Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 21:43:58 (7433)

2001-05-10 21:43:58# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[21:43]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég vil lýsa áhyggjum yfir þessum afskaplega rýru svörum sem koma frá ríkisstjórninni. Hæstv. bankamálaráðherra, viðskrh., segir að sér finnist umræðan um starfsmannamál sérstaklega spennandi og hún sé reiðubúin að taka þátt í slíkri umræðu, en sé ekki tilbúin að koma á neinn hátt til móts við starfsmenn sem hafa óskað eftir tilteknum ráðstöfunum nú, áður en þetta frv. er fest í lög. Hæstv. ráðherra er ekki reiðubúin til þess. Henni finnst þetta hins vegar afskaplega skemmtilegt umræðuefni, starfsmannamál.

Sala bankanna hefur ekki nokkur áhrif á stöðu starfsmanna, segir hæstv. ráðherra. En er ekki verið að tíunda það í greinargerð með frv. að með sölu bankanna sé stuðlað að miklum breytingum í starfsumhverfi bankanna, hagræðingu sem svo er kölluð, sem á mannamáli þýðir uppsagnir starfsmanna, fækkun í starfsliði? Það er út á þetta sem ábendingar starfsmanna ganga m.a., hvernig þar skuli staðið að verki, hvernig starfsöryggi fólks verði tryggt sem best. Út á það ganga ábendingar starfsfólks.

Mér finnst hæstv. ráðherra skulda þinginu skýrari svör. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maílok árið 1999, þar sem vikið er sérstaklega að sölu bankanna, segir að þeir verði aðeins seldir fái ríkið hámarksverð fyrir eign sína.

Nú hefur komið fram að þessi eign ríkisins hefur rýrnað um 11% frá áramótum, um 5 milljarða kr., um 5.000 millj. kr. og enginn veit hver framvindan verður á næstu missirum. En ríkisstjórnin er hins vegar og engu að síður reiðubúin að skuldbinda sig til þess að selja bankana á kjörtímabilinu, að selja bankana á næstu tveimur árum. Er það ekki rétt skilið hjá mér? Og það er alveg óháð því hvernig verðlagið þróast. Ætla menn þá ekki að virða þessa yfirlýsingu sem gefin hefur verið að tryggt skuli hámarksverð fyrir bankana? Mér finnst að við þurfum að fá á þessu skýringu. Hæstv. ráðherra segir síðan að menn verði að skilja að ekki sé hægt að skýra frá því hvenær gengið verði frá þessum kaupum og vísar m.a. í því sambandi í þessar verðlagsforsendur. En ég man ekki betur en að í þeim gögnum sem hafa verið tíunduð, og ég hef m.a. gert að umræðuefni í dag, sé talað um að það sé afar slæmt fyrir bankana að búa við óvissu í þessu efni, í nákvæmlega þessu efni. Það er tíundað á öðrum stöðum í gögnum ríkisstjórninnar þannig að hér er að finna ýmsar mótsagnir.

Síðan ætla ég ekki að reyna að særa fram svör frá hæstv. bankamálaráðherra um þau efni önnur sem ég vék að. Það er nánast eins og helgispjöll ef spurt er um afskipti ríkisbankanna af stórpólitískum málum í efnahagslífinu. Ég vék að því að ríkisbankarnir hefðu keypt áhættubréf fyrir 6.000 millj. kr., þeir hefðu leyst út ameríska áhættufjárfesta sem höfðu keypt í fyrirtækinu deCode og það var spurt út í þetta á sínum tíma. Það var spurt út í 1.000 millj. kr. fjárfestingu Landsbankans í Tali. Við leyfðum okkur að óska eftir upplýsingum um þetta. Það er nánast eins og helgispjöll, eins og okkur komi ekkert við að ræða hér um efnahagsmál, slíkt eigi ekki heima á Alþingi. Mér finnst það. Mér finnst alveg óhætt að ræða þessa hluti og sjálfsagður hlutur. Það er líka sjálfsagður hlutur að ræða með hvaða hætti bankarnir eru hugsanlega að fjárfesta í stóriðju. Þetta er pólitík líka. Þetta eru stjórnmál, pólitík. Það er ekkert athugavert við það að slík mál komi hér til umræðu og fullkomlega eðlilegt.

Við höfum lagt fram tillögur okkar og gert grein fyrir sjónarmiðum okkar. Við teljum mikilvægt að í landinu sé rekinn þjóðbanki, öflugur banki sem tryggi þjónustu við landsmenn alla og við höfum fært fyrir því rök að með því fyrirkomulagi sé einnig tryggt að fjölbreytni og samkeppni geti dafnað og þrifist í íslensku atvinnulífi.