Viðskiptabankar og sparisjóðir

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 23:08:25 (7454)

2001-05-10 23:08:25# 126. lþ. 119.7 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv. 71/2001, Frsm. 1. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[23:08]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta efh.- og viðskn. en minni hlutann skipar ásamt mér hv. þm. Margrét Frímannsdóttir.

Við í minni hlutanum styðjum að sparisjóðunum sé veitt heimild til þess að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag og erum því hlynnt en mikilvægt er að sparisjóðirnir hafi þennan möguleika samfara þeim miklu breytingum sem hafa orðið á fjármálamarkaðnum.

Engu að síður teljum við að komið hafi fram í meðferð málsins og umfjöllun hér á þingi nokkrir ágallar á frv. sem við sjáum ástæðu til þess að freista hér í umræðunni að reyna að ná samstöðu um að lagfæra.

Þeir lúta eignarhaldi á sparisjóðunum þegar þeim verður breytt í hlutafélag og eftirliti með sjálfseignarstofnunum sem sparisjóður þarf að stofna við breytingu í hlutafélag. Einnig gerir 1. minni hluti athugasemdir við að ekki skuli vera skilgreint í lögum hvert stofnverð hlutabréfa í hendi stofnfjáreigenda á að vera og að ekki skuli vera ljóst hvert stofnverð hlutabréfa í eigu sjálfseignarstofnunar verður. Þetta teljum við mikilvægt að verði lagfært og hefur t.d. ríkisskattstjóri gert alvarlegar athugasemdir við þetta.

En þeir þættir sem ég hér hef nefnt að því er varðar skattalega meðferð á stofnverði hlutabréfa í hendi stofnfjáreigenda, og hvert verði stofnverð hlutabréfa í eigu sjálfseignarstofnunar, eru þeir þættir sem eru óháðir þeim ágreiningi sem var uppi um hvort skattleggja ætti almennt í gegnum tekjuskatt og eignarskatt, sjálfseignarstofnanir. Þetta þarf að lagfæra alveg óháð því og það eru þeir þættir sem ég hef óskað eftir að nefndin skoði milli 2. og 3. umr. og ég heyrði að formaður nefndarinnar gat um í framsögu sinni.

Við gagnrýnum líka að sjálfseignarstofnanir skuli vera undanþegnar tekjuskatti og eignarskatti. Slíkt hefur fordæmisgildi og vekur upp spurningar um jafnræði og samkeppnisstöðu annarra sambærilegra félaga sem greiða þurfa skatt af tekjum sínum og eignum og hefur ríkisskattstjóri líka gagnrýnt þetta mjög í umsögn sinni.

Jafnframt teljum við í minni hlutanum eðlilegt að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlitsskyldu með sjálfseignarstofnunum sem stofnaðar verða ef sparisjóði er breytt í hlutafélag enda gengur meginhluti af eigin fé sparisjóðanna til sjálfseignarstofnana við þá breytingu.

Minni hluti hefur gagnrýnt út frá viðskiptalegu sjónarmiði og almannahagsmunum að núverandi stofnfjáreigendur muni fá mikil völd í krafti tiltölulega lítils eignarhluta. Framlög stofnfjáreigenda voru í árslok 1999 um 1.500 millj. kr. af samanlögðu 10,6 milljarða kr. eigin fé sparisjóðanna eða um 14%. Hlutfall stofnfjáreigenda í nokkrum stórum sparisjóðum er innan við 1% en á milli 20 og 30% í nokkrum öðrum. Fram hefur komið opinberlega að áætlað heildarmarkaðsvirði sparisjóðanna sé rúmir 19 milljarðar króna.

Stofnfjáreigendur fara með æðsta vald í málefnum sparisjóðanna og koma fram sem eigendur þeirra í krafti stofnfjárins. Frumvarpið felur í sér að við hlutafélagavæðingu sparisjóðs fái stofnfjáreigendur hlutabréf sem samsvarar núverandi verðmæti eignar þeirra í sparisjóðnum. Annað af hlutafénu rennur til sjálfseignarstofnunar sem sparisjóðurinn skal gangast fyrir stofnun á við breytinguna.

Í stjórn fulltrúaráðs sjálfseignarstofnunarinnar eiga sæti allir sem voru stofnfjáreigendur í viðkomandi sparisjóði þegar honum var breytt í hlutafélag. Þeir kjósa stjórnarmenn sjálfseignarstofnunarinnar, en hún er sett á fót um þann hluta eigin fjár sem ekki er í eigu stofnfjáreigendanna. Fulltrúaráðið getur valið fleiri til setu í ráðinu en gert er ráð fyrir að fulltrúaráðs menn séu ekki undir 30.

Ekki síst var gagnrýnt hvernig valið er þegar fjölga á í fulltrúaráðinu og hvað er gert af fámennum hópi sem hefur vald yfir gífurlegu fjármagni sem þeir eru ekki nema að litlu leyti eigendur að.

Megintilgangur sjálfseignarstofnunarinnar verður að stuðla að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins. Þannig virðist að því stefnt að breyta meginmarkmiði og tilgangi sparisjóða frá því sem þeir voru í upphafi stofnaðir til og óttast ýmsir að það verði á kostnað menningar og líknarmála í landinu.

Í því sambandi er rétt að vekja athygli á athyglisverðri grein sem var í Morgunblaðinu sl. laugardag, sem var skrifuð af löggiltum endurskoðanda, Gunnlaugi Kristinssyni, þar sem hann gagnrýnir mjög þau áform sem eru uppi um hvernig standa á að þessari breytingu og hvað hún hefur í för með sér. Hann óttaðist einmitt að sú breyting sem hér á að gera geti orðið á kostnað menningar- og líknarmála í landinu. Hann er þar með ákveðna lausn sem er mjög athyglisverð og hefði þurft að skoða nánar í nefnd ef tími hefði verið til þess. Ég ætla að vitna í lokaorð í þessari grein hjá Gunnlaugi Kristinssyni, herra forseti, en þar er hann einmitt að vitna í þessar fámennisstjórnir sem hafa þarna mikil völd í krafti lítils eiginfjármagns sem þeir eiga. Þar segir:

,,Lausnin á þessu máli er ekki flókin. Til þess þurfa menn þó að láta af þeim breyskleika sem í ásókn í völd og gróða felst. Að undanförnu hefur mikill áhugi verið á hlutafjárútboðum góðra félaga, sem flestir sparisjóðirnir vissulega eru. Það ætti því ekki að vera vandkvæðum bundið að selja hluti sjálfseignarstofnana í sparisjóðunum. Sölu hlutafjárins mætti framkvæma á einhverju tímabili, t.d. 5--10 árum, til að skapa ekki hugsanlegt offramboð og til að veita sparisjóðunum svigrúm til öflunar nýs eigin fjár. Fjármunirnir yrðu síðan eyrnamerktir ákveðnum samtökum eða settir í sjóði sem í öllu væru ótengdir sparisjóðunum fjárhagslega með það eina markmið að styðja við menningar- og líknarsamtök í landinu. Að stjórnum kæmu síðan aðilar sem hagsmuna hefðu að gæta svo og aðrir sem tryggt gætu farsæla nýtingu fjárins. Með þessu móti mundi hlutafélagavæðing sparisjóðanna verða fullkomnuð, félög í dreifðri eignaraðild þar sem eignarrétturinn væri skýr. Traust staða sparisjóðanna yrði því tryggð um ókomna tíð. Að auki væri hinum göfuga tilgangi sparisjóðanna gömlu að fullu náð.``

[23:15]

Þetta eru í stuttu máli hugmyndir þessa löggilta endurskoðanda um hvernig varðveita megi það markmið sem sparisjóðirnir höfðu, einn megintilgang þess að þeir voru stofnaðir, að styðja við bakið á menningar- og líknarsamtökum. Margir óttast að það muni glatast við þá breytingu sem hér er til umræðu, að breyta sparisjóðunum yfir í hlutafélög. En það er hraði á öllum málum í þinginu. Góðar hugmyndir sem upp koma fást vart ræddar eða athugaðar í nefndum þingsins. Þetta er ein þeirra hugmynda sem gjalda fyrir hraðann á nefndastörfunum.

Sparisjóðirnir hafa varið nokkru fjármagni til menningar- og líknarmála, misjafnlega eftir sparisjóðum en örugglega meira á landsbyggðinni en hér á höfuðborgarsvæðinu. Tilgangurinn hefur verið að greiða fyrir viðskiptum á starfssvæði sparisjóðanna og stuðla að uppbyggingu og fjárhagslegu sjálfstæði byggðarlagsins. Það markmið hefur gengið framar því að hámarka arð eigendanna. Við breytingu sparisjóðanna í hlutafélög má hins vegar ætla að arðsemi eigenda verði meginmarkmiðið.

Í frv. kemur fram að nokkrir sparisjóðir hafi selt stofnfjárbréf með góðum árangri á undanförnum árum. Ekki er hægt að útiloka að ástæða eftirspurnarinnar eftir þeim stofnfjárbréfum sé von fjárfestanna um að hagnast á hugsanlegri breytingu sparisjóðanna í hlutafélög. Það er athyglisvert sem ríkisskattstjóri segir um tilgang hlutafélagavæðingarinnar í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Markmið með eignasöfnun sjálfseignarstofnunar þessarar er hins vegar að styrkja stöðu hlutafélagsins og tryggja hagsmuni eigenda þess, sem jafnframt eru þeir sem ráða sjálfseignarstofnuninni.``

Herra forseti. Í ljósi framangreinds flytur minni hlutinn brtt. við frv. sem miðar að því að fjölga nýjum stofnfjáreigendum og opna hóp stofnfjáreigenda tiltekinn tíma fyrir almenningi áður en sparisjóði er breytt í hlutafélag. Sú tillaga kemur fram í 1. tölul. brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Við a-lið 3. gr. bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:

Sparisjóður sem hyggst breyta sér í hlutafélag samkvæmt 1. mgr. skal hafa að lágmarki tvöfaldan fjölda stofnfjáreigenda eins og þeir voru við gildistöku laganna, en þó aldrei færri en sem nemur 2% af íbúatölu þess sveitarfélags þar sem sparisjóðurinn hefur höfuðstöðvar sínar. Þessum fjölda stofnfjáreigenda er m.a. hægt að ná fram með almennu útboði til almennings á starfssvæði sparisjóðsins sem standi eigi skemur en sex mánuði.``

Ég tel að það verði að teljast mun lýðræðislegra fyrirkomulag, herra forseti, og í meira samræmi við hlutafélagalöggjöfina sem ætlunin er að laga sparisjóðina að, að fjölga í hópi þeirra sem með valdið fara í stað þess að setja vald og mikla fjármuni í hendur stofnfjáreigenda sem oft á tíðum eru mjög fáir og framlag þeirra ekki eru í neinu samræmi við það vald og þá ábyrgð sem þeir hafa yfir gríðarlegum fjármunum sem ekki eru þeirra eigin.

Veltir maður fyrir sér áhrifum hlutafélagavæðingar sparisjóðanna þá er óljóst hve margir sparisjóðir munu nýta sér ákvæði frv. um hlutafélagavæðingu. Í greinargerð með frv. kemur fram að af reynslu nágrannalandanna megi draga þá ályktun að þeir verði ekki margir hér á landi. Þar er vísað til smæðar margra sparisjóðanna og erfiðleika þeirra við að bjóða út hlutabréf sem gangi kaupum og sölum á markaði. Þó er vikið er að því í greinargerð að ákvæði frv. gætu flýtt fyrir sameiningu sparisjóða og sameinaðir sparisjóðir síðan breytt rekstrarformi sínu í hlutafélag.

Í efh.- og viðskn. var rætt um aðra leið en hlutafélagaleiðina, þ.e. að gera sparisjóðunum kleift að bjóða upp á markaðshæf bréf í sérstakri deild, svokallaðri B-deild. B-deildar bréf byggjast á því að stofna sérstakan eiginfjársjóð sem fjármagnaður er með sölu stofnfjárhluta sem aukinn arðsréttur fylgir og þeim hluta gæti líka fylgt aukinn atkvæðisréttur. Þetta er ein af þeim leiðum rædd var við 1. umr. málsins. Ég minnist þess að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði fyrir því að þessi leið yrði skoðuð í nefndinni. Ég beitti mér fyrir því að það yrði gert. Í fylgiskjali minni hlutans koma fram nokkrar spurningar sem ég lagði fyrir Fjármálaeftirlitið og ráðuneytið, m.a. um það sem lýtur að þessum B-deildar bréfum.

Skemmst er frá því að segja að þessi leið fékk ekki miklar undirtektir hjá þeim sem leitað var til, m.a. fulltrúa sparisjóðanna sem komu á fundinn. Ætla mátti að þessi leið gæti gagnast minni sparisjóðunum en fulltrúar sparisjóðanna sem mættu á fund efh.- og viðskn. mæltu ekki með henni, ekki einu sinni sem valkvæðri leið í frv. á móti hlutafélagaleiðinni. Þeir töldu að slík bréf gætu ruglað markaðinn. Varðandi þessa leið vísa ég til þeirra röksemda sem fram koma í svörum ráðuneytisins í fylgiskjali með nál. minni hlutans. Þessi hugmynd var sem sagt skoðuð í nefndinni.

Næst vík ég að skattalegri meðferð á stofnfjárbréfum og sjálfseignarstofnunum sem stofnaðar yrðu um leið og sparisjóðunum yrði breytt í hlutafélög. Ríkisskattstjóri gerði mjög alvarlegar athugasemdir í umsögn sinni við frv. við að skilgreiningu vantaði á skattalegri meðferð á stofnverði hlutabréfa í hendi stofnfjáreigenda og stofnverði hlutabréfa í hendi sjálfseignarstofnunar. Einnig gagnrýnir ríkisskattstjóri að gert sé ráð fyrir að sjálfseignarstofnanir séu samkvæmt frv. undanþegnar tekju- og eignarskatti.

Um skattskyldu stofnfjáreigenda segir ríkisskattstjóri orðrétt í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Við síðari sölu á hlutabréfunum myndast skattskyldur söluhagnaður í hendi seljenda, sem mismunur á söluverði bréfanna og stofnverði þeirra í hans hendi. Ekkert segir í frumvarpinu um það hvernig stofnverð bréfanna skuli ákveðið.``

Síðar segir ríkisskattstjóri:

,,Eðlilegt væri að fjárhæð endurmetinnar stofnfjáreignar miðað við árslok 1996 myndaði stofnverð til útreiknings á söluhagnaði. Þannig væri í reynd lögð til sams konar regla og gildir um hlutabréf.``

Um skattskyldu sjálfseignarstofnunar segir ríkisskattstjóri í umsögn sinni:

,,Ákvæði lagafrumvarpsins um sjálfseignarstofnunina uppfylla ekki skilyrði tekjuskattslaganna til skattfrelsis vegna starfa í þágu almannaheilla. Í fyrsta lagi er megintilgangur starfseminnar ekki almannaheill heldur fjáröflun og eignamyndun. Það skal á það bent í þessu samhengi að í úrskurðaframkvæmd hefur ákvæðið þetta verið túlkað fremur þröngt, þ.e. að ekki sé heimil nein ráðstöfun hagnaðar til uppbyggingu eigin fjár sjálfseignarstofnunarinnar umfram þarfir starfsemi viðkomandi stofnunar, heldur beri að ráðstafa öllum hagnaði til hinna skilgreindu almenningsheillamarkmiða. Markmið með eignasöfnun sjálfseignarstofnunar þessarar er hins vegar að styrkja stöðu hlutafélagsins og tryggja hagsmuni eigenda þess, sem jafnframt eru þeir sem ráða sjálfseignarstofnuninni.

Í öðru lagi má nefna að svæðisbundin menningar og líknarstarfsemi hefur ekki verið talin nægileg til skattfrelsis á grundvelli 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981 heldur þurfi skírskotun til almannaheilla að vera almennari. Í þriðja lagi er skattfrelsi af þessum ástæðum ekki ótímabundið en ákveðist frá ári til árs og því háð því skilyrði að öllum hagnaði af starfseminni ár hvert sé ráðstafað í þeim tilgangi sem skattfrelsið helgast af. Á það skal og sérstaklega bent að þeir lögaðilar sem skattfrjálsir eru samkvæmt 5. tölul. 4. gr. eru engu að síður framtalsskyldir samkvæmt 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þannig er í reynd gengið út frá því að það komi til sjálfstæðrar skoðunar hverju sinni hvort skilyrðum skattfrelsisins er fullnægt.``

Herra forseti. Segja má að undir sjónarmið ríkisskattstjóra sé tekið í greinargerð með frv. þar sem rækilega er undirstrikað að sjálfseignarstofnanir þær sem stofnaðar verða við breytingu sparisjóðs í hlutafélög muni allar eða nær allar í upphafi starfseminnar uppfylla skilyrði 3. gr. laga um sjálfseignarstofnanir, þar sem kveðið er á um hvað telst sjálfseignarstofnun sem stundar atvinnurekstur.

Loks segir ríkisskattstjóri í umsögn sinni:

,,Ákvæði frumvarpsins um skattfrelsi þessara sjálfseignarstofnana er því samanber framangreint andstæð grundvallarreglum laga um tekjuskatt og eignarskatt um skattskyldu og mun skattfrelsi þeirra því verða til að skapa misræmi í samanburði við stofnanir sem njóta skattfrelsis vegna starfa í almannaþágu og í samanburði við þær stofnanir og félög sem atvinnurekstur stunda og skattskyldar eru samkvæmt almennum ákvæðum skattalaganna. Sjálfseignarstofnanir þessar eru í raun ekki annað en eignarhaldsfélag og skattfrelsi þeirra hlýtur að vekja upp spurningar um jafnræði og samkeppnisstöðu annarra slíkra félaga sem greiða þurfa skatt af tekjum sínum og eignum auk þess sem fyrrum stofnfjáreigendur sækja sem eigendur hlutafélagssparisjóðs fjármálalegt áhrifavald í eignir sem þeir ekki eiga en er í vörslu sjálfseignarstofnunar sem þeir stjórna. Skattfrelsi þetta verður sérstaklega vafasamt í ljósi þess að óhjákvæmilegt virðist að með tímanum verði nokkur hluti af eignum sjálfseignarstofnunarinnar bundinn í öðru en hlutafé í sparisjóðnum og tekjur sjálfseignarstofnunar af þeim ekkert tengdar starfsemi sparisjóðsins.

Engin rök eru færð í greinargerð með frumvarpinu fyrir skattfrelsi þessara sjálfseignarstofnana umfram önnur félög sem stunda atvinnu, þar með talið sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Með hliðsjón af því að skattfrelsi þetta stríðir á móti meginreglum skattalaga um þetta efni og er slæmt fordæmi sem auk þess vekur upp spurningar um jafnræði og samkeppnisaðstöðu telur ríkisskattstjóri mjög varasamt að fara þá leið sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, að gera þessar stofnanir skattfrjálsar, og leggur eindregið til að síðasti málsliður í b-lið 3. gr. frumvarpsins verði felldur úr því.``

Ríkisskattstjóri vísar hér til sérstaks ákvæðis sem hefur verið sett í frv. um að sjálfseignarstofnanir sem koma skal á fót samkvæmt frv. skuli vera undanþegnar tekju- og eignarskatti.

Í greinargerð með frv. er á margan hátt tekið undir það sem fram kemur í áliti ríkisskattstjóra, m.a. að megintilgangur með starfsemi sjálfseignarstofnunarinnar er ekki almannaheill heldur fjáröflun og eignamyndun. Má þar t.d. nefna að fram kemur í frv. að andvirði greidds arðs til sjálfseignarstofnunar sé hægt að ráðstafa á þrjá vegu. Í fyrsta lagi sé hægt að endurfjárfesta með kaupum á hlutabréfum í viðkomandi sparisjóði. Í öðru lagi að ávaxta laust fé, t.d. í innlánum eða markaðsverðbréfum. Í þriðja lagi gæti hún ráðstafað andvirði móttekins arðs til menningar- og líknarmála.

Einnig er nefnt sem almenn leiðbeining um endurfjárfestingu í frv. að eðlilegt sé að sjálfseignarstofnunin fjárfesti í auðseljanlegum eignum, svo sem sjóðum um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum eða í skuldabréfum og hlutabréfum skráðum á skipulegum verðbréfamarkaði.

Herra forseti. Í samræmi við álit ríkisskattstjóra flytjum við í minni hlutanum brtt. þar sem við tökum upp sjónarmið og tillögur sem fram koma í áliti ríkisskattstjóra. En þar er jafnframt lagt til að sé hagnaði ráðstafað til menningar- og líknarmála innan ársins verði sá hluti hagnaðarins ekki skattskyldur. Það er afar mikilvægt. Það er reyndar ekki tillaga ríkisskattstjóra heldur tillaga okkar jafnframt því að við tókum upp tillögur hans. Auk þess að fylgja ábendingum ríkisskattstjóra er einnig lagt til að sá hluti af hagnaði innan árs sem varið er til menningar- og líknarmála verði undanþeginn tekju- og eignarskatti. Við teljum það afar mikilvægt til að halda í þann þátt í starfi sparisjóðanna sem hefur verið mikilvægur ekki síst fyrir dreifbýlli byggðarlög.

Loks flytur minni hlutinn brtt. um að sjálfseignarstofnanir sem stofnað verði til í tengslum við hlutafélagavæðingu á sparisjóði verði eftirlitsskyldar hjá Fjármálaeftirlitinu líkt og aðrar fjármálastofnanir. Minni hlutinn telur slíkt eðlilegt í ljósi þess að sjálfseignarstofnun er í raun eignarhaldsfélag sem á meginhlutann í sparisjóðnum við stofnun og eignast allt það hlutafé sparisjóðsins sem stofnfjáreigendur geta ekki gert tilkall til.

Að óbreyttu verður einungis um að ræða að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með hæfi sjálfseignarstofnunar til að fara með hlut í sparisjóði sé eignarhlutur sjálfseignarstofnunar virkur í skilningi laganna. Minni hlutinn flytur því brtt. þess efnis að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með starfsemi sjálfseignarstofnunar, sem er eðlilegt þar sem stærsti hluti efnahagsreiknings sjálfseignarstofnunarinnar er hlutafjáreign hennar í sparisjóðnum.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir brtt. minni hluta efh.- og viðskn., sett fram rök fyrir þeim og greint frá sjónarmiðum okkar varðandi frv. sem hér er til umræðu. Að þessum brtt. samþykktum, sem settar eru fram á sérstöku þingskjali, styður minni hlutinn frv. en verði þær felldar vísar minni hlutinn allri ábyrgð á málinu á hendur meiri hlutanum.