Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 18:31:02 (7408)

2001-05-10 18:31:02# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[18:31]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði fjálglega um arðsemina og sagði að hún væri eina driffjöðurin. Hér er um að ræða fyrirtæki sem ber heitið Búnaðarbankinn og var tengdur landbúnaðinum á sínum tíma og Landsbankinn sem tengdur var öllum landsmönnum. Ég leyfi mér að spyrja: Er ekki ástæða til að setja neins staðar í lög um þessar stofnanir að þeir eigi að bera þjónustuskyldu og á þeim hvíli þjónustukvöð? Við erum þó að myndast við að setja slíkar kvaðir á Landssímann. Það er myndast til við það í lögum um fjarskipti með ákvæðum um alþjónustu. Það er viðleitni til þess. En bankaþjónustan er líka hluti almannaþjónustu. Er hv. þm. eindregið þeirrar skoðunar að arðsemiskrafan ein eigi að ráða, arður fjármagnseigenda sem geta verið hvar sem er og þurfa ekki einu sinni að vera hérlendis? Þeir geta verið fjarri meðan arðsemiskrafan á að tryggja að þessi þjónusta sé veitt. Af hverju erum við þá t.d. að setja þessi lög um alþjónustu varðandi fjarskipti, svo veik sem þau eru?