Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 17:43:18 (7402)

2001-05-10 17:43:18# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[17:43]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Nú er komið að þeirri stóru stund að menn ræða um sölu ríkisbankanna. Það hefur reyndar verið í umræðunni býsna lengi og í dag er búið að lýsa því vel hvernig ákvörðun um að breyta bönkunum í hlutafélög kom á undan og síðan í kjölfarið það sem hér er verið að fást við.

Reyndar brast þetta nokkuð skyndilega á. Það gerðist nefnilega þannig að eftir að búið var að fjalla um þá ætlan ríkisstjórnarinnar að sameina þessa ríkisbanka áður en þeir færu á markaðinn og þegar sú stefna hafði beðið skipbrot, þá kom yfirlýsing um að bankarnir yrðu seldir snarlega og tekin yrði ákvörðun um það beint í kjölfarið. Ríkisstjórnin virtist ekki einu sinni þurfa á fundahöldum að halda til að taka þá ákvörðun því að a.m.k. um leið og almenningur vissi um þá niðurstöðu að ekki væri hægt að sameina bankana, þá komu þau svör frá ráðamönnum að þeir skyldu á markaðinn strax í vetur. Um það er verið að ræða.

[17:45]

Nú er eitthvað til sem heitir einkavæðingarnefnd. Hún leikur stórt hlutverk í því sem á að fara fram hér. Ég verð því miður að segja að ferill þeirrar nefndar er þannig --- ég get ekki tekið þau orð mín aftur --- að þeim sem þar eru enn þá og stóðu t.d. að einkavæðingu SR-mjöls, sölu á því fyrirtæki, treysti ég ekki fyrir húshorn með hf. upp á vasann. Það er með endemum að enginn skuli hafa þurft að gjalda fyrir það með neinum hætti, enginn af ráðamönnum sem tóku ákvarðanir í því efni, um hvernig þar var farið með sameiginlegar eignir þjóðarinnar. Ég ætla þó að vona að það verði dæmi sem hefur nægilega oft verið minnt á til að menn hagi sér ekki þannig.

Samt er ástæða til að velta þessum hlutum fyrir sér eftir orð hæstv. samgrh. sem gerð voru að umtalsefni fyrr í dag þar sem hann setti mjög skýrt hagsmuni þeirra sem mundu kaupa hlutabréf í bönkunum langtum ofar hagsmunum þjóðarinnar sem slíkrar sem seljanda þessara eigna. Satt að segja afar var sérkennilegt að þannig skyldi talað og að mínu viti a.m.k. nokkuð góð afsökun fyrir því að ýmsir þingmenn hafa talað um að hér væri að einhverju leyti á ferðinni hugsanleg einkavinavæðing. Mér finnst mega afsaka það orðalag með því að vitna til þeirrar afstöðu sem kom fram í orðum hæstv. samgrh. á dögunum.

Mig langar fyrst að reyna að svara spurningunni um það hvort ríkið eigi að eiga banka. Samfylkingin hefur svarað því og sagt að á því sé ekki þörf, hægt sé að mynda eðlilegan samkeppnisrekstur á þessu sviði og þess vegna sé ekki ástæða til að ríkið eigi banka. Þetta er þó ekki einhlítt svar. Í löndunum í kringum okkur og hér á landi hafa menn auðvitað komið að þessum bankarekstri. Ég efast um að nokkur þori að segja í þessum ræðustól á hv. Alþingi að það muni aldrei verða gert aftur þó að bankarnir verði seldir. Allar ríkisstjórnir telja sig þurfa að bera ábyrgð á fjármálakerfi landsins þegar í nauðirnar rekur.

Í þessu sambandi langar mig að vitna til þess sem stendur í greinargerð Seðlabankans sem fylgir þessu frv. Þar er minnt á fjármálakreppu sem varð í löndunum í kringum okkur fyrir stuttu og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Danmörk slapp við fjármálakreppu á þessum árum m.a. vegna lengri reynslu af óheftri samkeppni og strangri afstöðu stjórnvalda um að aðstoða ekki banka sem komast í vanda. Bankar á Íslandi sluppu einnig við þessar hremmingar þrátt fyrir að hafa þurft að afskrifa verulegar upphæðir af töpuðum útlánum og verið reknir með tapi árin 1992 og 1993. Margar samvirkandi skýringar eru á því hvers vegna ekki varð fjármála- og gjaldeyriskreppa á Íslandi eins og í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.``

Nú kemur það sem ég vil vekja sérstaklega athygli hv. þingmanna á:

,,Má í því sambandi nefna að fjármagnsflutningar milli landa voru ekki frjálsir á Íslandi og útlendingar áttu ekki íslensk verðbréf til að selja.``

Nú hefur þetta breyst á Íslandi og þessu umhverfi er verið að breyta með því að selja bankana. Eftir að búið er að selja þá er það sem Seðlabankinn telur sem fyrstu skýringu á því að fjármálakreppan reið ekki yfir á Íslandi ekki lengur til staðar, þ.e. fjármagnsflutningar milli landa voru ekki frjálsir og útlendingar áttu ekki erlend verðbréf til að selja.

Þetta segir okkur að að mati Seðlabankans verður verulega meiri hætta á ferðum þegar reynir á í fjármálakerfi landsins eftir að búið er að selja bankana og búið er að opna hagkerfið eins og hér hefur verið gert. Hvort tveggja er þá orðið, að bæði er búið að opna fyrir fjármagnsflutninga til og frá landinu og, það sem menn virðast þrá einna mest á þeim markaði, opna fyrir möguleika til að lokka erlenda aðila til að kaupa bréf á Íslandi. Það gæti þess vegna í framtíðinni verið aukin ástæða til að halda að hið opinbera þurfi að grípa til aðgerða til hjálpar fjármálastofnunum.

Reyndar bendir fleira til þess að svo getið farið. Smám saman hefur komið í ljós að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar og peningamálstefnan hefur beðið skipbrot. Það að halda uppi gengi krónunnar með háum vöxtum og ýmsum aðgerðum Seðlabankans, árum saman eins og gert var hér og hefur verið gert hér, er ekki lengur gert. Að vísu eru vextirnir mjög háir enn þá en því verið lýst yfir með afdrifaríkum hætti að þessi stefna sé ekki lengur það sem ríkisstjórnin fylgir. Seðlabankinn er byrjaður að lækka vexti og hefur ekki lengur það yfirlýsta markmið að hann ætli að verja gengi krónunnar. Sú stefna hefur í raun og veru beðið skipbrot og menn hafa hvarflað frá henni.

Hvað felst í þessari niðurstöðu hæstv. ríkisstjórnar? Jú, veisluföngin eru í raun á þrotum. Hvað skal þá taka til bragðs? Með því að aftengja þá stefnu sem gilt hefur undanfarin ár hefur það gerst að menn hafa farið að flytja fjármuni úr landi aftur sem þeir fluttu til Íslands í formi erlendra lána. Það gerist einfaldlega vegna þessa að sú yfirlýsing að gengi krónunnar verði ekki varið og að vextir verði lækkaðir gerir það að verkum að grundvöllurinn sem verið hefur fyrir innflutningi erlends fjármagns síðustu ár er ekki lengur fyrir hendi. Þar af leiðandi hafa menn farið að greiða þessi lán upp, selja bréfin sín á Íslandi, sem veldur lækkun á hlutabréfamarkaði, og greiða upp erlendu skuldirnar. Það hefur verið að gerast og er aðalástæðan fyrir stöðunni sem er nú á markaðnum.

Hæstv. ríkisstjórn telur að nú sé sú hætta á ferðum að hér verði ekki nægur gjaldeyrir til staðar í framhaldinu. Þess vegna á að selja Landssímann og bankana núna þó að verðið sé ekki mjög hátt. Að líkindum mun verðið lækka enn þá á öðrum bréfum á markaðnum ef mjög djarft verður boðið af bréfum í Landsbankanum, í Búnaðarbankanum og í Landssímanum sem rætt er um þessa dagana á hv. Alþingi að selja.

Ég tel að ríkisstjórnin taki hér ranga ákvörðun. Það hefur verið lifað hátt og menn þurfa að horfast í augu við að hér hefur myndast ástand sem er ekki bara óæskilegt, heldur ástand sem fjármálakerfið í landinu getur ekki borið uppi til lengdar. Það er verið að eyða miklu meira en þjóðfélagið aflar.

Ég tel að ríkisstjórnin ætli að brúa bilið við núverandi ástand og sjái þetta fyrir sér svona: Við erum að lenda í miklum vanda næstu mánuðina og missirin. Við verðum að selja eigur ríkisins til að halda uppi nægilegu gjaldeyrisframboði þangað til við fáum nýjar gjaldeyrisuppsprettur í gang vegna stækkunar Norðuráls og vegna virkjananna fyrir austan. Þess vegna eru menn tilbúnir til að selja eigur ríkisins og halda veislunni áfram.

En hvað gerist með þessu? Með þessu er ekki tekið á vandanum sem er undirliggjandi, viðskiptahallanum sem malar undan undirstöðum fjármálalífsins á Íslandi. Menn halda áfram og geta staðið uppi með það eftir þetta stórvirkjanatímabil sem menn setja allt sitt traust á að viðskiptahalli hafi varað allan tímann og að yfir þjóðina ríði ástand sem er ekki hægt að kalla annað en kreppu. Þenslutímabilið sem fylgir framkvæmdunum sem er starað hér á, ef ekki verður tekið harkalega á málum, mun valda því sem ég er að lýsa. Áframhaldandi viðskiptahalli verður allan tímann. Ef mönnum tekst ekki að finna einhverja enn þá stórkostlegri framkvæmdir til að taka við af þeim sem nú er stefnt í mun þjóðin einfaldlega lenda í stórkostlegri kreppu eftir þetta tímabil.

Ekki er endalaust hægt að stækka efnahaginn með vaxandi hraða. Hv. þm. Pétur H. Blöndal brosir að þessum vangaveltum mínum. En ég er á þeirri skoðun að það sé veruleg hætta á ferðum. Ég tel að hæstv. ríkisstjórn þurfi að hugsa sig mjög vel um. Þó það verði sárt fyrir þjóðina og ríkisstjórnina þá tel ég að við verðum að hugsa, horfa fram hjá því að hægt sé að halda uppi því ástandi sem verið hefur áfram, því þenslutímabili sem menn sjá fyrir sér að verði ef af þessum stórkostlegu framkvæmdum verður, og sjá til þess að ekki verði viðskiptahalli á Íslandi yfir þetta tímabil. Það virðist þó ekki vera hugmyndin þessa daga. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að ríkisstjórnin ætli að takast með ábyrgð á við þetta verkefni sem er sannarlega stórt.

Ég held að það sé ekki síst ríkisstjórnin sem þurfi á einhverju róandi að halda. Hæstv. forsrh. hefur haft það við orð að menn eigi að halda ró sinni. Hann var í umræðum fyrir nokkrum dögum og tókst snilldarlega að tala um síðustu sex prósentin af gengisfellingu krónunnar sem hefur fallið í gengi um milli 20 og 30% á sl. 16 mánuðum. Gengisfallið hefur auðvitað sannfært menn um að efnahagsstefnan sem rekin var gekk ekki upp og olli því að ríkisstjórnin gafst endanlega upp fyrir því að það þyrfti að leyfa gengisfellingu krónunnar að ganga yfir og Seðlabankinn var ekki lengur notaður til þess að halda uppi háum vöxtum og gengi.

[18:00]

Ég ætla ekki að spá um hvert framhaldið verður að öðru leyti en því að það er nokkuð augljóst að gengi krónunnar hefur á tveggja ára tímabili, þ.e. á árunum 2000 og 2001, fallið um í kringum a.m.k. 20%, það er alveg ljóst. Það mun hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér og hefur sannfært fjárfesta, sem hafa verið að flytja peninga inn til landsins, um að ekki sé glóra í því. Þeir hafa tekið til við að flytja peningana út aftur.

Traustið sem búið var að byggja á fölskum forsendum á undanförnum árum, handa þeim sem staðið hafa í þessum viðskiptum, er horfið. Ég hef ekki trú á því að það verði byggt upp á næstunni. Kannski eru síendurtekin orð hv. þm. Vilhjálms Egilssonar í dag um að stækka þurfi efnahag bankanna merki um að hann telji að eitthvað þurfi að koma í staðinn fyrir peningana sem hafa verið fluttir inn með þeim hætti sem ég hef talað um.

Ég kemst ekki hjá því að nefna dreifðu eignaraðildina, einfaldlega vegna þess að hæstv. forsrh. var mikill talsmaður dreifðrar eignaraðildar þar til vitlausir menn, að hans mati, keyptu banka sem var seldur hér á sínum tíma. Ég hélt satt að segja að hann væri ekki sá maður sem flökti svo frá stefnu sinni, eins og hann hefur þó gert í þessu máli, að við sæjum í þessu frv., sem er næstum því broslegt ef alvara málsins væri ekki mikil, eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um sölu fyrirtækja í eigu ríkisins verður lögð áhersla á sölu til almennings og tilboðssölu. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu mun gera tillögur til viðskiptaráðherra um fyrirkomulag sölu til almennings og tilboðssölu.``

Þarna er verið að lýsa stefnu ríkisstjórnarinnar og þetta sé í samræmi við hana. Svo kemur næsta málsgrein. Þá er ekki verið að vísa með sama hætti til stefnu ríkisstjórnarinnar, heldur er sagt:

,,Einnig er gert ráð fyrir að kannaður verði áhugi kjölfestufjárfesta um kaup á stórum hlut í bönkunum. Í því sambandi verði sérstaklega hugað að fjárfestingu erlends fjármálafyrirtækis í bönkunum.``

Þarna er talað um fjármálafyrirtæki í eintölu og ég óska eftir því að hæstv. ráðherra staðfesti að það sé þá meiningin að selja einu fyrirtæki, erlendu, þessa eignarhluti í bönkunum þannig að a.m.k. sé á ljósu hvað er þarna átt við.

En það er ekki þess vegna sem ég var að vísa til þessara hluta heldur vegna þessa tals um dreifða eignaraðild sem er allt í einu fokið út í veður og vind. Í því sambandi voru menn að tala um óeðlileg ítök og í framhaldi af því spunnust umræður um hvernig ætti að hefta þessi óeðlilegu ítök hugsanlegra eigenda í fjármálafyrirtækjum. Hæstv. forsrh. hefur greinilega gefist upp á málinu en þó er eitt mál hér til afgreiðslu á hv. Alþingi um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálastofnunum. Þeim hugmyndum er ætlað að koma í veg fyrir að einhverjir eigendur í fjármálastofnunum geti orðið of valdamiklir og nýtt sér völd sín til á einhvern óeðlilegan máta.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að ég reyndi að spyrja hana um það fyrir nokkrum dögum. Hér er nefnilega líka til afgreiðslu annað frv. sem er um viðskiptabanka og sparisjóði. Þar er gert ráð fyrir því að þeir sem ráða ríkjum innan sparisjóðanna haldi áfram að gera það og geti ráðið fjármálstofnunum gjörsamlega í krafti afar lítils eignarhalds í bönkunum, þ.e. sparisjóðum.

Ég spyr: Hvernig getur Alþingi afgreitt frá sér mál af þessu tagi sem eiga við samkynja stofnanir? Ekki er mikill munur á sparisjóðsbanka og þeim stofnunum sem hér er um að ræða. Í öðru tilfellinu eiga að gilda strangar reglur um að ef menn eigi ákveðið mörg prósent í viðkomandi banka þá skuli taka af þeim atkvæðisréttinn. Á sama tíma er verið að fjalla um málefni sparisjóðanna þar sem menn geta farið með allt eignarhaldið þó að þeir eigi nánast ekkert í sparisjóðunum. Ég tel að hv. Alþingi geti ekki boðið upp á lausnir af þessu tagi og það verði að vera eitthvert samræmi á milli þess sem þarna er gert.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Finnst hæstv. ráðherra það ganga að mál séu afgreidd með þessum hætti á ábyrgð hennar? Telur hún að það muni yfirleitt nokkurn tímann standast, ef þeir sem yrðu nú eignaraðilar að stórum hlut í einhverjum bönkum, færu að kæra á grundvelli jafnræðissjónarmiða? Þeir gætu kært það að þeir fengju ekki að nýta eignarhlut sinn til áhrifa í bankanum sínum en við hliðina á þeim væri sparisjóðabanki þar sem sætu tveir menn sem réðu öllu saman þó þeir eigi ekki nema 2--3%? Þetta er ekki boðleg niðurstaða. Ég held að menn ættu að hugsa þau mál öll betur. Ég tel reyndar að menn hafi hlaupið til allt of hratt til að afgreiða málefni sparisjóðanna.

Ég dreg þetta upp vegna þess að ég gerði tilraun til að spyrja hæstv. ráðherra um þetta um daginn. Mig langar til að fá svör við því hvort henni finnist þetta nú boðleg niðurstaða.

Ég gleymdi að tala um stóru aðilana, sem gert er ráð fyrir að geti keypt í bönkunum, svokallaða kjölfestufjárfesta, ballestin sem er nú allt í lagi að hafa í bönkunum en máttu ekki vera nema 3--4% fyrir stuttu síðan og eiga helst að vera erlendir. Ég gleymdi að nefna þetta vegna þess að mér finnst ástæða til að vekja sérstaka athygli á hringsnúningi hæstv. forsrh. í þessu máli.

Ég hlýt að þurfa að spyrja hæstv. ráðherra varðandi nálaraugað sem kjölfestufjárfestarnir fara í gegnum, hvort fyrir fram verði gefið út að þeir fái að nýta sér eignaraðild sína sem kjölfestufjárfestar í bönkunum að fullu til atkvæðis í bönkunum. Verður það fyrir fram gefið út að þessi ákvæði verði ekki látin gilda um þá? Eða er það kannski þannig að eingöngu verði rætt við einstaka aðila erlendis en ekki reynt að selja bankana með neinni samkeppni erlendra aðila um að fá eignarhlut í þeim?

Ég ætla ekki að halda neina langlokuræðu um þetta mál. Ég tel ekki ástæðu til að halda að menn ætli ekki að klára það. Við í Samfylkingunni höfum ekki lagst gegn því að þessi samkeppnisrekstur yrði seldur í framtíðinni. Hins vegar vil ég sérstaklega vara menn við því að halda að ábyrgð hins opinbera á fjármálastarfsemi í landinu sé þar með lokið. Ég tel í raun ástæðu til að halda að hún verði meiri í nánustu framtíð en hún hefur verið. Sú tilraun sem er að fara fram á Íslandi, að reka þetta agnarsmáa hagkerfi með opnum fjármagnsflutningum og opið gagnvart þessum stóru hagkerfum sem eru hér í kring. Að mínu viti er það tilraun sem er engan veginn víst að takist.

Síðustu missiri gefa reyndar vísbendingu um að það muni verða erfitt. Sú stefna sem hæstv. ríkisstjórn hefur rekið hefur a.m.k. ekki staðist. Það er auðvitað augljóst öllum að ef mönnum tekst ekki að reka fjármálakerfi hérna þannig að iðnaðurinn og þessar nýju atvinnugreinar sem hafa verið að spretta upp á Íslandi geti fengið sambærilega stöðu hvað varðar fjármálaþjónustu, vexti og gengismál, eins og eru í löndunum í kringum okkur, þá munu Íslendingar þurfa að horfast í augu við, annaðhvort að taka skrefin til baka, sem hafa verið tekin hér til frjálsræðis, eða þeir verði að skoða möguleikann á að taka upp annan gjaldmiðil.

Því miður virðist ýmislegt benda til þess að menn muni ekki hafa langan tíma til að velta þessum málum fyrir sér. Ég ætla svo að lokum að segja að ég kvíði töluvert þeim missirum og árum sem fram undan eru. Ef þær gífurlegu framkvæmdir sem stefnt er að fara af stað og ef þeir sem stjórna þessu landi verða ekki ábyrgari í efnahagsstjórn sinni en verið hefur þá munu þau ár sem á eftir koma, þessu stórvirkjanatímabili sem er nú stefnt að, geta orðið hættuleg. Þau geta orðið þjóðinni mjög hættuleg í efnahagslegu tilliti og þess vegna er ábyrgð þeirra sem eru nú við stjórnvölinn mikil. Þeir verða bókstaflega að horfast í augu við að þeir verða að taka á viðskiptahallanum, ekki vegna þess að það sé ekki nægilegur gjaldeyrir til staðar.

Það virðist vera það eina sem menn hafa horft til á undanförnum missirum, að nógur gjaldeyrir hafi verið til staðar og þess vegna hafi þetta verið allt í lagi. En þetta hefur ekki verið í lagi. Viðskiptahallinn hefur verið miklu meiri en ásættanlegt er. Verði ekki tekið á þessu þá munu menn horfa fram á vonda daga eftir stórvirkjanatímabilið sem stefnt er að.