Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 22:42:25 (7445)

2001-05-10 22:42:25# 126. lþ. 119.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv. 69/2001, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[22:42]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Herra forseti. Enn þykja mér rýrna rökin. Það er verið að setja takmarkandi reglur fyrir aðrar lánastofnanir. Væntanlega gæti hún átt við aðrar lánastofnanir líka, ræðan sem hv. þm. var að flytja um að menn hafi staðið sig bærilega og þess vegna væri óþarft að setja þeim einhverjar hömlur. Hv. þm. nefndi að ekkert breyttist og þess vegna væri hægt að treysta mönnum áfram.

Málið er einfaldlega að það er verið að setja nýjar reglur. Það liggur fyrir að menn geta selt þessar stofnanir með því að selja örfá prósent. Menn telja ástæðu til að hafa strangt eftirlit með því hvernig farið sé með eignarhald á stórum lánastofnunum. Varðandi smærri sambærilegar stofnanir finnst hv. þm. það fráleitt og vantraust á þá sem stjórna þar að láta sér detta í hug að láta svipaðar reglur gilda um þær.

Ég verð að segja að ég hef ekki sannfærst. Ég endurtek að ég tel að ástæða sé fyrir hv. Alþingi til að gefa sér betri tíma og fara yfir þessar hugmyndir um breytingar á sparisjóðunum og hvernig skuli fylgja þeim inn í framtíðina. Ég er ekki að segja það í neikvæðri merkingu. Ég vil gjarnan að menn leiti leiða sem hjálpað geti til við að búa til eðlilegar stofnanir. Það er ekki eðlilegt að menn hafi með þessum hætti yfirráð yfir miklu eigin fé í krafti þess að eiga örlítinn eignarhlut í þessum fjármálafyrirtækjum, eins og staðfest yrði með þeim reglum sem þarna eru settar fram.