Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 21:01:06 (7415)

2001-05-10 21:01:06# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[21:01]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er að sjálfsögðu stoltur yfir því að vera í þessu stjórnarliði sem sýnir svo mikla samstöðu og er ekki að tefja framgang þarfra stjórnarfrumvarpa með málæði. Það á ekki síst við um þetta mál sem er afar vel undirbúið og vandað og mikið þarfamál, enda hefur verið mikið eftir því kallað af hálfu atvinnulífsins og eins hafa þær opinberu stofnanir sem um þetta hafa fjallað rætt um nauðsyn þess að einkavæðing gengi fram, þar á meðal bæði Þjóðhagsstofnun og Seðlabankinn, sem hafa talið að einkavæðing í fjármálakerfinu væri heppileg fyrir allra hluta sakir. Sama hefur komið fram frá erlendum stofnunum.

Tímasetningin er ágæt. (Gripið fram í: Verslunarráðið.) Ég gleymdi ekki Verslunarráðinu, ég talaði um samtök í atvinnulífinu. Varðandi tímasetninguna þá tel ég að hún sé alveg ágæt. Ef við lítum á hlutabréfaveltu á Verðbréfaþingi Íslands, þá er hún 58 milljarðar á árinu 2000, 42 milljarðar árið 1999, þar af til viðbótar fjárfestu íslenskir aðilar erlendis í hlutabréfum árið 2000 fyrir 58 milljarða. Til viðbótar við það voru beinar fjárfestingar Íslendinga erlendis nettó 15 milljarðar. Við Íslendingar eigum 183 milljarða í eign í hlutabréfum erlendis. Fyrir utan allt það sem er í hlutabréfaeign á skráðum bréfum á Verðbréfaþingi Íslands og fyrir utan það sem er í óskráðum bréfum. Ef litið er á þessar tölur gefur augaleið að mikið rými er fyrir hlutabréf í góðum fyrirtækjum og í rauninni sækist markaðurinn eftir því að til staðar séu á íslenska markaðnum framboð af hlutabréfum í traustum og góðum fyrirtækjum sem ég tel að báðir bankarnir séu, og mundu eflast enn þá meira ef það væri liður í því einkavæðingarferli, að auka við hlutaféð í bönkunum.