Landhelgisgæsla Íslands

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 11:03:37 (7487)

2001-05-11 11:03:37# 126. lþ. 120.21 fundur 673. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (smíði varðskips) frv. 64/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[11:03]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef oftar en einu sinni, ég hef mörgum sinnum, teflt þessum röksemdum fram. Það sem einkennir núna efnhagsþróunina í heiminum og samskipti ríkja sérstaklega er samræming á sviði skatta og tolla. Þetta gerist á ýmsum forsendum og ýmsum sviðum, að sönnu innan Evrópusambandsins en einnig á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og fleiri samtaka. Þetta er þróun sem er að eiga sér stað, að heimurinn er smám saman að verða einsleitari að þessu leyti. Það er að gerast.

Það sem hins vegar hangir á spýtunni gagnvart Evrópusambandinu er annað og miklu meira vegna þess að þar eru menn að skapa sér nýtt ríki með gagnkvæmum skuldbindingum innbyrðis á milli þeirra þjóða sem mynda þetta nýja ríki. Það sem ég er að finna að eru þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist og birtast m.a. í þessu frv. og þeirri umræðu sem ég vakti í tengslum við það.

Við vildum mörg fara aðrar leiðir til þess að ná þessari tollasamræmingu. Við erum að sjálfsögðu ekki andvíg því að samræma tolla og skapa okkur eðlilegt og gott tollaumhverfi fyrir okkar vörur. Að sjálfsögðu erum við ekki andvíg því. Við erum því fylgjandi. En við vildum gera það í tvíhliða samningum og erum því reyndar fylgjandi að þegar fram líða stundir, þ.e. þá viljum við freista þess að þróa þennan samning yfir í slíkan vettvang og losa okkur undan þeim fjötrum sem Evrópusambandið setur á okkur í sívaxandi mæli. Hér var verið að ræða áðan frv. sem undanskilur okkur þeirri kvöð að birta á prenti tilskipanir og reglur Evrópusambandsins sem við höfum undirgengist. Það er meira að segja orðið of dýrt að prenta lögin sem eiga að gilda í þessu landi.