Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 22:36:44 (7442)

2001-05-10 22:36:44# 126. lþ. 119.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv. 69/2001, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[22:36]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af spurningum hv. þm. þá vil ég fyrst vekja athygli þingmannsins á því að viðskiptabankar, þeir sem starfa nú, eru allmiklu stærri en einstakir sparisjóðir. Þar er því algerlega ólíku saman að jafna.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli hv. þm. á því að í frv., sem væntanlega kemur á dagskrá síðar í kvöld, þar sem breytt er ákvæðum laga um sparisjóði, segir að sparisjóðir sem breytt er í hlutafélag skuli breyta samþykktum og haga málum þannig að einstökum hluthöfum sé aldrei heimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% heildaratkvæða vegna sparisjóðs. Í samþykktum væri heimilt að kveða á um að sjálfseignarstofnun sem er stofnuð geti sem slík farið með meira en 5%, enda er það eðli málsins samkvæmt náttúrulegt í ljósi stærðar viðkomandi sjálfseignarstofnunar að hún fari með meira, en í sparisjóðnum sjálfum geti hver einstakur aðili ekki farið með meira en 5%.

Það gildir einfaldlega annað um sparisjóði en viðskiptabanka vegna stærðarinnar, vegna þess hve starfsemi sparisjóðanna er svæðisbundin og vegna sögu þeirra. Ég held að þessi ákvæði, þar sem talað er um virkan eignarhlut og þýðingu virks eignarhlutar fyrir starfsemi banka- og fjármálakerfisins í heild, hafi allt aðra og meiri merkingu þegar viðskiptabankar eiga í hlut og eigi síður við um sparisjóðina.