Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 17:26:39 (7395)

2001-05-10 17:26:39# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[17:26]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Þá pólitísku ákvörðun að þjóna öllum landsmönnum, hvort sem þeir búa í dreifðum byggðum eða í þéttbýli, á vissulega að ræða hér á Alþingi. Þegar ég tala um að hið opinbera eigi ekki að stýra bönkunum á strangan hátt þá er ég að tala um lánveitingar almennt.

Hæstv. ráðherra leggur mér þau orð í munn að ég hafi sagt að allar ákvarðanir bankanna, eða þann skilning leggur hæstv. ráðherra í orð mín, ætti að ræða á Alþingi. Þá var ég að tala um pólitískar ákvarðanir. Ég var að inna hæstv. ráðherra eftir pólitískum afskiptum. Ég vísaði í tiltekið mál. Ég vísaði í það þegar íslensku ríkisbankarnir keyptu ameríska áhættufjárfesta út fyrir 6 milljarða kr. Ég vil vita um hlut ríkisins og ríkisstjórnarinnar í því.

Ég hef einnig spurt hæstv. ráðherra um atriði sem lýtur að pólitík og nefndi í því sambandi Íslandssíma, milljarðafjárfestingu þar. Ég spurði um þetta. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra finnst það einhver helgispjöll að ræða um þessa bisnessþætti á Alþingi, hvernig við notum sameiginleg verðmæti þjóðarinnar. Það er eins og menn fremji helgispjöll með því að ræða um efnahagslífið og afskipti ríkisins af því. Eru það einhver helgispjöll? Ég bara spyr.

Að lokum: Ég mun koma að því í seinna svari hvernig ríkisstjórnin hefur ítrekað skýlt sér á bak við lög.