Landhelgisgæsla Íslands

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 11:08:07 (7489)

2001-05-11 11:08:07# 126. lþ. 120.21 fundur 673. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (smíði varðskips) frv. 64/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[11:08]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef alla tíð viljað túlka þá samninga sem við gerum okkur í hag, að sjálfsögðu. Og ég hef viljað og hef stutt það að við reyndum í þessu tilviki að túlka samninginn okkur í hag. Ég er hins vegar að vekja athygli á þeim þversögnum sem er að finna í málflutningi manna varðandi þetta efni.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að ég tel að EES-samningurinn hafi verið óásættanlegur fyrir Íslendinga og þrengt mjög að okkur í lýðræðislegu tilliti. Ég er að vekja athygli á þeirri ranghugsun sem mér finnst hafa komið fram í túlkunum manna og tengingu annars vegar á milli efnahagslegrar velsældar undangengin ár og hins vegar þessa samnings sem hefur verið þrengjandi og ekki fært okkur þá velsæld sem menn vilja vera láta nema síður væri. Þessi samningur hefur þrengt að okkur.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að þegar menn semja þá undirgangast þeir iðulega vissar kvaðir. Ég auglýsi eftir því að Alþingi og þjóðin, fjölmiðlar og við öll leggjum okkur eftir því að fylgjast með því sem er að gerast á alþjóðavettvangi og þá nefni ég sérstaklega Alþjóðaviðskiptastofnunina. Þar eru að eiga sér stað samningaviðræður sem eru mjög mikið á bak við tjöldin. Við þurfum að svipta þarna hulunni frá því að þar eru á ferðinni samningar sem gætu bundið hendur okkar verulega ef við gáum ekki að. Um þetta fer núna fram vaxandi umræða í heiminum og það er mjög mikilvægt að þeir sem vilja standa vörð um lýðræðið og koma í veg fyrir að markaðsöflin nái tökum á samfélögum okkar standi þessa vakt. Það finnst mér menn því miður ekki hafa gerst varðandi EES-samninginn á sínum tíma og þróunina þar á bæ.