Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 21:57:46 (7438)

2001-05-10 21:57:46# 126. lþ. 119.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv. 69/2001, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[21:57]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og brtt. frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Málið var tekið fyrir í nefndinni, sent til umsagnar allmargra aðila og nokkrir þeirra komu á fund nefndarinnar. Frá því er greint í nefndaráliti á þskj. 1090.

Nefndin stendur öll að þeim brtt. sem ég mun mæla fyrir en undir nefndarálitið rita hins vegar þrír nefndarmenn með fyrirvara, þeir hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson og verður væntanlega gerð grein fyrir fyrirvörum þeirra á eftir.

Þær brtt. sem nefndin hefur orðið sammála um koma fram á þskj. 1091. Þær eru í fimm liðum og allmörgum undirliðum vegna þess að frv. er byggt þannig upp að þar er fyrst kafli um breyting á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, síðan sambærilegur kafli um breyting á lögum um verðbréfaviðskipti, með síðari breytingum, og að síðustu er í IV. kafla frv. sambærilegur kafli um breyting á lögum um vátryggingastarfsemi. Brtt. eru því kannski einfaldari en virðist við fyrstu sýn þar sem þær eru allsambærilegar við þessa þrjá kafla sem ég gat um. Í 1. lið brtt. er breyting við 1. gr. frv. og í a-lið þessarar brtt. er gert ráð fyrir því að breyta í 1. málsl. 3. efnismgr. þannig að hann orðist með jákvæðum hætti og verði svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Aðilar sem hyggjast eignast virkan eignarhlut í viðskiptabanka skulu leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir fram.``

Þetta er kannski ein helsta breytingin sem kemur fram í frv., að þeir sem vilja eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum þurfa að fá leyfi til þess fyrir fram en ekki tilkynna um það eftir á og síðan skorið úr um það hvort það geti gengið upp eða ekki.

[22:00]

Í b-lið 1. tölul. brtt. er gert ráð fyrir að niður falli krafa um að kennitala fylgi skriflegri umsókn til Fjármálaeftirlitsins. Það er gert vegna þess að erlendir aðilar hafa ekki kennitölu á Íslandi nema sækja um það sérstaklega.

Í c-lið er gerð breyting þar sem krafa er gerð um að umsækjandi geri grein fyrir áformum sínum um breytingar á verkefnum viðskiptabanka en ekki almennt um markmið umsækjenda með eignarhaldi eins og er í frv.

Í d-lið er gerð krafa um að umsækjandi skýri frá reynslu sinni af fjármálastarfsemi í stað þess að í frv. er talað um þekkingu á atvinnusögu umsækjanda.

11. tölul. 4. efnismgr. 1. gr. frv. á að falla brott samkvæmt e-lið 1. liðs þessari tillögu. Þar er fjallað um fyrri afskipti stjórnvalda sem falið er eftirlit með einstaklingum og lögaðilum að umsækjanda sem geti haft áhrif á mat Fjármálaeftirlitsins.

Í f-lið er tilvísun sem tekin er upp í g-lið. Þar er umorðun á 13. tölul. sem fjallar um aðrar upplýsingar, þ.e. gert er ráð fyrir því að upplýsingarnar sem óskað er eftir þurfi að skipta máli við mat á hæfi eigenda virkra eignarhluta.

Í h-lið 1. tölul. brtt. er breyting á 5. efnismgr. 1. gr. frv. og lagt til að komi nýr liður, svohljóðandi:

,,Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágur frá skilum á upplýsingum skv. 4. mgr. hafi lögaðili ekki tök á að afla þeirra eða ef umsækjandi lýtur opinberu fjármálaeftirliti í öðru ríki og unnt sé að afla sambærilegra upplýsinga frá fjármálaeftirliti heimaríkis umsækjanda.``

Með öðrum orðum á ekki að krefja umsækjanda um upplýsingar sem þegar liggja fyrir á borðum Fjármálaeftirlitsins.

Í i-lið er gerð tillaga um breytingu á 6. efnismgr. 1. gr. frv., að hún orðist þannig:

,,Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort umsækjandi sé hæfur til að eiga eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs viðskiptabanka og skal gæta meðalhófs við það mat.``

Hér er með öðrum orðum ítrekað að meðalhófs skuli gætt í samræmi við almenna stjórnsýslu.

Í j-lið er gert ráð fyrir því að sé hlutur ekki seldur á tilskildum tíma sé Fjármálaeftirlitinu heimilt að beita dagsektum samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Í k-lið er gert ráð fyrir að nýr málsl. bætist við 11. efnismgr. 1. gr. Þar segir að sé hlutur ekki seldur á tilskildum tíma sé Fjármálaeftirlitinu heimilt að beita aðila dagsektum samvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Sambærilegar breytingar eru lagðar til á III. kafla eins og áður er getið en hann fjallar um lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, með síðari breytingum.

Þá eru enn fremur lagðar til breytingar við 10. gr. sem er í IV. kafla laganna sem er um vátryggingastarfsemi. Það eru svipaðar breytingar.

Öll nefndin stendur að þessum brtt., virðulegi forseti, en auk þess munu þeir nefndarmenn sem skrifuðu undir með fyrirvara, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson væntanlega gera grein fyrir fyrirvörum sínum.