Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 17:40:20 (7401)

2001-05-10 17:40:20# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[17:40]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ég náði ekki alveg þessu síðasta. Þetta var einhver hraðsoðin endurskoðunarvinna sem hér var verið að greina frá. Ég veit ekki hvort verið var að vísa í það sem ég var að auglýsa eftir: Upplýsingum varðandi Íslenska erfðagreiningu, deCode og Íslandssíma, eða hvað þetta eiginlega var.

En hitt vil ég segja að þegar forstjóri Landssímans, fyrrv. framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, tók þar við stjórnartaumum og hélt sinn fyrsta fund með starfsmönnum Landssímans --- þetta var viðhafnarfundur í Þjóðleikhúsinu --- þá sagði hann: Hér eftir mun þessari stofnun stýrt samkvæmt arðsemiskröfum. Arðsemiskrafan og arðsemissjónarmið verða höfð að leiðarljósi.

Hann nefndi meira að segja einhverja prósentu, gott ef það var ekki 15%. Það er grundvallarmunur á að stýra starfsemi með þetta sjónarmið að leiðarljósi annars vegar og hinu að hafa þjónustumarkmið í fyrirrúmi. Á þessu er grundvallarmunur. Þessi sjónarmið eru nú víkjandi einnig innan annarrar stofnunar nátengdri Landssímanum sem einnig hefur verið gerð að hlutafélagi þó að hún hafi ekki verið seld, það er Pósturinn, Íslandspóstur sem upp á síðkastið hefur verið að loka útibúum í Skagafirði, í Varmahlíð, og víðs vegar um landið. Mörg útibú, gott ef það eru ekki tugir útibúa með uppsögnum starfsmanna vegna þessara arðsemissjónarmiða. Á þessu er grundvallarmunur. Það er grundvallarmunur á þessu.

Ég og við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum að tala fyrir þessum þjónustumarkmiðum, þessum þjónustusjónarmiðum sem við teljum gagnast þjóðinni betur og þegar upp er staðið einnig efnahags- og viðskiptalífi þjóðarinnar.