jafnframt beita sér fyrir því að samið verði við starfsfólk um möguleika á starfsþjálfun og endurmenntun til að auðvelda aðlögun að nýrri tækniþróun og breytingum í bankakerfinu. Þetta er brtt. sem við leggjum fram og mikil áhersla er lögð á.

Sú hagræðing sem menn hafa beitt sér fyrir í bankakerfinu hefur helst komið fram í uppsögnum starfsfólks. Á undanförnum árum hefur fólki í almennum bankastörfum fækkað mjög og 90% þeirra sem hafa misst störf sín í þeirri hagræðingu sem átt hefur sér stað í bankakerfinu eru konur.

Herra forseti. Það er athyglisvert að lesa í frv. þau kostnaðarhlutföll sem sett eru þar fram og hafa orðið hjá þessum bönkum og stærstu sparisjóðum á árunum 1995--2000. Rekstrargjöld sem hlutfall af hreinum rekstrartekjum voru lægri á árum áður en þau eru nú hjá ýmsum af þeim bankastofnunum sem hér eru taldar til og munar þar töluvert miklu. Hagræðingin hefur sem sagt fyrst og fremst bitnað á starfsfólki og ekkert kemur til með að segja, herra forseti, að ef hagræðing yrði af sölu í bankakerfinu núna þá komi það ekki til með að bitna á starfsfólkinu.

Herra forseti. Ég ætla aðeins að fá að lesa yfir nokkur atriði í umsögn frá Sambandi íslenskra bankamanna, Félagi starfsmanna Landsbankans og Starfsmannafélagi Búnaðarbankans. Undir þá umsögn skrifa Friðbert Traustason, Helga Jónsdóttir og Jón Ágúst Sigurðsson. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

,,Í umsögn okkar um frumvarpið leggjum við, hér á eftir, annars vegar áherslu á hlut og afdrif starfsmanna vegna sölu hlutabréfanna og hins vegar er lögð áhersla á óbreytt lagaumhverfi að því er varðar réttarstöðu starfsmanna við gerð kjarasamninga og verkfallsrétt.

Það vekur athygli okkar hversu litla umfjöllun er að finna um hlut starfsmanna í annars ítarlegum athugasemdum um lagafrumvarpið. Aðeins í athugasemdum Þjóðhagsstofnunar um frumvarpið er drepið á hlut starfsmanna og varað við að fækkun starfsmanna geti leitt til röskunar á vinnumarkaðinum.

SÍB, FSLÍ og SBÍ eru þeirrar skoðunar að huga þurfi vel að málefnum starfsmanna áður en til þess kemur að bankarnir fari úr höndum ríkisins þar sem gera má ráð fyrir að þær breytingar og hagræðingar sem í kjölfarið fylgi komi fyrst og fremst niður á starfsmönnum. Það er reynsla annarra, m.a á hinum Norðurlöndunum og á Bretlandseyjum, að eldri starfsmönnum sé fyrst og fremst fórnað þegar í gang fara hagræðingar vegna einkavæðingar og því miður er eldri konum fyrst sagt upp störfum, en þær eru mjög margar í bönkunum tveimur.

Þessum starfsmönnum, sem hafa lengi og af mikilli hollustu starfað við þjónustugreinar eins og bankastörf er hættast við að lenda til langs tíma á atvinnuleysisskrá. Við þessari hættu viljum við sérstaklega vara núverandi meirihlutaeigendur Landsbanka og Búnaðarbanka.

Nauðsynlegt er að grípa til ráðstafana sem gagnast starfsmönnum bankanna áður en bankarnir verða seldir frá ríkinu, en nokkurn fyrirvara þarf til að hægt sé að koma þeim ráðstöfunum í kring.

Þannig mætti fara svipaðar leiðir og notaðar eru á hinum Norðurlöndunum, m.a. með því að bjóða þeim starfsmönnum sem eru á aldrinum 40 til 50 ára að fara til náms í eitt til tvö ár á launum og að þeir starfsmenn sem orðnir eru 55 til 65 ára fái rýmri heimildir til að láta af störfum á eðlilegum eftirlaunum.

Þannig er mælst til þess að við einkavæðingu bankanna verði norsku aðferðinni beitt en hún hefur reynst vel, en þar er eðlileg starfsmannavelta smám saman látin draga úr áhrifum minnkandi mannaflaþarfar, en ekki gripið til uppsagna. Höfuðáhersla er lögð á að starfsmennirnir séu vel undir það búnir að mæta breytingum þegar að þeim kemur.

SÍB, FSLÍ og SBÍ leggja áherslu á að nú er verið að stíga stór skref með stóra vinnustaði, sem byggja fyrst og fremst á þeirri auðlind sem felst í þekkingu og hæfni starfsmannanna. Við treystum því að fyrirhugaðar breytingar verði gerðar með samþykki starfsmanna og í góðri samvinnu við þá og kjörna fulltrúa þeirra.``

[16:15]

Herra forseti. Ég vil svo vísa til þess sem segir í lok þessa bréfs:

,,SÍB lítur svo á að það lagaumhverfi sem verið hefur til staðar hjá starfsmönnum hlutafélagabankanna sé í fullu gildi þrátt fyrir að ríkið selji hluti sína í bönkunum.

Rétt er að benda hér á að á Norðurlöndunum öllum nema Íslandi eiga starfsmenn fulltrúa í stjórnum hlutafélagabanka.``

Herra forseti. Hérna kemur það fram svart á hvítu að á öllum Norðurlöndunum nema Íslandi eiga starfsmenn fulltrúa í stjórnum hlutafélagabanka.

,,Þessi sterki nútímalegi meðákvörðunarréttur er tryggður með lögum í hverju landi. Í Noregi, þar sem ríkið á enn stóran eignarhluta í bönkunum (m.a. 60% í Den norske Bank) og markaðurinn því að flestu leyti líkur okkar, er þessi réttur starfsmanna til að tilnefna menn í stjórn banka tryggður í 3. kafla í lögum bæði um viðskiptabanka og lögum um sparisjóði (Lov om forretningsbanker 3 kapittel og Lov om sparebanker 3 kapittel). Það er og hefur lengi verið krafa SÍB og allra aðildarfélaga þess að starfsmenn fái að velja mann úr sínum röðum til setu í stjórn viðkomandi fjármálafyrirtækis. Þrátt fyrir að ekki sé verið nú að breyta lögum um viðskiptabanka og sparisjóði er þessari kröfu enn og aftur komið á framfæri við Alþingi.``

Ég taldi ástæðu til að vekja athygli á þessari umsögn, sérstaklega þar sem hæstv. ráðherra er viðstödd þessa umræðu. Mér er ekki kunnugt hvort hún hafi farið yfir þessa umsögn bankamanna og spyr hana, eftir að hún hefur hlýtt á hvað þeir hafa að segja, hvort hún telji ekki, hafi hún ekki þegar gert það, ærið tilefni til að kalla fulltrúa þeirra á sinn fund og ræða við þá um það sem þeir hafa fram að færa í þessu efni. Enn og aftur vil ég undirstrika að ég er ekki að tala um að gera starfsmönnunum neinn greiða heldur fyrst og fremst að ríkisstjórnin hafi vit á að nýta sér við þessa breytingu þá reynslu og þekkingu sem starfsmenn búa yfir. Ég held að það hljóti að gagnast bankanum vel og styrkja hann ef reynsla þeirra er nýtt.

Ég vildi fjalla um tvennt í viðbót áður en ég lýk máli mínu, herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um fyrra atriðið, þ.e. eiginfjárstöðuna í bankakerfinu sem nokkuð hefur verið rædd í dag. Það er alveg ljóst og hefur margoft komið fram þegar við höfum fjallað um bankakerfið almennt að menn hafa áhyggjur af eiginfjárstöðu bankanna. Fjármálaeftirlitið hefur mikið um það rætt og skrifað að full ástæða sé til að hafa verulegar áhyggjur af eiginfjárstöðu bankanna. Í greinargerð frv. ráðherrans sjálfs segir, með leyfi forseta:

,,Rýrnandi eiginfjárstaða er áhyggjuefni í rekstri íslenskra banka og sparisjóða. Í árslok 1995 var eiginfjárhlutfallið í heild eins og það er skilgreint í lögum 12,7% en í lok júní 2000 var hlutfallið komið í 9,4%. Í lok júní sl. var eiginfjárhlutfall Landsbankans 8,7% og Búnaðarbankans 9,8%. Án víkjandi lána var hlutfallið lækkað úr 11,7% í 6,6% fyrir viðskiptabanka og stærstu sparisjóði á sama tímabili. Hlutfallið þannig reiknað var fyrir Landsbankann 5,7% og fyrir Búnaðarbankann 6,5% í lok júní sl.``

Herra forseti. Mér finnast þetta mjög alvarlegar tölur. Fjármálaeftirlitið hefur kallað eftir því að fá heimild til þess að geta beitt í eftirliti sínu þessu stýritæki meira varðandi eiginfjárhlutfall og geta meira að segja haft það mismunandi eftir eðli lánastofnana.

Hér hefur verið nefnt, t.d. af hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, að æskilegt sé að styrkja eiginfjárstöðu. Út af fyrir sig er það rétt. En menn hafa verið að ræða það hér og því vil ég beina þessari spurningu til hæstv. ráðherra: Hvaða leiðir telur hún að eigi að fara núna í að styrkja eiginfjárstöðu bankanna ef það á að fara að selja þá? Er hætta á að það eigi að styrkja eiginfjárstöðuna með almannafé áður en sala fer fram? Er það eitthvað á borðinu eða vakir fyrir ríkisstjórninni að styrkja eiginfjárstöðuna og setja meira fé úr ríkissjóði inn í bankakerfið áður en til sölunnar kemur?

Hjá fulltrúa annars bankans kom fram að hann taldi að svo gæti farið að útlánatöp ættu eftir að vaxa. Herra forseti. Mér finnst það vel geta verið í myndinni að útlánatöp í bankakerfinu færu vaxandi á næstu missirum. Ég held ekki sé hægt að bæta miklu við þanþolið á skuldum heimilanna enda hafa þær tvöfaldast á sl. tveimur eða þremur árum. Skuldirnar eru milli 600 og 700 milljarðar og eru orðnar 163% af ráðstöfunarfé heimilanna. Auðvitað eru gífurlegar skuldir hjá atvinnurekstrinum líka. Ef það er að hægja hér á öllu í efnahagslífinu og með tilheyrandi verðbólgu og samdrætti í kaupmætti fólks er viðbúið að útlánatöpin fari vaxandi. Um þetta vil ég spyrja hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara frekar yfir tillögurnar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur kynnt hér og þingmenn Samfylkingarinnar flytja. Ég vil þó vekja athygli á einni mikilvægri tillögu um að þrátt fyrir ákvæði laga um viðskiptabanka og sparisjóði skuli eingöngu skipaður einn bankastjóri við Búnaðarbanka Íslands og að sú niðurstaða eða sú ákvörðun, ef þingið samþykkir hana, taki gildi á næsta hluthafafundi eftir gildistöku laganna. Þetta tel ég ákaflega mikilvægt, þ.e. að menn vindi sér í að gera þarna bragarbót á eins og gert var í Landsbankanum á sínum tíma. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort nokkuð mæli fremur með því að hafa þrjá bankastjóra við Búnaðarbankann en bara einn við Landsbankann. (Viðskrh.: Þeir eru tveir núna.) Já, það er rétt hjá ráðherra þeir eru tveir núna. Telur ráðherrann ekki eðlilegt að stefna að því að það verði bara einn bankastjóri við bankann? Er ekki rétt að nota tækifærið og gera það á næsta hluthafafundi eins og hér er lagt til?

Herra forseti. Í lokin vil ég segja að það hefur kannski ekki mikið verið rætt en ég veit að efnahagsstofnanir í landinu hafa nokkrar áhyggjur af því hvernig ráðstafa eigi andvirði bankanna ef af þessari sölu verður. Verið er að tala um nokkuð mikla fjármuni þó að markaðsvirði bankanna hafi lækkað verulega. Í augnablikinu er kannski um að ræða 30--35 milljarða kr. miðað við báða bankana. Hæstv. ráðherra sagði við 1. umr. málsins --- ég held að það hafi verið í þessu máli frekar en í Landssímamálinu --- að hún teldi að hluta af andvirði bankanna ætti að verja til byggðamála. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi ráðstöfun á andvirði af sölu bankanna? Liggur eitthvað fyrir um það? Hefur hæstv. ráðherra fylgi við það í ríkisstjórninni að verja ákveðnum hluta af söluandvirði bankanna til byggðamála? Og hvað er þá verið að tala um stóran hlut af þessu söluandvirði? Við vitum hvað sérfræðingar í efnahagsstofnunum þjóðarinnar segja um þetta. Þeir telja að miðað við aðstæður sem nú eru í efnahagsbúskapnum sé ekki skynsamlegt að setja þetta fjármagn í eyðslu í þjóðfélaginu, jafnvel þótt það sé til mikilvægra hluta eins og byggðamála eða annarra þjóðþrifamála. Þeir hafa bent á það. Ég man að það kom m.a. fram hjá Hagfræðistofnun Háskólans. Ég er nú ekki með þá umsögn hér. En þeir töldu að ráðstafa ætti þessu fjármagni til að greiða niður skuldir. Svipuð sjónarmið eru uppi hjá Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun, þ.e. um að fjármagnið verði sett í geymslu hjá Seðlabankanum. Ég spyr um þetta. Það er mikilvægt að þingið viti eitthvað meira um áform ríkisstjórnarinnar í þessum efnum þegar verið er að veita slíka heimild. Hvernig á að ráðstafa andvirði bankanna? Hafa menn eitthvað nýtt fram að færa varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar og hefur eitthvað skýrst varðandi afstöðu ráðherrans í því efni?

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar en hef lagt nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra sem ég vænti að fá svör við áður en þessari umræðu lýkur.