Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 21:15:03 (7423)

2001-05-10 21:15:03# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[21:15]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Það er eðlilegt að hún hafi tekið nokkurn tíma, þetta er stórt mál sem hér er til umfjöllunar. En ég varð nú fyrir örlitlum vonbrigðum með ræðu síðasta hv. ræðumanns. Mér fannst hann vera dálítið persónulegur og mér fannst hann ekki tala í anda þess flokks sem ég hafði reiknað með að væri frjálslyndur jafnaðarmannaflokkur. Mér fannst hann vera meira í líkingu við þann flokk sem hefur verið kenndur við vinstri, kallaður Vinstri grænir, hann var dálítið langt frá því að vera frjálslyndur í sínu tali, fannst mér. En við skulum láta það vera.

Þegar hv. þm. talaði um stefnu Framsfl., sem hann hafði greinilega kynnt sér býsna vel, þá ætla ég að nefna það að eftir að við héldum flokksþing okkar síðast, þá var ég svo heppin í einn eftirmiðdaginn að heyra á tal manna í útvarpi sem voru jafnaðarmenn og þeir fullyrtu það að Framsfl. hefði náð því að verða frjálslyndur miðjuflokkur sem Samfylkingin hefði ætlað sér. Ég heyrði á þessum ungu jafnaðarmönnum að þeir voru nokkuð hrifnir af stefnu Framsfl. og samþykktum frá þessu flokksþingi sem þá var nýliðið. (Gripið fram í.) Ég ætlaði bara rétt að minna hv. þm. á þetta.

En síðan er það með málið eins og það liggur fyrir, að selja bankana hvorn í sínu lagi. Þá finnst mér einhvern veginn eins og það hafi einmitt verið stefna Samfylkingarinnar fyrir öfráum vikum að vilja selja bankana hvorn í sínu lagi þegar áform voru uppi um að sameina bankana og selja svo. Þess vegna kemur mér það svolítið á óvart að hv. þm. og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar skuli ekki aðhyllast þessa stefnu sem núna er mjög í stíl við það sem þeir lögðu til fyrir áramótin.

Mér finnst það mjög spennandi umræðuefni sem nokkuð hefur verið rætt hér um, að starfsmenn fái þátttöku í stjórn. Ég sé það alveg fyrir mér að við Íslendingar munum taka þá umræðu. Við erum skemmra á veg komin hvað þetta varðar en t.d. aðrar Norðurlandaþjóðir og þess vegna tel ég mjög líklegt að þetta sé umræðuefni sem við þurfum að taka upp líka, en ég tel ekki ástæðu til að setja ákvæði þessa efnis inn í það frv. sem hér er til umfjöllunar, heldur þurfum við að líta á þetta, eins og áður hefur verið sagt, á breiðum grundvelli.

Svo er það með hlutabréfamarkaðinn sem er veikur og hvenær er rétt að selja. Hver veit hvenær markaðurinn er í hámarki og hvenær best verð fæst fyrir banka og önnur fyrirtæki sem eru á markaði? Hver er tilbúinn að segja til um það? Ekki treysti ég mér til þess, enda væri ég örugglega í allt öðru starfi ef ég hefði þá eiginleika til að bera að átta mig á hvernig markaðurinn þróast. Við getum því miður ekkert sagt til um það í dag og þess vegna getum við ekki sagt nákvæmlega til um það hvernig við förum í þessa sölu. Málið snýst um að fá heimild til að selja og síðan verður að taka mið af markaðnum og eins og oft hefur komið fram verður þetta unnið í samvinnu við einkavæðingarnefnd og því er náttúrlega ákveðin óvissa uppi um það nákvæmlega hvernig verður farið í söluna.

Ég get ekkert fullyrt um það hvað þessi breyting mun hafa í för með sér, af því hv. þm. spurði um það hvort ég væri fullviss um að þessi aðgerð mundi bæta þjónustu t.d. Það eina sem ég veit er að hvort sem af þessari sölu verður eða ekki, þá er mikil hagræðing fram undan í þessum geira og samkeppnin vex. Þar að auki er mikið af þessari þjónustu nú þegar komin á netið og það er ekki nokkur vafi á því að þeirri þróun er ekki lokið, hún mun halda áfram. Ég hef hins vegar mikla trú á því að með því að hagræða á þessum markaði sé hægt að draga úr vaxtamun og það er nú eitt af markmiðum þessa máls.

Í sambandi við það sem kom fram í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, hún spurði um skýrsluna margumtöluðu, um stjórnunar- og eignatengsl, sem er alveg að líta dagsins ljós. Ég býst við að það geti orðið í næstu viku þess vegna. Eins og ég hafði sagt og stend við kemur hún fram áður en þing fer heim í vor. Það var það sem ég sagði þegar um þetta var beðið upphaflega og við það verður staðið.

Hér var minnst á að lítið sem ekkert hafi verið talað við starfsmenn. Það er rétt að framlagning þessa frv. var ekki nákvæmlega borin undir starfsmenn. Hins vegar var ég í miklum viðræðum við fulltrúa starfsmanna í tengslum við hugsanlega sameiningu bankanna og þá komu fulltrúar þeirra á fjóra formlega fundi í ráðuneytinu og þá lá það fyrir að ef ekki yrði af sameiningu yrði þessi leið farin. Enda var málið þannig vaxið, eins og hér hefur verið rifjað upp, að strax og samkeppnisráð gerði kunnugt sitt álit var haldinn ríkisstjórnarfundur þar sem tekin var ákvörðun um að leggja fram frv. á nýju ári um sölu bankanna. Aðalástæðan er sennilega sú að þetta frv., verði það að lögum, breytir ekkert réttarstöðu starfsmanna og þess vegna er engin sérstök ástæða til að bera það svo mjög undir þá. Það gerir það ekki. Og frv. var heldur ekki borið undir forsvarsmenn bankanna.

Hv. þm. nefndi það hvort ekki hefði verið rétt að taka af skarið með einn bankastjóra. Ég get alveg verið sammála honum um að mér finnst það í sjálfu sér ekki óskynsamlegt, en ég taldi ekki ástæðu til að hafa afskipti af því máli þar sem bankarnir eru u.þ.b. að verða söluvara og þá er það nýrra eigenda að taka af skarið í sambandi við það.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafði nokkuð mörg orð um að það væri verið að koma óhreint fram, eins og ég skildi hann, miðað við það að ekki hafi verið meiningin að selja bankana þegar ákveðið var að breyta þeim í hlutafélög þegar það frv. var hér til umfjöllunar. Ég tel að þetta sé ekki alveg rétt, vegna þess að það kom fram þá að ein ákvörðunin væri sú að breyta forminu og síðan væri önnur ákvörðun sem líka þyrfti að koma fyrir Alþingi ef ákveðið væri að leggja til að bankarnir yrðu seldir. Það lá því alltaf fyrir, a.m.k. í mínum huga að það yrði næsta skref og annað skref. Hins vegar var það þannig að þessi aðlögun tók styttri tíma en reiknað hafði verið með og þess vegna eru mál kannski þau sem raun ber vitni að þetta frv. er komið núna fram og ég tel að það sé alveg á réttum tíma.

Hv. þm. talaði um það að sú sem hér stendur hefði sennilega ekki miklar áhyggjur af því að landsbyggðin fengi ekki þá fyrirgreiðslu sem hún hefði fengið áður og þar fram eftir götunum og fyrirtæki almennt á landsbyggðinni, bæði sjávarútvegsfyrirtæki og iðnfyrirtæki og allt hvað eina, fengju ekki fyrirgreiðslu í bankakerfinu. Ég ætla þá að segja frá því að ég sendi bréf til viðskiptabankanna í mars á síðasta ári og spurði eftir þessu og, með leyfi forseta, segir m.a. í bréfi mínu:

,,Er því gjarnan haldið fram að það sé bæði erfiðara og kostnaðarsamara fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni að fá lán vegna landfræðilegrar staðsetningar þeirra til þeirrar fjárfestingar sem lánað er til. Mér er jafnframt kunnugt um að þessu sjónarmiði hafði mjög verið haldið á lofti þegar unnið var að endurskoðun laga um Byggðastofnun sl. haust, en þá var m.a. tekið til umfjöllunar hvort rétt væri að leggja niður lánastarfsemi stofnunarinnar. Það var ekki gert, m.a. af framangreindum ástæðum og í raun má segja að ýmsir landsbyggðarmenn leggi áherslu á að efla lánastarfsemi Byggðastofnunar verulega umfram það sem nú er.``

Bankarnir svöruðu þessu og miðað við þau svör, sem ég ætla ekki að lesa upp hér, halda þeir því allir fram að þessi mál séu ekki með þeim hætti sem ýjað er að í bréfi mínu og bera sig nokkuð vel. Ég skal hins vegar taka það fram og taka undir það með hv. þm. að ég verð mjög vör við þær kvartanir að bankarnir sinni ekki fyrirtækjum landsbyggðarinnar nægilega vel. En ég held að rétt sé að hafa það í huga að almennt hafa bankarnir upp síðkastið verið að draga úr lánveitingum og á það að sjálfsögðu alveg eins við um fyrirtæki á Reykjavíkursvæðinu.

Hv. þm. talar um frv. það sem liggur hér frammi af hálfu Vinstri grænna, um 8% mörkin, og velti ég því fyrir mér hvernig hann hugsar það mál, vegna þess að ESA hefur gert þessar athugasemdir og við getum ekki annað en horfst í augu við það að við getum ekki sett þessar takmarkanir í lög sem Norðmenn gerðu og eru nú til athugunar hjá ESA. Ég veit ekki hvort hv. þm. telur að við eigum þá að segja okkur úr Evrópska efnahagssvæðinu eða hvernig við eigum að ná því fram sem hann telur að hefði verið æskilegra í þessu sambandi, þ.e. setja mörk um það hversu stóran hlut hver og einn má eiga í fjármálafyrirtæki. Ég tel að sú leið sé einfaldlega ekki fær og þá þýði ekkert að vera að tala um hana.

Fyrirspurnir komu fram frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni um hvort reglur giltu um það hvort bankastofnanir mættu eiga hlut í öðrum fyrirtækjum. Ég kannast ekki við að svo sé. Og a.m.k. eru áreiðanlega ekki til reglur sem banna fyrirtækjum í samkeppnisrekstri að kaupa hlut í banka eins og hann spurði um einnig. Það held ég sé alveg óhætt að fullyrða.

Ég ætla ekki að orðlengja meira um þetta mál. Ég þakka fyrir umræðuna. Ég tel að við séum að stíga rétt skref með því að selja þessar fjármálastofnanir sem ríkið á stóran meiri hluta í. Hvernig farið verður nákvæmlega í þá sölu liggur ekki fyrir á þessari stundu og það veit ég að hv. þingmenn skilja vegna þess að það hlýtur að þurfa taka mið af ástandi á markaðnum. Hins vegar er ekkert launungarmál að stefnan er sú að selja bankana á kjörtímabilinu og að hafist verði handa við þá sölu á þessu ári.