Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 17:37:58 (7400)

2001-05-10 17:37:58# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[17:37]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rekstur ríkisbanka er engin trygging fyrir því að fámenn byggðarlög verði ekki út undan. Það sem skiptir hins vegar máli í þessu sambandi er að bankastarfsemi hefur í eðli sínu verið að breytast. Fólk hefur viljað fá þjónustu í því formi að geta átt rafræn samskipti við bankana og það hefur þýtt þarfir fyrir annars konar starfsfólk eða annars konar störf fyrst og fremst en unnin hafa verið í bönkunum hingað til. Og banki sem vill þjóna þörfum viðskiptavinanna með hagkvæmum hætti hefur t.d. þurft að breytast mjög mikið af þessum ástæðum. Þetta kallar að sjálfsögðu á ákveðnar breytingar á starfsmannahaldi og mundi auðvitað fyrst og fremst kalla á að stíft endurmenntunarprógramm væri í gangi í bönkunum til þess að fólk gæti sem mest færst úr störfum og fylgt þeirri þróun sem verður í bankaumhverfinu. Það er kannski ekki í öllum tilvikum mögulegt. En góð starfsmannastefna í viðkomandi banka hlýtur að sjálfsögðu að byggja á því að það fólk sem í bankanum starfar geti haldið áfram að þjóna viðskiptavinunum með breyttum aðferðum. Það gildir algerlega jafnt hvort sem banki er einkabanki eða ríkisbanki hvort fólk nær árangri.

Að lokum vil ég aðeins segja að ef maður lítur í reikninga bankanna um hlutabréf sem eru á veltubók í bönkunum hvort sem það eru skráð eða óskráð bréf, eignir bankanna í fjárfestingarhlutabréfum, þá er ekkert óeðlilegt þar að finna. Veltuhlutabréf t.d. Landsbankans eru samtals 3,6 milljarðar. Á Verðbréfaþingi Íslands 2,3 og önnur skráð hlutabréf eru upp á 1.240 millj. Ég sé ekki að neitt óeðlilegt sé að finna í þessum tölum eða veltubókarviðskiptum sem t.d. hafa verið gerð hjá Landsbanka Íslands.