Viðskiptabankar og sparisjóðir

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 23:04:04 (7453)

2001-05-10 23:04:04# 126. lþ. 119.7 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv. 71/2001, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[23:04]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. við frv. til laga um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

Frv. þetta fjallar um möguleika sparisjóðanna til að breyta rekstrarformi sínu úr því sem það er í dag í hlutafélag.

Nefndin sendi þetta til umsagnar og fékk nokkra aðila til fundar við sig, sem getið er um á þskj. 1212.

Í umfjöllun nefndarinnar var að sjálfsögðu rætt um málið fram og til baka og meiri hluti nefndarinnar gerir þá tillögu að í 3. gr. frv. verði því bætt við að fara þurfi eftir skilyrðum um úthlutun til menningar- og líknarmála. Þetta er sett í því skyni að hnykkja á að það sé alveg klárt að ekki sé hægt að taka fé út úr sjálfseignarstofnun sem á við sparisjóði, hlut, nema til menningar- og líknarmála og það sé skilyrði fyrir því að sjálfseignarstofnunin njóti skattfrelsis á tekjuskatti og eignarskatti.

Allmikið var rætt um skattlagningu sjálfseignarstofnunar sem á hlut í sparisjóði. Í störfum nefndarinnar kom skýrt fram að fjármagnstekjuskattur mundi falla á slíka sjálfseignarstofnun, þ.e. sá arður sem slík sjálfseignarstofnun fær, t.d. af eignarhlut sínum í sparisjóði, yrði skattskyldur í fjármagnstekjuskatti þótt stofnunin sem slík sé undanþegin tekju- og eignarskatti.

Það hefur orðið að samkomulagi að ákveðið atriði sem tengist þessari skattlagningu muni koma til umfjöllunar í nefndinni milli 2. og 3. umr. og það verður boðað til fundar í nefndinni þar sem málið verður á dagskrá á milli 2. og 3. umr. þar sem fjallað verður sérstaklega um það tæknilega atriði sem snýr fyrst og fremst að því hvernig mat eða hvort þurfi að taka sérstaklega til skoðunar á nýjan leik mat á stofnverði hlutabréfa.

Ég tel einboðið að Alþingi afgreiði þetta mál. Þetta er mikið framfaramál fyrir sparisjóðina. Ég tel að það skipti miklu máli að sparisjóðirnir hafi möguleika til að taka þátt í þeirri samkeppni sem á sér stað á íslenskum fjármálamarkaði. Sparisjóðirnir hafa í gegnum tíðina gegnt mikilvægu hlutverki hver á sínum stað. Þeir hafa lagt mikið af mörkum til uppbyggingar atvinnulífi og þjónustu við einstaklinga á starfssvæði sínu. Hlutverk þeirra varðandi þjónustu við atvinnulífið hefur farið mjög vaxandi á síðustu árum eftir að Sparisjóðabankinn var stofnaður og sparisjóðirnir tóku að hafa með sér samstarf. Þá hafa þeir aukið mjög getu sína til að þjóna atvinnulífinu.

Ég tel að efling sparisjóðanna sé stór og mikilvægur hluti í eflingu íslenska fjármálakerfisins yfirleitt. Hörmulegt væri til þess að vita ef löggjafinn veitti ekki sparisjóðunum nægilegt svigrúm til þess að þróast og breytast þannig að sparisjóðirnir geti tekið áfram öflugan þátt í uppbyggingu á íslensku atvinnulífi, íslensku þjóðfélagi og íslensku fjármálakerfi.