Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 21:07:32 (7418)

2001-05-10 21:07:32# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[21:07]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var nú býsna hraðsoðið. Hv. þm. var kominn á háflug þarna með köflum.

Aðeins til þess að ná snertilendingu í þessu samhengi. 58 milljarðar voru þetta innan lands og 42 milljarðar ... (VE: 58 erlendis.) Já 58 milljarðar erlendis. Ég hef heyrt hv. þm. tala í þá veru að hann telji mikilvægt að íslenskir fjárfestar dreifi dálítið áhættunni og það sé ekkert óskynsamlegt að eiga fjárfestingar erlendis og menn hafa talað um það í því samhengi við gengið að það sé einmitt styrkur í því að Íslendingar eigi eignir erlendis. Ég er alveg sammála því þannig ég vænti þess að hv. þm. eigi ekki við að úr því dragi stórkostlega. Við skulum því skilja það frá og halda okkur við þessa 58 milljarða og jafnvel gefa okkur að það taki bæði þessi tvö ár sem ráðgert er að salan fari fram. Engu að síður erum við að tala um það að með því að afsetja þessi þrjú fyrirtæki, þessi þjóðarfyrirtæki þrjú, bankana tvo og Landssíma Íslands, erum við að tala um fjárfestingu á sjötta tug milljarða hið lægsta, vonandi og væntanlega. Þannig að meira en helmingur af innlendri fjárfestingu í íslenskt atvinnulíf er farinn.

Af því hv. þm. drap hér í hringferð sinni á stóriðju í því samhengi, þá man ég ekki betur en menn hafi til að mynda verið að vænta þess að draga hér að íslenska fjárfesta varðandi stóriðju á Reyðarfirði. Og að íslenskir fjárfestar kæmu einmitt að fjármögnun í því samhengi, ekki með því að taka lán í bönkum, heldur með því að leggja fé inn í það. Mér sýnist orðið býsna lítið ráðrúm eftir fyrir íslenska fjárfesta. Það ráðrúm fer minnkandi. Við skulum ekki gleyma því að nú er komið að skuldadögum hjá mörgu fólki, skuldir heimilanna aukast. Þess er því tæplegast að vænta að hinn almenni borgari komi með stórar fjárhæðir inn í hlutabréfamarkaðinn eins og hann þó hefur gert á síðustu árum á tímum góðæris. Gætum okkar á því.