Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 21:05:22 (7417)

2001-05-10 21:05:22# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[21:05]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins rifja það upp fyrir hv. þm. að meiningin er að tekin séu tvö ár í það að selja hlut ríkisins í viðskiptabönkunum og eins í Landssímanum. Ef maður ber það saman við ársveltuna í fyrra t.d. á Verðbréfaþinginu, 58 milljarða, og eins kaup Íslendinga í hlutabréfum erlendis í fyrra sem voru 58 milljarðar líka, 116 milljarðar samtals, þá liggur alveg í augum uppi að það er pláss fyrir þetta framboð á hlutabréfamarkaðnum.

Annað sem skiptir máli er að með því að þessi fyrirtæki fari á markað og verði hluti af markaðnum, þá er að sjálfsögðu verið að styrkja markaðinn sem slíkan, svo maður tali nú ekki um ef þær aðgerðir aðrar sem þarf að gera til að efla atvinnulífið, t.d. að gera nýjan samning um stóriðju og slíka hluti, ef þetta kemur allt til framkvæmda og allt gerist á sama tíma, þá er þörf fyrir stærra bankakerfi og þá hef ég trú á því að hlutabréfamarkaðurinn fari að þokast upp á við aftur. Ef sölunni er dreift á þennan tíma hygg ég að ríkissjóður muni fá ágætisverð fyrir bankana þegar upp verður staðið.

Það mundi líka þýða að ef hagkerfið eflist og bankarnir fá líka tækifæri til að fylgja þessari eflingu hagkerfisins með því að auka eigið fé þeirra og gefa þeim kost á að taka þátt í að lána til atvinnulífsins í þessu stærra hagkerfi, þá þarf heldur ekki að óttast um hag starfsmanna bankanna vegna þess að það verður næg atvinna fyrir þá. Mér hefur sýnst að bankarnir hugsi mjög vel um starfsfólk sitt og ekki síst ef tækifæri væri til þess fyrir bankana að vaxa og dafna til að styðja við hagkerfið, þá væri það allt í lagi.