Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2001

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 10:37:10 (7480)

2001-05-11 10:37:10# 126. lþ. 120.17 fundur 656. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2001# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[10:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er um að ræða árlega framlengingu, má segja, á samningum Íslands, Noregs, Færeyja, Evrópusambandsins og Rússlands um nýtingu og veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum. Það er orðinn sjálfgefinn hlutur, að því er virðist, að menn framlengi þessa samninga sem þó voru gerðir með fyrirheitum um endurskoðun og viðleitni til að lagfæra stöðu Íslands í byrjun. Við vorum margir sem spáðum því að þetta mundi reynast nokkuð bindandi þegar frá liði og nú eru ekki einu sinni, að því er virðist, neinar umræður uppi um að breyta þessum samningum og samskiptum. Vissulega má segja að það sem valdi mönnum vonbrigðum í þeim efnum og þyngi fyrir fæti sé sú staðreynd að norsk-íslenski síldarstofninn hefur ekki byggst upp eins og menn bundu vonir við að hann væri að gera á þessum árum og því miður stefnir í frekari niðurskurð á veiðum á næstu árum. Það gerir að sjálfsögðu erfitt um vik við að breyta skiptahlutföllum, sérstaklega í tilviki Íslands þar sem stofninn hefur ekki aukið göngur sínar að marki á íslensk hafsvæði eins og menn bundu vonir við að hann mundi gera þegar stofninn stækkaði og hlutfall stórsíldar eða fullorðinnar síldar yrði meira í stofninum.

Ég var þeirrar skoðunar á sínum tíma að það væri ekki góð niðurstaða fyrir Ísland að fá nokkuð undir 20% af skiptingu þessa stofns sem á árum áður var fyrst og fremst nýttur af Íslendingum og Norðmönnum. Veiði Íslendinga, þ.e. hlutdeild Íslendinga, var um langt árabil á milli 30--40% af stofninum. Stofninn dvaldi innan íslenskrar lögsögu eða á íslenskum hafsvæðum stóran hluta úr árinu, jafnvel meira en hálft árið. Veiðar á stórsíld voru að uppistöðu á íslensku svæði. Norðmenn voru hins vegar drýgri við að veiða smásíldina inni á fjörðum sem væntanlega átti stærstan þátt í því að stofninn hrundi svo harkalega sem raun bar vitni.

Það er ekki aðeins skiptahlutfallið sem horfa þarf á í þessum efnum, herra forseti, og þessi 17, 18% eða hvað það nú er sem Ísland fær í sinn hlut, heldur líka aðstaða manna til að veiða það magn sem þeir þó fá. Staðan er þannig að Íslendingar mega, af sínum kvóta í ár, upp á 132 þús. lestir, aðeins veiða 5.900 lestir innan norsku lögsögunnar. Nú stendur svo á, herra forseti, að það er sjómannaverkfall og ef ekki leysist úr því fljótlega gætu farið að verða áhöld um hversu vel gengur að ná veiðheimildum Íslendinga á Íslandsmiðum. Auðvitað eru veiðimöguleikar innan færeysku lögsögunnar, í sjálfri síldarsmugunni og við Jan Mayen. Það er reyndar tíundað hér sem sérstakt ágæti þessara samninga að íslensk skip hafi ótakmarkaðan aðgang að lögsögunni við Jan Mayen. Það höfðu íslensk skip sjálfkrafa á grundvelli Jan Mayen-samningsins svonefnda frá 1976 og þurfti ekki þetta samkomulag til. Ef svo illa færi að göngur síldarinnar hingað í vesturátt inn á íslenskt hafsvæði, í færeysku lögsöguna eða síldarsmuguna, yrðu endasleppar þá gæti sú staða skapast að Íslendingar ættu óveiddan verulegan hluta kvóta síns síðsumars. Þá erum við bundnir af því að fá einungis að taka 5.900 lesta kvóta innan norsku lögsögunnar á sama tíma og norsk skip mega veiða allt að 94.200 lestir í íslenskri lögsögu eða nálægt fimmtungi síns kvóta. Þetta eru ekki sanngjörn skipti og er eitt af þeim atriðum sem ég taldi að samist hefði óhönduglega um fyrir Íslands hönd. Þess vegna hef ég, herra forseti, haft fyrirvara á stuðningi við árlegt samkomulag þessara aðila og mun væntanlega gera áfram og binda við það vonir að einhvern tíma skapist á nýjan leik þær aðstæður að hægt verði að breyta þessum samningum og gera hlutdeild Íslendinga í þeim betri.

Hinu er að sjálfsögðu ekki að leyna að mikilvægt var að ná tökum á veiðum úr þessum stofni og koma á samkomulagi sem tryggði nauðsynlega fiskveiðistjórn og verndunaraðgerðir. Það er kannski það skásta sem menn geta sagt þessari niðurstöðu til málsbóta að það er þó í rétta átt þótt menn hafi því miður ekki staðið að fullu við að framfylgja aflareglu og draga saman veiðar eins og ráðgjöf vísindamanna kveður á um til að möguleikar skapist á því að stofninn byggist upp á nýjan leik.

Þegar norsk-íslenski síldarstofninn var upp á sitt besta var hann einn stærsti fiskstofn heimsins. Veiðar úr honum sköpuðu gríðarleg verðmæti í Noregi, Íslandi, Færeyjum og víðar. Auðvitað hljótum við að binda vonir við að þær aðstæður geti skapast á nýjan leik að veiðar úr þessum stofni geti farið vel á aðra milljón tonna og að stofninn sjálfur komist í sögulega og fulla stærð, einhvers staðar á bilinu 2,5--3 millj. tonna. Þá ætti hlutdeild Íslendinga með réttu að geta numið allmörgum hundruðum þúsunda tonna á ári. Ef um semdist þannig að menn mættu veiða tiltölulega frjálst í lögsögu hvers annars og taka veiðina þegar fiskurinn væri sem verðmætastur, sérstaklega með hliðsjón af möguleikum til manneldisvinnslu, þá gætu verið fólgnir í nýtingu þessa stofns gríðarlegir verðmætasköpunarmöguleikar í framtíðinni. Það er kannski ekki mörgu hliðstæðu til að dreifa á hafsvæði okkar nema bara þorskinum. Lauslega reiknað má að lágmarki þrefalda til fimmfalda verðmæti aflans með því að vinna hann til manneldis í stað þess að setja hann í bræðslu. Þá geta reikningsglöggir menn áttað sig á því að hér gæti verið stórt á stykkinu ef þessi framtíðarsýn gengi eftir og fengi að rætast. Til þess að svo verði er að sjálfsögðu mikilvægt að menn stundi veiðarnar af ábyrgð og það er kannski það sem helst er þessu samkomulagi til málsbóta að það skapar vissa möguleika til þess. En með hitt bakka ég ekki, herra forseti, að hlutur Íslands í þessu eins og nú stendur er rýr bæði hvað varðar skiptahlutfallið og aðgang okkar að veiðunum á hafsvæðinu.