Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 17:24:30 (7394)

2001-05-10 17:24:30# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[17:24]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að ræða hv. þm. sanni betur en flest annað að bankarnir eiga ekki að vera í eigu ríkisins. Mig langaði að taka það fram fyrst af öllu. Hann telur, ég skildi ræðu hans a.m.k. þannig, að nánast allar ákvarðanir sem teknar eru í ríkisbönkunum skuli ræddar á hv. Alþingi. Hann talar um að breyting hafi orðið eftir að bönkunum var breytt í hlutafélög og ráðherra fékk það hlutverk að kjósa í bankaráð í stað hv. Alþingis áður. Hv. þm. segir að ráðherra skýli sér á bak við hlutafélagalög. Það að ráðherra fari að lögum kallar hv. þm. að skýla sér á bak við lögin. Þetta er mjög sérkennilega orðað af hv. alþingismanni.

Hann ræddi í lokin um þennan margnefnda ríkisbanka sem hann telur afar mikilvægan. Þar á samt alls ekki að ríkja ströng pólitísk stjórn. Nei, en hins vegar á bankinn að þjóna öllum landsmönnum betur. Hvar á að taka ákvörðun um að viðkomandi banki þjóni öllum landsmönnum betur ef það á ekki að vera pólitísk ákvörðun?

Að síðustu gerir hv. þm. sér ekki grein fyrr því að ein ákvörðun var sú að breyta bönkunum í hlutafélög. Önnur ákvörðun er sú að selja þá. Það er sú ákvörðun sem þetta frv. fjallar um.