Breyting á XI. viðauka við EES-samninginn (fjarskiptaþjónusta)

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 10:06:45 (7462)

2001-05-11 10:06:45# 126. lþ. 120.8 fundur 638. mál: #A breyting á XI. viðauka við EES-samninginn (fjarskiptaþjónusta)# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[10:06]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það má segja að þetta sé rétt ábending hjá formanni nefndarinnar og hef ég að sjálfsögðu íhugað það. Þess vegna nefndi ég þetta í inngangi umræðu um utanríkismálin en fór ekki upp um störf þingsins.

En ég get alveg upplýst það að ég er afskaplega hrædd um að ekki eigi að afgreiða þetta mál. Fjallað var um það á jákvæðum nótum í utanrmn. þar til menn áttuðu sig á því að það gæti þurft að lögleiða rétt félagasamtaka til þessara upplýsinga. Ekki voru höfð mörg orð um það þegar við afgreiddum önnur mál úr nefndinni að þetta yrði eftir og ekki upplýst fyrr en við fyrirspurn mína.

Ég er því auðvitað svolítið að misnota aðstöðu mína með því taka þetta mál upp undir fyrsta utanríkismálinu sem við ræðum í dag en ég valdi það þó, herra forseti, af því að ég sé ekki ástæðu til að koma upp í hinum málunum. Svo munum við ræða þetta í nefndinni. En ég er auðvitað að óska liðsinnis forseta í þessu máli.