Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 22:04:20 (7439)

2001-05-10 22:04:20# 126. lþ. 119.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv. 69/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[22:04]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þetta frv. um breytingu á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum er afar mikilvægt mál samhliða því sem við höfum verið að ræða í allan dag, þ.e. sölu á viðskiptabönkunum.

Með þessu frv. er gerð virðingarverð tilraun til að Fjármálaeftirlitið fái tæki, lagastoð og lagaheimildir, til að hafa eftirlit með virkum eignarhluta. Í frv. er miðað við að virkur eignarhluti eigi við beina eða óbeina hlutdeild sem nemur 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti.

Herra forseti. Eins og hv. þm. hafa talað um fyrr í dag þá er það stjórnarandstöðunni mikið áhyggjuefni að hætta sé á að fákeppni muni ríkja á þessum markaði þegar öllu bankakerfinu sem verið hefur í ríkiseign er hleypt út í sölu. Menn óttast að leikreglurnar komi ekki í veg fyrir að hætta verði á að einstaka aðilar komist í markaðsráðandi stöðu í bankakerfinu.

Herra forseti. Það þarf ekki að hafa mörg orð um að það væri afar óheppilegt, svo ekki sé meira sagt, og andstætt þörfum viðskiptavina og almennra neytenda ef hér væri markaðsráðandi aðili, með meiri hluta eða virkan eignarhlut, í bankakerfinu. Nóg er nú samt, herra forseti. Það er allt of mikið um fákeppni í ýmsum atvinnugreinum í þjóðfélaginu og of algengt að aðilar í atvinnulífinu og tengdir aðilar búi yfir markaðsráðandi stöðu. Í því sambandi getum við nefnt flutningastarfsemi, olíufélög, matvælamarkaðinn eins og við þekkjum. Við það að hleypa bönkunum í sölu eins og hér á að gera er hætta á að það sama komi upp, að einn aðili eða tengdir aðilar geti komist yfir markaðsráðandi hlut í bankakerfinu.

Ljóst er að frv. sem við ræðum er mikilvægur þáttur í að hamla gegn þeirri hættu. Í því er ítarleg greinargerð og ber að þakka hæstv. ráðherra fyrir að lögð hafi verið í það nokkur vinna af hálfu viðskrn. að fara yfir kosti og galla á dreifðri eignaraðild á fjármálafyrirtækjum. Ráðuneytið fól Þórólfi Jónssyni hjá LOGOS lögmannsþjónustu sf. að taka saman skýrslu um álitaefni sem efh.- og viðskn. hefur glímt við. Nefndar eru fjórar meginleiðir. Sú leið sem hæstv. ráðherra hefur valið er að Fjármálaeftirlitið geti haft eftirlit með virkum eignarhluta. Síðan eru tillögur um að setja takmörkun á eignarhluta eins og gert hefur verið í nokkrum löndum. Þriðja leiðin er takmörkun á atkvæðisrétti, svo dæmi sé tekið um helstu leiðir sem hér eru nefndar.

Herra forseti. Formaður efh.- og viðskn. hefur gert grein fyrir þeirri brtt. sem efh.- og viðskn. flytur. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Margrét Frímannsdóttir skrifa undir þetta álit með fyrirvara. Breytingartillögur efh.- og viðskn. eru flestar hverjar tæknilegs eðlis en þær sem hafa efnislegt innihald finnst mér frekar til þess að veikja frv. heldur en hitt. Sumar breytingarnar eru reyndar óskiljanlegar, t.d. er mikilvægasta málsgreinin í 1. gr. miklu afdráttarlausrari í frv. ráðherrans þar sem segir:

,,Óheimilt er að eignast virkan eignarhlut í viðskiptabanka nema að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins.``

En í tillögum efh.- og viðskn. segir:

,,Aðilar sem hyggjast eignast virkan eignarhlut í viðskiptabanka skulu leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir fram.``

Í frv. er síðan gert ráð fyrir að þeir sem hyggist eignast stóran eignarhluta í viðskiptabönkum skuli beina skriflegri umsögn til Fjármálaeftirlitsins og umsögninni skuli fylgja upplýsingar um 11 tiltekin atriði sem talin eru upp í frv. Ég skil ekki af hverju fella á út kröfu um að fram komi kennitala umsækjanda svo dæmi sé tekið. Fleira má nefna í þessari upptalningu sem mér finnst heldur til þess að veikja málið en hitt.

Ég minni á ábendingu frá Fjármálaeftirlitinu sem mér sýnist að nefndin hafi ekki tekið upp. Ég vitna til þess sem segir í umsögn Fjármálaeftirlitsins, með leyfi forseta:

,,Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegt að gera eftirfarandi athugasemdir við efnisatriði frumvarpsins:

1. Í frumvarpinu er kveðið á um hvernig með skuli fara ef aðili eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki án þess að hafa sótt um leyfi til Fjármálaeftirlitsins eða eftir að hafa fengið synjun fyrir umsókn sinni. Meginréttaráhrifin eru þau að atkvæðisréttur fellur niður fyrir þann hluta sem er umfram leyfileg mörk. Fjármálaeftirlitinu er gert að tilkynna viðkomandi fjármálafyrirtæki um brottfall atkvæðisréttarins. Fjármálaeftirlitið er þeirrar skoðunar að í framkvæmd geti reynst nokkuð erfitt að hafa eftirlit með því að aðilar eignist ekki virka eignarhluti án heimildar. Þrátt fyrir reglubundna upplýsingagjöf af hálfu fjármálafyrirtækjanna og áskilnað um umsókn þess sem eignast vill virkan eignarhlut, er sú hætta fyrir hendi að eftir að kaup á eignarhlutanum eigi sér stað og áður en Fjármálaeftirlitið fær vitneskju um kaupin hafi hluthafafundur verið haldinn þar sem atkvæðisrétti samkvæmt virka eignarhlutanum hefur verið beitt eða jafnvel að virki eignarhluturinn hafi verið seldur áfram til þriðja aðila. Spurning vaknar því um réttaráhrif þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið áður en samþykki Fjármálaeftirlitsins liggur fyrir og jafnframt ákvarðana sem teknar eru eftir að tilkynning Fjármálaeftirlitsins um niðurfellingu atkvæðisréttar hefur verið send fjármálafyrirtækinu. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að ákvarðanir sem teknar eru eftir að tilkynning Fjármáleftirlitsins berst geta verið ógildanlegar samkvæmt 96. gr. laga um hlutafélög. Rétt er að geta þess að samkvæmt þessu ákvæði er heimild til að leita slíkrar ógildingar á ákvörðun bundin við hluthafa, stjórnarmenn eða framkvæmdastjóra. Því er hæpið að Fjármálaeftirlitið geti beitt því ákvæði. Telja verður að kveða verði á um það með skýrum hætti í lögum að ákvörðun svo tekin sé ógild eða a.m.k. að Fjármálaeftirlitið geti haft frumkvæði að slíkri ógildingu.``

Herra forseti. Ég hef getið um veikleika sem Fjármálaeftirlitið sér á þessu frv. og sá ástæðu til þess að vekja athygli á en efh.- og viðskn. hefur ekki tekið til greina.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og Össur Skarphéðinsson hafa flutt brtt. við frv. sem ég tel mjög til bóta og mundi styrkja frv. mjög og þann tilgang sem þar býr að baki, þ.e. að hafa leikreglur á markaðnum þannig að síður sé hætta á að upp geti komið fákeppnisstaða eða markaðsráðandi ítök eins aðila eða tengdra í bankakerfinu. Brtt. sem þau flytja og ég mæli fyrir í fjarveru Margrétar Frímannsdóttur hljóðar upp á að á eftir 3. efnismgr. 1. gr. frv. komi ný málsgrein sem orðist svo:

,,Eigendur virkra eignarhluta, sbr. 3. mgr., geta að hámarki farið með 15% atkvæðisréttar í viðskiptabanka. Atkvæðisrétt vegna hlutdeildar eiganda virks eignarhlutar sem er umfram 15% getur eigandi ekki nýtt sér á hluthafafundum.``

Við 5. gr. Efnismgr. orðist svo:

,,Um skyldu hluthafa lánastofnana til að afla samþykkis Fjármálaeftirlitsins vegna kaupa eða aukningar á virkum eignarhlutum gilda ákvæði 12. og 13. gr. laga um verð bréfaviðskipti, nr. 13/1996.``

Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

,,Ákvæði 4. efnismgr. 1. gr. haggar ekki atkvæðisrétti þeirra hluthafa í viðskiptabönkum sem fara með meiri atkvæðisrétt en 15% við gildistöku laganna.``

[22:15]

Herra forseti. Ég tel að þetta ákvæði veiti frv., þegar að lögum verður, miklu ríkara innihald og að Fjármálaeftirlitið hafi miklu meiri tök á að hafa eftirlit með því að ekki myndist markaðsráðandi staða í bankakerfinu.

Ef við lítum til greinargerðar frv. á bls. 23 þá er þar yfirlit yfir stærstu hluthafana nú í bankakerfinu, en sú brtt. sem ég hef hér lýst nær til takmörkunar á atkvæðisrétti að því er varðar viðskiptabankana, þ.e. Landsbanka, Búnaðarbanka og Íslandsbanka-FBA. Má t.d. nefna, af því að miðað er við eignarhlutann 15%, að þá mundi þetta vera nálægt því sem stærsti eignaraðilinn er nú með hjá Íslandsbanka-FBA. Nú er eignarhlutur ríkisins í Landsbanka 68% og í Búnaðarbanka yfir 70%, en eins og kemur fram í þessari brtt. er á því tekið í svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða, með leyfi forseta:

,,Ákvæði 4. efnismgr. 1. gr. haggar ekki atkvæðisrétti þeirra hluthafa í viðskiptabönkum sem fara með meiri atkvæðisrétt en 15% við gildistöku laganna.``

Þetta hefur því ekki áhrif í Landsbanka og Búnaðarbanka meðan ríkið á þar meiri hluta eða yfir þessum mörkum.

Sú leið sem ég hef verið að lýsa er einn af þeim kostum sem talinn er æskilegur til að tryggja dreifða eignaraðild að fjármálafyrirtækjum og kemur fram í greinargerð Þórólfs Jónssonar sem ég hef lýst, en hún er birt sem fylgiskjal með frv. eins og ég nefndi áður. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Með löggjöf um dreift eignarhald á fjármálastofnunum yrði að því stefnt að koma í veg fyrir að einstakir aðilar næðu of miklum ítökum í fjármálastofnunum og tryggja með því sjálfstæði bankakerfisins gagnvart efnahagslífinu. Hefur því verið haldið fram að of mikil ítök einstakra aðila í fjármálafyrirtækjum geti skaðað hagsmuni viðskiptavina og annarra hluthafa.``

En í lögum um sparisjóði er ákvæði sem lýtur að hámarksatkvæðisrétti stofnfjáreigenda sparisjóða og er þar miðað við 15%.

Það er einmitt ástæða til þess að vekja athygli á því varðandi sparisjóðina á bls. 26 í greinargerð að þar er þessu sérákvæði um sparisjóðina lýst. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Um sparisjóði gilda sérsjónarmið því hámarksatkvæðisréttur einstakra stofnfjáreigenda er takmarkaður samkvæmt 35. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði nr. 113/1996, sem hljóðar svo: ,,Stofnfjáreigendur skulu eiga jafnan atkvæðisrétt nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum sparisjóðs. Þó er einstökum stofnfjáreigendum aldrei heimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði, sbr. þó 98. gr. ef sveitarfélag er eini stofnfjáreigandinn.``

Engar takmarkanir eru á því hvað stofnfjáreigendur sparisjóða mega eiga mikið stofnfé. Hins vegar leiðir af 35. gr. laganna að hver og einn stofnfjáreigandi getur aldrei farið með meira en 5% atkvæðisréttar á fundum stofnfjáreigenda.

Ákvæðið hefur því ekki bein áhrif á hversu mikið stofnfé stofnfjáraðilum er unnt að eignast í sparisjóðum en takmarkar hins vegar þann atkvæðisrétt sem þeir geta farið með.``

Herra forseti. Ég hef lýst þessari tillögu. Ég vil nefna það að nokkur ríki hafa farið þá leið að takmarka eignarhald á hlutafé jafnhliða takmörkun á atkvæðisrétti. Þar má nefna Noreg, Ítalíu, Spán, Kanada og Bandaríkin, en þessi ríki hafa farið þá leið að takmarka jafnframt eignarhluta á hlutafé.

Það er athyglisvert að í skýrslu Þórólfs Jónssonar kemur fram að ekkert ríki láti nú nægja að takmarka aðeins eignarhald á atkvæðisrétti og hann segir orðrétt í skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Það er nokkuð sérstakt þegar haft er í huga að með því mætti draga úr líkunum á því að einstakir aðilar næðu of miklum áhrifum í fjármálafyrirtækjum, án þess að hömlur væru lagðar við því að áhugasamir fjárfestar, sem ekki sæktust eftir stjórnunaráhrifum, legðu fé í viðkomandi fyrirtæki.``

Mér finnst einmitt þessi lýsing Þórólfs lýsa því mjög vel að þetta er fær leið sem út af fyrir sig er líka æskilegt að fara samhliða þeirri leið sem er í frv. um eftirlit með 10% virkum eignarhluta og geta þessi ákvæði, bæði um 10% virka eignarhlutann og eftirlit með honum og þær takmarkanir eða skorður sem hér eru settar við atkvæðisréttinum, mjög vel gengið saman.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara frekar yfir þetta mál. Ég vil þó nefna að forsrh. í þessari ríkisstjórn hefur talað mjög um --- eða gerði það a.m.k. á meðan við vorum að ræða hlutafélagavæðingu á bönkunum og takmarkaða sölu úr þeim --- þá ræddi forsrh. opinberlega um að væri rétt að setja takmarkanir á eignarhluta. Hann fór þar miklu neðar en við erum að ræða hér. Hann ræddi um að rétt væri að setja takmarkanir á eignarhluta við 3--8%. Hér látum við nægja að miða við 15% og teljum ekki rétt að fara hærra. Það er þó nokkuð stór eignarhluti sem getur tryggt ákveðna kjölfestu fjárfesta sem menn eru að kalla eftir. En um leið, þegar þessi girðing er reist, setur hún því líka ákveðnar skorður að einn aðili eða tengdir aðilar geti eignast stóran hluta í bankakerfinu sem fylgir atkvæðisréttur og þar með vald til ákvarðanatöku í viðkomandi banka.

Herra forseti. Ég ætla að láta þetta nægja. Ég fylgi þessari tillögu úr hlaði og vænti þess að þingmenn skoði jákvætt þá leið sem hér er mælt fyrir vegna þess að ég tel að þetta nægi ekki, þ.e. eins og þetta er sett fram í frv. hæstv. viðskrh. sem við í Samfylkingunni fylgjum en teljum ekki nóg að gert með þeirri leið. Þess vegna hefur þessi tillaga komið fram nú við 2. umr. um að setja skorður á atkvæðisrétt í viðskiptabönkunum.